Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Stýrivextir ekki verið hærri í fimm ár

Seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu hækkaðir um 1 prósentu. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum lánum, verða því 4,75%.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu hækkaðir um 1 prósentu. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum lánum, verða því 4,75%. Vextir hafa ekki verið svo háir síðan í júní 2017. Frá því vaxtahækkunarferlið hófst í maí í fyrra hafa vextir verið hækkaðir um 4%. Vaxtahækkunin er nokkuð umfram spá okkar um að Seðlabankinn hækkaði vexti 0,75 prósentur.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar, þar sem vaxtaákvörðunin er rökstudd, kemur meðal annars fram að hagvöxtur hafi verið nokkru meiri en gert var ráð fyrir og innlend umsvif kröftug. Hins vegar hafi væntingar bæði heimila og fyrirtækja um efnahagshorfur dalað og óvissan um alþjóðlegar efnahagshorfur sé enn töluverð.

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er mjög svipuð yfirlýsingunni í maí og er sleginn fremur harður tónn. Hún hljóðar svo:

„Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.“

Hagvaxtarhorfur nokkuð góðar en verðbólguhorfur ekki

Líkt og við nefndum í stýrivaxtaspánni okkar í síðustu viku er íslenska hagkerfið komið á gott skrið eftir Kórónuveirufaraldurinn. Á fyrsta ársfjórðungi óx landsframleiðsla um 8,6% að raunvirði miðað við sama tímabil í fyrra samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Neysluhegðun landsmanna er í hæstu hæðum samkvæmt kortaveltutölum og atvinnuleysi hefur hjaðnað hratt. Enn ríkir þó óvissa um alþjóðlegar horfur eins og könnun um væntingar heimila og fyrirtækja bendir til.

Frá því að Peningastefnunefndin hittist síðast hafa verðbólguhorfur þó versnað enn frekar. Í maíspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólga verði mest um 8% á þriðja ársfjórðungi en nokkuð ljóst er að hún verður ívið meiri. Í maí mældist verðbólga 7,6% og útlit er fyrir að hún muni aukast talsvert nú í júnímánuði. Peningastefnunefndin horfir einnig mikið til verðbólguvæntinga og hafa þær versnað á alla mælikvarða. Í nýrri könnun um stöðu og horfur stærstu fyrirtækja landsins hækka verðbólguvæntingar á alla mælikvarða. Á fundinum virðist peningastefnunefndin hafa talsverðar áhyggjur af því enda horfir hún mikið til mælikvarða um langtíma verðbólguvæntingar.

Staða heimilanna mjög góð

Aðspurð um heimilin segja þau Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri að staða heimilanna sé mjög góð. Heimilin standa vel og nefndin virðist ekki hafa áhyggjur af því að þessi snörp hækkun geti verið of stór biti fyrir suma. Nefndin telur að það sé mikilvægara að bregðast við með slíkum hækkunum því verðbólga kemur heimilum auðvitað mjög illa.

Framhaldið

Það sem hér er upptalið hefur orðið til þess að nefndin ákvað að hækka vexti um 1% nú í morgun og hafa vextir nú verið hækkaðir um alls 4% frá því að stýrivaxtahækkunarferlið hófst í maí í fyrra. Ef horft er til raunstýrivaxta eru þeir þó enn neikvæðir og verður að teljast líklegt að nefndin vilji koma þeim yfir núllið.

Að okkar mati er útlit fyrir talsverða frekari hækkun stýrivaxta það sem eftir lifir árs. Þrjár ákvarðanir eru eftir á árinu og líklega munu vextir í lok árs verða á svipuðum slóðum og árið 2016 ef frá heldur sem horfir en þá voru meginvextir á bilinu 5-6%. Allt veltur þetta þó á hversu vel tekst að takast á við verðbólguna sem og verðbólguvæntingar.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband