„Þetta var magnað! Alveg ótrúlegt!“ segir Brynjar Örn Grétarsson, tölvunarfræðingur í Reykjavík, sem var svo heppinn að vinna ferð fyrir tvo á á úrslit heimsmeistaramótsins í tölvuleiknum League of Legends sem fram fór í O2 Arena í Lundúnum 2. nóvember síðastliðinn.
Ferðin var aðalvinningur í árvissum leik Íslandsbanka og Mastercard, en til að taka þátt þurfti bara að skrá sig til þátttöku á vef bankans og nota svo að minnsta kosti eitt Fríðu-tilboð fyrir 20. september. Vinningshafinn var svo dreginn út þremur dögum síðar og óhætt að segja að heppnin hafi komið honum á óvart.
Höllin rúmar 20 þúsund
„Já, maður á alls ekki von á að vinna þó að maður taki þátt í einhverju svona,“ segir Brynjar. „Ekki frekar en maður eigin von á að vinna þó maður spili í Lottóinu.“ Honum varð þó ljóst að ekki væri um gabb að ræða þegar starfsmaður bankans sem hringdi til að tilkynna um vinninginn gat sagt honum hvaða tilboðskaup hefðu verið að baki útdrættinum.
Í vinning var bæði flug og hótel í Lundúnum auk VIP-miðar á viðburðinn sem óhætt er að lýsa sem mikilfenglegum því O2-höllin er engin smásmíði, tekur 20 þúsund manns. Með sér bauð Brynjar svo kærustunni, Dagbjörtu Erlu Kjartansdóttur.
„Við höfum bæði spilað þennan leik í þó nokkur ár,“ segir hann og bætir við að til þessa hafi hún hins vegar haft meira gaman af því að spila leikinn en minna af því að horfa á aðra spila.
„Hún sagði að það hafi einmitt verið allt önnur upplifun að fara á staðinn og fylgjast með þar. Kannski líka af því hvað þetta var mikil sýning og umfangsmikil opnunarhátíð.“
Flugeldar og eldvörpur
Í kynningartúr um höllina kvöldið fyrir viðburðinn sjálfan, þar sem þau fengu líka að sitja generalprufu segir Brynjar að þeim hafi verið sagt að líkast til hafi aldrei áður verið jafnmargir laser-ar verið notaðir í einu í höllinni áður. Þá hafi líklega aldrei verið meiri peningar settir í stakan viðburð þar áður. „Og óstaðfest var okkur sagt að líklega hafi þetta verið mesta magn af flugeldum og eldum sem notaðir hafi verið í O2-höllinni.“
Brynjar segir keppninni varpað upp á risaskjái og þúsundir fylgist með úrslitabardaganum þar sem fimm í hvorum hópi etji kappi í leiknum.
„Og sá hópur sem fyrstur var til að vinna þrjár viðureignir af fimm stóð uppi sem sigurvegari,“ segir Brynjar og bætir við að ákveðinn léttir hafi verið hvað keppnin reyndist svo spennandi.
„Það er ekkert gaman að horfa á eitthvað rúst, en þetta var alveg hnífjafn, tvö-tvö, og þurfti úrslitaleik sem réðst ekki fyrr en á síðustu mínútunum.“
Linkin Park tóku lagið
Brynjar spilar tölvuleiki sjálfur og League of legends þar á meðal. Það virðist þó ekki vera forsenda þess að geta haft gaman af svona risaviðburði eins og í O2 Arena. Í sætaröðinni fyrir aftan hafi til dæmis verið ein sem hafði greinilega ekki spilað þennan tölvuleik áður, en naut sín samt mjög vel.
„Hún hrópaði á fullu alla leikina til að hvetja liðið sem hún hélt með, þó hún hafi ekki þekkt neinn spilaranna fyrir. En okkur grunaði að hún hefði kannski séð þáttaseríuna Arcane sem kom út á Netflix fyrir nokkrum árum,“ segir hann, en í sjónvarpsþáttum þessum er persónum úr League of Legends leiknum fylgt eftir og fjallað um ævintýri þeirra.
Síðan segir Brynjar að ekki hafi skemmt fyrir að hljómsveitin Linkin Park hafi jafnframt komið fram á viðburðinum og spilað titillag keppninnar fyrir gestina. Lagið heitir Heavy is the Crown og myndband með laginu sem hægt er að skoða á YouTube er í stíl tölvuleiksins.