Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Staða íslenskrar tungu árið 2050

Íslenskan varðveitist ekki af sjálfu sér og enginn mun varðveita hana fyrir okkur


Fyrst þegar ég hugsaði um árið 2050 fannst mér árið tilheyra fjarlægri framtíð og því ekkert sem ég þurfti ekki að hugsa um næstum því strax. En til að setja ártalið í samhengi ákvað ég að horfa um aldarfjórðung aftur í tímann, til ársins 2000. Ég man ágætlega eftir því ári. Ég var tólf ára, elskaði Britney Spears, Harry Potter og á meðan ég spilaði Sims í heimatölvunni gat enginn notast við símann á meðan. Ég man eftir áramótunum 2000 og hræðslu fólks við að tölvukerfin myndu ekki þola þessa miklu breytingu úr 1999 í 2000. Fólk spáði allsherjar tölvuhruni á heimsvísu, sem varð svo að sjálfsögðu ekkert úr. Næstum jafnlangt er frá árinu 2000 og þar til árið 2050 rennur í garð og  því tilheyrir árið 2050 kannski ekkert hrikalega fjarlægri framtíð.

Aldarfjórðungur er þó ákveðið kynslóðabil og líklega er það í eðli fyrri kynslóða að óttast velferð og afdrif komandi kynslóða. Ég er afar þakklát að hafa tilheyrt síðustu kynslóðinni sem átti barnæsku án internetsins og samfélagsmiðla. Ég held ég sé ekki að fullyrða út í bláinn þegar ég segi að af þessu tvennu stafar íslenskunni helst ógn. Börn í dag hafa aðgang að hafsjó af erlendu efni í gegnum internetið og því skal engan undra að enskuslettur séu jafnvel farnar að heyrast í leikskólum. Fjögurra ára dóttir mín segir: „eigum við fá okkur ice-cream“ en ekki ís og ég finn hvernig grænu bólurnar spretta fram. Ice-cream! Hvað er eiginlega að þér barn? Talarðu ekki íslensku? Ég óttast að með þessari þróun verði íslenskan útdauð eftir nokkur ár., enginn muni tala tungumálið, þjóðararfurinn farinn, gleyptur af amerískum yfirlátsseggjum.

Svo reyni ég að anda rólega. Íslenskan er alltaf að breytast og börn og unglingar tala ekki eins og fyrir tuttugu og fimm árum. Heimurinn er að minnka, samfélög hnattvæðast, og það hlýtur að teljast gott að börnin okkar séu orðin nánast altalandi á ensku. Og þó, börnin mega kunna ensku svo lengi sem það er ekki á kostnað íslenskunnar.

Kannski þarf einmitt þessar grænu bólur til að átta sig á því að íslenskan varðveitist ekki af sjálfu sér og enginn mun varðveita hana fyrir okkur. Það er undir okkur komið, örfáum hræðum á eyju norður í Atlantshafi, að viðhalda og vernda íslenska tungu.

En ég skil samt börnin ósköp vel. Það er auðvelt að falla í þá gryfju að sletta, ég geri það sjálf margoft. Þegar efnið sem maður neytir er flest á ensku verður heilinn á manni öðruvísi stilltur, ensku orðin koma fyrr en þau íslensku. Það sama hlýtur að gerast hjá leikskólabörnum sem horfa sífellt á Cocomelon á YouTube. Mikilvægi þess að framleiða menningarefni á íslensku, hvort sem það er í formi bókmennta, kvikmynda eða annars konar efnis, hlýtur að vera ofarlega á meiði í umræðunni um að vernda íslenska tungu. Börn þurfa að hafa greiðan aðgang að íslensku barnaefni, bæði framleiddu hérlendis og þýddu. Mikið vorum við fjölskyldan til dæmis ánægð með að fá loksins íslenskt jóladagatal í fyrra í stað þess textaða sem hefur verið í boði undanfarin ár. Svo lengi sem íslenskt menningarlíf er í blóma, þá blómstrar íslenskan okkar líka, jafnvel þótt við slettum aðeins meira. Það þýðir samt ekki að ég ætli að leyfa börnunum mínum að sletta. Ég mun halda áfram að dæsa hátt þegar dóttir mín biður um ice-cream, leiðrétta syni mína þegar þeir segja „mér langar“ eða „mikið fólk“. Stór hluti ábyrgðarinnar liggur nefnilega á heimilunum. Hverjir eru þínir áhrifavaldar? spurði Eymundsson í auglýsingarherferð sinni fyrir ekki svo löngu. Ég vona að við foreldrarnir verðum áhrifavaldar í lífi barnanna okkar, sýnum gott fordæmi og slettum bara þegar þau heyra ekki til.

Höfundur


Eva Björg Ægisdóttir

Rithöfundur