Horfur fyrir efnahagslífið jafnt hérlendis sem á heimsvísu hafa sveiflast mikið frá því við gáfum síðast út þjóðhagsspá í janúar síðastliðnum. Sér í lagi hefur framþróun Covid-19 faraldursins og innrás Rússa í Úkraínu breytt horfunum á undanförnum vikum og mánuðum. Þá er einnig veruleg óvissa um hvernig kjarasamningum á almennum vinnumarkaði mun vinda fram á seinni hluta ársins. Getur það skipt verulegu máli fyrir efnahagsþróun hér á landi hvort þar næst farsæl lending sem samrýmist hóflegri verðbólgu á komandi misserum. Aðstæður þegar kjarasamningsviðræður fara á fullan skrið ráðast svo ekki síst af fyrrnefndu áhrifaþáttunum tveimur.
Þótt þjóðhagsspá okkar rammi inn þá þróun sem við teljum líklegasta á komandi misserum geta framangreindir þættir, sem allir ráðast væntanlega á allra næstu fjórðungum, haft veruleg áhrif á þróun bæði í ár og næstu ár. Við ákváðum því að setja saman tvær frávikssviðsmyndir um efnahagsþróun hérlendis til viðbótar við grunnspá okkar, sem við teljum bæði líklega og vera í jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni á þróunina:
- Bjartsýnissviðsmynd þar sem við teljum um það bil 10% líkur á að þróunin geti orðið svo hagstæð eða enn betri.
- Svartsýnissviðsmynd þar sem við teljum um það bil 10% líkur á að þróunin geti orðið svo óhagstæð eða enn verri.
Fráviksspárnar tvær endurspegla því þróun sem við teljum raunhæfa en þó talsvert ólíklegri en þá sem grunnspáin lýsir.