Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þjóðhagsspá Íslandsbanka - Aðlögun í byrjun áratugar

Samdráttur er ekki í kortunum þrátt fyrir bakslag í ferðaþjónustu. ​Aðlögun hagkerfisins eftir mikið vaxtarskeið verður líklega léttbærari en horfur voru á en mun taka tíma.


Eftir gjöfult hagvaxtarskeið er hafinn aðlögunartími í íslensku hagkerfi. Góðu heilli eru fjölmargar stoðir íslenska hagkerfisins býsna sterkar um þessar mundir og er útlit fyrir að aðlögunin verði fremur léttbær og lífskjör þorra landsmanna haldi áfram að vera eins og best gerist meðal landa heims.

Útlit er fyrir að hagvöxtur hafi verið 0,3% á árinu 2019 í heild. Snarpur samdráttur í fjármunamyndun atvinnuvega og þjónustuútflutningi vegst þar á við vöxt neyslu og mikinn samdrátt innflutnings.

Á yfirstandandi ári gerum við ráð fyrir fremur hægum vexti, eða 1,4%, drifnum af hóflegum vexti innlendrar eftirspurnar. Meiri kraftur færist svo í vöxtinn árin 2021 og 2022 að mati okkar en þá spáum við 2,3% og 2,4% vexti eftir því sem meiri þróttur færist í einkaneyslu og útflutning á nýjan leik.

Þjóðhagsspá Greiningar má nálgast hér.

Stiklað á stóru

  • Hagvöxtur verður 1,4% í ár, 2,3% árið 2021 og 2,4% 2022.

  • Útflutningur nær sér hægt og sígandi á strik og vex um 0,4% í ár og 2,0% árið 2021.

  • Áfram verður afgangur af utanríkisviðskiptum. 2,8% af VLF í ár en 2,5% af VLF árið 2021.

  • Verðbólga verður hófleg á komandi misserum. 2,2% á þessu ári en 2,6% árið 2021.

  • Vöxtur kaupmáttar verður stöðugur þrátt fyrir fremur hóflega hækkun launa. 2,2% í ár en 2,1% árið 2021.

  • Atvinnuleysi verður allnokkurt á komandi misserum. 4,4% í ár og 3,8% á árinu 2021.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Senda tölvupóst