Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Það hægir á vexti kortaveltu

Kortavelta jókst nokkuð í mars á milli ára samkvæmt nýlegum tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Að raunvirði er vöxturinn um 11% sem er hægari vöxtur en síðustu tvo mánuði. Líkur eru á hægari kortaveltuvexti á allra næstu mánuðum þegar áhrif afturvirkra launahækkana fjara út og áhrif hærra vaxtastigs koma fram í neysluhegðun landans.


Kortavelta innanlands nam 108 ma.kr. í mars síðastliðnum og jókst um 21% miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar. Þegar tekið er tillit til verðlags var vöxturinn um 11%. Hægt hefur talvert á vextinum miðað við síðastliðna mánuði en í janúar og febrúar tók neyslan talsvert við sér á nýjan leik. Helstu ástæðu þess má rekja til afturvirkra launahækkana sem stór hluti vinnumarkaðar fékk vegna nýrra kjarasamninga í byrjun árs. 

Kortavelta innlendra greiðslukorta nam ríflega 86 ma.kr. þar sem raunvöxtur var um 5% á milli ára á meðan kortavelta erlendra greiðslukorta nam ríflega 22 ma.kr. og jókst um 45% að raunvirði. Þessi svakalegi vöxtur á veltu erlendra greiðslukorta hérlendis skýrist fyrst og fremst af áhrifum faraldursins sem og stríðsins í byrjun síðasta árs sem setti strik í reikninginn í komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Velta erlendra korta hér á landi er um 20% af heildarveltunni og velta íslenskra korta um 80%.

Aukning veltu í verslun og þjónustu

Velta innlendra greiðslukorta skiptist nokkuð jafnt á milli verslunar annars vegar og þjónustu hins vegar. Í verslun nam kortavelta ríflega 46 ma.kr. í mars og jókst um tæplega 14% á milli ára. Þar eru stórmarkaðir- og dagvöruverslanir langstærsti liðurinn, skýrir um helming af heildarveltu í verslun, og jókst sömuleiðis um 21% á milli ára að nafnvirði. Næst stærsti liðurinn er önnur verslun sem inniheldur opinber gjöld og úttektir á reiðufé. Langmestur var vöxturinn hins vegar í gjafa- og minjagripaverslunum eða 74% vöxtur á milli ára. Einnig mælist mikill vöxtur í tollfrjálsri verslun (30%) og raf- og heimilistækjaverslunum (16%). Aðeins einn liður í verslun dregst saman á milli ára sem eru verslanir með heimilisbúnað.

Velta í þjónustu nam tæplega 41 ma.kr. í marsmánuði og jókst sömuleiðis um 14% á milli ára. Stærsti liðurinn í þjónustu er önnur þjónusta sem inniheldur marga liði eins og byggingaþjónustu, fjármála- og tryggingastarfsemi og lækna-og tannlæknaþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Þessi liður skýrir um 39% af heildarveltunni í þjónustu. Nær allir liðir í þjónustu jukust á milli ára en mestur var vöxturinn þó í menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi sem jókst um 32% á milli ára. Það skýrist að mestu af áhrifum faraldursins á slíka starfsemi fyrir ári síðan.

Fjöldi ferðamanna hefur sitt að segja

Eins og fyrr sagði jókst kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi um 45% að raunvirði. Þessi vöxtur skýrist fyrst og fremst af talsvert fleiri ferðamönnum í mars á þessu ári en í fyrra. Brottfarir erlendra farþega frá landinu voru um 161 þúsund í mars samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Það eru 59% fleiri ferðamenn en voru hér í fyrra.

Það skal engan undra að stærsti hluti af erlendu kortaveltunni fer í gistiþjónustu eða um fjórðungur. Einnig er vöxturinn á milli ára langmestur í gistiþjónustunni eða um næstum 100%. Allir liðir í erlendu veltunni vaxa á milli ára, þar má helst nefna gjafa- og minjagripaverslun (80%), stórmarkaðir- og dagvöruverslun (69%) og veitingaþjónusta (58%). Líklega mun draga talsvert úr þessum mikla vexti á milli ára á allra næstu mánuðum þar sem áhrif faraldursins minnkuðu þegar leið á árið. Hins vegar má ætla að áframhaldandi vöxtur sé í vændum þar sem talsvert útlit er fyrir talsvert fleiri ferðamenn hingað til lands í ár en í fyrra.

Mun hægja á vexti einkaneyslu?

Einkaneysla jókst um 8,7% í fyrra sem er hraðasti vöxtur síðan árið 2005. Vöxturinn var sérstaklega hraður á fyrri helmingi ársins og dró jafnt og þétt úr honum á seinni helmingi ársins. Einkaneyslan tók svo kipp á nýjan leik í byrjun þessa árs sem ætla má að hafi verið vegna nýundirritaðra kjarasamninga þar sem launafólk fékk afturvirkar launahækkanir. Útlit er fyrir að draga muni úr þeim áhrifum þegar frá líður og að hægja taki á vexti einkaneyslu. Þó eru mestar líkur að einkaneyslan muni halda áfram að vaxa á árinu. Stórir hópar opinberra starfsmanna hafa nýlega samið um talsverða hækkun launa auk þess sem heimilin standa flest hver vel og eiga talsvert af uppsöfnuðum sparnaði. Í þjóðhagsspá okkar frá því í febrúar spáðum við um 2,5% vexti einkaneyslu á þessu ári enda útlit fyrir að að áhrif vaxtahækkana komi í vaxandi mæli fram í neyslu- og sparnaðarhegðun fólks.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband