Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Styrkir úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka


Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna COVID-19 faraldursins hefur stjórn Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka ákveðið að úthluta styrkjum úr sjóðnum þann 15. júní næstkomandi. Með þessu vill stjórnin styðja við bakið á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í landinu og bregðast skjótt við alvarlegum fjárhagsvanda margra frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi.

Líkt og áður verða veittir styrkir úr sjóðnum til verkefna sem stuðla sérstaklega að heimsmarkmiðunum fjórum sem bankinn leggur áherslu á, en þau eru; nýsköpun og uppbygging, jafnrétti kynjanna, menntun fyrir alla og aðgerðir í loftslagsmálum.

„Við hjá Íslandsbanka viljum vera hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu. Með þessu framtaki viljum við sýna stuðning okkar í verki og um leið að greiða götu þeirra sem búa yfir góðum hugmyndum en vantar fjármagn til að láta þær verða að veruleika“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka og formaður í stjórn Frumkvöðlasjóðsins. 

Að þessu sinni verða 7-10 styrkir veittir og nema þeir frá 1-5 milljónum króna á hvert verkefni og er umsóknarfrestur til og með 3. júní 2020.

Nánar um umsóknarferli á síðu Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka