Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Sviðsmyndir undirstrika óvissuna um efnahagshorfur

Framgangur Covid-19 faraldursins, hernaður Rússa í Úkraínu og niðurstaða kjarasamninga eru meðal helstu óvissuþátta á komandi mánuðum sem haft geta áhrif á efnahagsþróun næstu missera. Sviðsmyndir í þjóðhagsspá okkar draga fram áhrif þessara þátta og varpa vonandi ljósi á hversu afdrifaríkir þeir geta orðið fyrir íslenskan þjóðarbúskap næstu þrjú ár.


Horfur fyrir efnahagslífið jafnt hérlendis sem á heimsvísu hafa sveiflast mikið frá því við gáfum síðast út þjóðhagsspá í janúar síðastliðnum. Sér í lagi hefur framþróun Covid-19 faraldursins og innrás Rússa í Úkraínu breytt horfunum á undanförnum vikum og mánuðum. Þá er einnig veruleg óvissa um hvernig kjarasamningum á almennum vinnumarkaði mun vinda fram á seinni hluta ársins. Getur það skipt verulegu máli fyrir efnahagsþróun hér á landi hvort þar næst farsæl lending sem samrýmist hóflegri verðbólgu á komandi misserum. Aðstæður þegar kjarasamningsviðræður fara á fullan skrið ráðast svo ekki síst af fyrrnefndu áhrifaþáttunum tveimur.

Þótt þjóðhagsspá okkar rammi inn þá þróun sem við teljum líklegasta á komandi misserum geta framangreindir þættir, sem allir ráðast væntanlega á allra næstu fjórðungum, haft veruleg áhrif á þróun bæði í ár og næstu ár. Við ákváðum því að setja saman tvær frávikssviðsmyndir um efnahagsþróun hérlendis til viðbótar við grunnspá okkar, sem við teljum bæði líklega og vera í jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni á þróunina:

  • Bjartsýnissviðsmynd þar sem við teljum um það bil 10% líkur á að þróunin geti orðið svo hagstæð eða enn betri.
  • Svartsýnissviðsmynd þar sem við teljum um það bil 10% líkur á að þróunin geti orðið svo óhagstæð eða enn verri.

Fráviksspárnar tvær endurspegla því þróun sem við teljum raunhæfa en þó talsvert ólíklegri en þá sem grunnspáin lýsir.

Hér er um huglægt mat að ræða fremur en tölfræðilegt og ber að hafa í huga að samspil viðkomandi áhrifaþátta (faraldurs, stríðs og kjarasamninga) getur verið ólíkt því sem hér er lýst og einhverjir þeirra þróast á betri veg meðan þróun annarra verður í ætt við forsendur í svartsýnissviðsmyndinni.

Vert er að benda á að sviðsmyndirnar og kannski sér í lagi sú dökka eru ekki hugsaðar sem álagssviðsmyndir. Mögulegt er að teikna upp enn óhagstæðari þróun en hér er gert en að sama skapi verða líkurnar á að slíkt raungerist minni. Sviðsmyndunum er ætlað að ramma inn þá þróun sem við teljum mestar líkur á að einkenni spátímann. Í grófum dráttum teljum við 80% líkur á að framgangan verði hvorki verri en dökka sviðsmyndin né hagstæðari en sú bjartsýna.

Verulegu getur munað á hagvexti á spátímanum eftir því hvernig framangreindar lykilbreytur þróast. Þannig gæti hagvöxtur orðið 2% minni á tímabilinu en í grunnspá ef þróun þessara þriggja þátta verður óhagstæð á komandi mánuðum. Að samaskapi gæti farsæl þróun þeirra ýtt vexti upp um 1,3% á tímabilinu samkvæmt bjartsýnu sviðsmyndinni. Minni umsvif í hagkerfinu myndu svo endurspeglast í meira atvinnuleysi þegar fram í sækir en hraðari vöxtur að sama skapi leiða til hraðari hjöðnunar á atvinnuleysi en í grunnspánni.

Þróun framangreindra óvissuþátta hefur ekki síst áhrif á útflutningsgreinar hagkerfisins og sér í lagi á ferðaþjónustuna sem er ein stærsta uppspretta hagvaxtar í ár og vegur einnig þungt í vexti komandi ára í grunnspá okkar. Við áætlum að ferðamenn hér á landi gætu orðið á bilinu 1.150 þúsund til 1,7 milljónir miðað við sviðsmyndirnar tvær og árið 2024 er þetta bil 1,7 – 2,3 milljónir að gefnum sömu forsendum. Útflutningstekjur hagkerfisins og gengisþróun krónu geta því orðið býsna ólík eftir því hvernig þessum þremur þáttum vindur fram.

Miðað við svartsýnu forsendur okkar gæti krónan veikst talsvert að nýju í ár og ekki náð svipuðum styrk og um þessar mundir fyrr en að tveimur árum liðnum. Gangi bjartsýnu forsendurnar eftir mun það hins vegar væntanlega leiða til hraðari styrkingar krónu og hærra gengis hennar þegar frá líður.

Mismunandi þróun gengis krónu, verðlags á heimsvísu, launa á íslenskum vinnumarkaði og íbúðaverðs skilar sé á endanum í ólíkri verðbólguþróun eftir því hvort Úkraínustríðið, faraldurinn og kjarasamningsgerð á vinnumarkaði þróast til betri eða verri vegar. Hagfelld þróun myndi leiða til töluvert hraðari hjöðnunar verðbólgu og gæti verðbólgan verið komin í markmið Seðlabankans um mitt næsta ár. Óhagstæð þróun verður hins vegar til að blása enn meira lífi í verðbólguglærurnar til skemmri tíma litið þótt á endanum myndu minni efnahagsumsvif, aukið atvinnuleysi og styrking krónu leiða til hjöðnunar verðbólgunnar.

Það er því talsvert í húfi fyrir íslenskan þjóðarbúskap að óvissuþættirnir þrír þróist til betri vegar fremur en verri. Við fáum vitaskuld litlu ráðið um framgang faraldursins eða stríðsrekstur Rússa í Úkraínu en kjarasamningarnir eru hins vegar í höndum aðila vinnumarkaðarins. Óskandi er að niðurstaðan þar verði í það minnsta ekki til þess að auka á óstöðugleika og valda búsifjum umfram það sem ytri áhrifaþættir gætu gert.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband