Stýrivaxtalækkun í takti við væntingar og frekari vaxtalækkun í kortunum

Hálfrar prósentu vaxtalækkun Seðlabankans var í takti við væntingar. Verðbólguhorfur hafa batnað að mati Seðlabankans og útlit er fyrir fremur mjúka lendingu hagkerfisins. Vaxtalækkunarferli bankans er komið á skrið og útlit er fyrir nokkuð myndarlega lækkun stýrivaxta á komandi fjórðungum.


Líkt og margir höfðu vænst ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur samkvæmt nýlega birtri yfirlýsingu. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 8,5% og hafa vextirnir ekki verið lægri frá maí 2023. Ákvörðunin var í samræmi við birtar spár, sem allar hljóðuðu upp á 0,5 prósenta lækkun. Flestir markaðsaðilar í könnunum Viðskiptablaðsins, Innherja og Seðlabankans höfðu einnig gert ráð fyrir 0,5 prósenta vaxtalækkun.

Segja má að tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar sé í takti við yfirlýsinguna við síðustu vaxtaákvörðun, varkár en í stórum dráttum hlutlaus.

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

  • Verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mældist 5,1% í október.
  • Hjöðnun verðbólgu er á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað.
  • Þá hafa verðbólguvæntingar almennt lækkað og raunvextir því hækkað.
  • Áhrifa þétts peningalegs taumhalds gætir áfram í efnahagsumsvifum og hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar.
  • Atvinnuleysi heldur áfram að þokast upp og horfur eru á að það dragi úr spennu í þjóðarbúinu þótt það gerist hægar en áður var talið.

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er lítillega breytt  frá október og hljóðar svo:

Þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar yfir markmiði kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Til samanburðar var framsýna leiðsögnin í október svohljóðandi (hlutinn sem var tekinn út í nóv. feitletraður):

Þrálát verðbólga, verðbólguvæntingar yfir markmiði og mikil innlend eftirspurn kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Við túlkum yfirlýsinguna þannig að vaxtalækkunarferlið sé nú komið á skrið. Peningastefnunefndin vill þó halda raunvöxtum allháum næstu mánuðina í það minnsta og verður væntanlega gagnadrifin fremur en að halda tilteknu striki við lækkunartaktinn hvað sem tautar og raular.

Þá kom fram á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina að túlka mætti tiltölulega stuttorða yfirlýsingu peningastefnunefndar á þann veg að nefndin væri í stórum dráttum sammála um stóru myndina hvað varðaði horfur um efnahag og verðbólgu, og þar með þörfina fyrir peningalegt aðhald á næstunni.

Það kom okkur eilítið á óvart að ekki skildi vera minnst á nýafstaðin stjórnarslit og komandi kosningar, né heldur yfirstandandi og væntanleg verkföll opinberra stétta, sem óvissuþætti til skemmri tíma litið. Kom fram á kynningarfundinum að stjórnendur Seðlabankans væntu þess að kjarasamningar fyrir almenna markaðinn fyrr á árinu hafi gefið tóninn sem muni ríkja á vinnumarkaði. Þannig væri ekki gert ráð fyrir því að sá samhljómur yrði rofinn þótt ekki væri hægt að útiloka slíkt. Þá hefði ákveðinni óvissu um opinber fjármál verið eytt með samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár með fremur litlum breytingum frá upphaflegu frumvarpi og ekkert benti sérstaklega til kollsteypu í aðhaldi opinberra fjármála á næstunni.

Horfur á hjaðnandi verðbólgu og mjúkri lendingu hagkerfisins

Ný hagspá í nýbirtum Peningamálum hljóðar upp á minni verðbólgu og heldur hægari hagvöxt á komandi misserum en síðasta spá Seðlabankans frá ágúst síðastliðnum.

Þannig spáir Seðlabankinn nú meðalverðbólgu upp á 3,4% á komandi ári en fyrri spá hljóðaði upp á 4,2% verðbólgu árið 2025. Væntir bankinn þess að verðbólga fari niður fyrir 4% efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins á 2. fjórðungi næsta árs og nái 2,5% markmið bankans um mitt ár 2026.

Þá gerir Seðlabankinn nú ráð fyrir því að hagvöxtur verði enginn í ár en spáði í ágúst 0,5% hagvexti þetta árið. Á móti vegur þó að í millitíðinni hafa sögulegar hagvaxtartölur Hagstofu verið endurskoðaðar til hækkunar. Á næsta ári gerir bankinn nú ráð fyrir 1,9% hagvexti (2,0% í ágúst) og spá bankans fyrir 2026 hljóðar upp á 2,3% vöxt (2,6% í ágúst). Telur bankinn að neysla, fjárfesting og útflutningur muni vaxa jafnt og þétt á komandi árum en þó er spáð lítilsháttar bakslagi í fjárfestingu atvinnuveganna á komandi ári.

Peningastefnunefnd telur hjöðnun verðbólgu á breiðum grunni, þar á meðal hjöðnun þjónustuverðbólgu ásamt viðsnúningi á fasteignamarkaði, vera sér sérstaklega hagfelld síðustu misseri. Horfur séu á áframhaldandi hjöðnun á breiðum grunni ásamt kaldari húsnæðismarkaði. Í nýbirtum Peningamálum kemur einnig fram að Seðlabankinn á von á meiri hækkun húsnæðisverðs í ár en í ágústspá sinni þó hann geri ráð fyrir að raunverð húsnæðis lækki lítillega næstu tvö árin.

Umræða um vaxtamun við útlönd í ljósi innflæðis í ríkisskuldabréf bar ekki á góma á kynningarfundi nefndarinnar. Í Peningamálum kemur hins vegar fram að innflæði erlendra fjárfesta í ríkisbréf hafi aukist á haustmánuðum og átt sinn þátt í styrkingu krónunnar undanfarið. Telur bankinn þó vera gott jafnvægi milli inn- og útflæðis á gjaldeyrismarkaði en gerir samt sem áður ráð fyrir að gengi krónu verði lítillega hærra á spátímanum en ágústspá bankans gerði ráð fyrir.

Á kynningarfundinum kom fram að sparnaður heimilanna væri mikill um þessar mundir. Það gæti reynst áhættuþáttur fyrir komandi fjórðunga ef svo færi að sá sparnaður yrði nýttur til neyslu í stórauknum mæli með lækkandi raunvaxtastigi. Hins vegar væri jákvætt að skuldsett einkaneysla hefði verið lítil undanfarin misseri og efnahagur heimilanna væri almennt heilbrigður þótt vissulega væri staðan mismunandi hjá ólíkum hópum.

Það ætti líka að minnka hættu á fjárhagslegum skakkaföllum hjá íslenskum heimilum að gangi spá Seðlabankans eftir mun kaupmáttur ráðstöfunartekna aukast jafnt og þétt á spátímanum. Auk þess er ekki gert ráð fyrir verulega auknu atvinnuleysi á næstunni þótt bankinn spái nokkurri hækkun á atvinnuleysishlutfallinu frá því sem verið hefur. Almennt er því teiknuð upp fremur mjúk lending hagkerfisins í nýrri hagspá Seðlabankans og þar sleginn svipaður tónn og við gerðum í þjóðhagsspá okkar sem birt var í septemberlok.

Vaxtalækkunarferli komið á skrið

Þótt vaxtalækkunarferlið haldi trúlega áfram nokkuð óslitið næstu fjórðunga vill peningastefnunefndin ekki ganga of hratt um gleðinnar dyr og trúlega mun hún kjósa að halda raunvaxtastiginu nokkuð háu enn um sinn. Tók Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fram á kynningarfundinum að þörf væri á þéttu raunvaxtaaðhaldi næsta kastið til þess að stuðla að jafnvægi í hagkerfinu. Með tímanum skapast þó væntanlega skilyrði fyrir minnkandi aðhald á þann kvarða.

Gangi spár um hjaðnandi verðbólgu eftir og verðbólguvæntingar halda áfram að fylgja í humátt á eftir teljum við líklegt að vextir verði áfram lækkaðir um 25-50 punkta við hverja vaxtaákvörðun á komandi ári. Bráðabirgðaspá okkar sem birtist í stýrivaxtaspá okkar fyrir viku hljóðar upp á 6,5% stýrivexti í árslok 2025 og 5,5% vexti um mitt ár 2026. Teljum við þá spá enn góða og gilda. Verði bakslag í hagþróun eða verðbólguhorfur batna meira en útlit er fyrir nú gæti lækkunarferlið orðið hraðara.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband
Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur


Hafa samband