Í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka er gert ráð fyrir afar hægum hagvexti á þessu ári. Bakslag í ýmsum útflutningsgreinum ásamt áhrifum hárra raunvaxta á innlenda eftirspurn eru helstu skýringar þess. Spáð er 0,6% hagvexti í ár og ekki þarf mikið út af að bregða svo vöxturinn snúist í samdrátt. Samkvæmt spánni glæðist hagvöxtur á ný á næstu tveimur árum, studdur af bata í útflutningsgreinum og minnkandi vaxtaaðhaldi. Fjárfesting tekur þá aftur við sér og vöxtur einkaneyslu verður þróttmeiri en í ár.
Þjóðhagsspá Íslandsbanka: Í skugga kólgubakka
Greining Íslandsbanka spáir fyrir um þróun efnahagsmála árin 2026-2028
Verðbólga verður áfram þrálát og yfir markmiði Seðlabankans. Lokaspretturinn að verðbólgumarkmiðinu mun reynast erfiður og ekki útlit fyrir að því verði náð á spátímanum að öðru óbreyttu. Gert er ráð fyrir að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum þar til verðbólga fer að hjaðna á ný. Líklegt er að vaxtalækkunarferlið hefjist á vordögum 2026 og varfærin vaxtalækkunarskref verði stigin fram á mitt ár 2027. Horfur eru á hægfara veikingu krónunnar á spátímanum, enda er hátt raungengi áskorun fyrir útflutningsgeirann og skapar lækkunarþrýsting á gengið.
Stiklað á stóru
Hagvöxtur – Spáð er 0,6% hagvexti í ár, 2,8% árið 2027 og 3,0% árið 2028. Tímabundið bakslag í útflutningi og háir raunvextir halda aftur af hagvexti á næstunni
Utanríkisviðskipti – Minni viðskiptahalli í kortunum en undanfarið. 1,1% viðskiptahalli í ár en í kringum 1% árin 2027-2028
Vinnumarkaður – Slaki á vinnumarkaði en laun hækka allnokkuð. Laun hækka um 6,6% í ár, 6,0% árið 2027 og 4,9% árið 2028
Verðbólga – Verðbólga reynist þrálát en hjaðnar svo hægt og bítandi framan af spátímanum. Spáð er 4,0% verðbólgu að jafnaði í ár, 3,6 árið 2027 og 3,5% árið 2028
Vextir – Hlé á vaxtalækkunarferli fram á vor vegna þrálátrar verðbólgu. Hægfara vaxtalækkunarferli frá maí 2026 fram á mitt ár 2027. Stýrivextir verða á bilinu 5,5-6,0% á seinni helmingi spátímans
Krónan – Líkur á veikingu krónu aukast jafnt og þétt á spátímanum. Búist er við um það bil 5-6% veikari krónu á spátímanum


