Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 7. október

Við spáum óbreyttum stýrivöxtum við ákvörðun Seðlabankans í næstu viku. Bágar efnahagsaðstæður kalla á laust taumhald peningastefnunnar og útlit er fyrir að verðbólga hjaðni aftur að markmiði fyrir mitt næsta ár. Vextir verða í fyrsta lagi hækkaðir eftir mitt næsta ár að mati okkar og verða þeir áfram lágir þótt birta fari til í hagkerfinu.


Við spáum því að stýrivöxtum Seðlabankans verði haldið óbreyttum í 1,0% við næstu vaxtaákvörðun bankans þann 7. október næstkomandi. Við síðustu vaxtaákvörðun í ágústmánuði var peningastefnunefnd bankans sammála um að halda vöxtum óbreyttum eftir 0,75 prósentu vaxtalækkun í maí.

Í niðurlagi fundargerða frá ágústfundunum segir:

Að mati nefndarinnar hefði traustari kjölfesta verðbólguvæntinga gert það kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti. Jafnframt töldu nefndarmenn að lægri vextir og aðrar aðgerðir bankans sem gripið var til á vormánuðum hefðu stutt við innlenda eftirspurn. Nefndin var sammála um að áhrif þeirra ættu þó eftir að koma fram að fullu og myndu þær áfram styðja við þjóðarbúskapinn og stuðla að því að efnahagsbatinn yrði hraðari en ella.

Þarna er að okkar mati sleginn nokkuð skýrt sá tónn að nefndin telji nóg að gert í lækkun vaxta í bili. Þrátt fyrir að verðbólga hafi mælst heldur meiri í september en Seðlabankinn spáði og gæti áfram orðið yfir verðbólgumarkmiði fram á næsta ár bendir þó flest til þess að verðbólguþrýstingurinn muni hjaðna að nýju án þess að herða þurfi aðhald peningastefnu. Á sama tíma kalla efnahagsaðstæður á laust taumhald peningamála eftir hið þunga högg sem COVID-faraldurinn hefur greitt hagkerfinu.

Það sem af er árinu 2020 hafa stýrivextir Seðlabankans verið lækkaðir um 2,0 prósentur.  Meginvextir bankans eru nú 1,0% og hafa aldrei verið lægri. Samhliða hefur bankinn rýmkað lausafjárskilyrði, minnkað ýmsar kvaðir á fjármálafyrirtæki og lýst sig reiðubúinn að kaupa ríkisbréf í því skyni að halda aftur af langtímavöxtum.

Kreppa kallar á slaka peningastefnu

Fyrir hefur legið frá vormánuðum að hagkerfið yrði markað af djúpum samdrætti í ár og að framgangur COVID-19 faraldursins ásamt þróun sóttvarnaraðgerða auk efnahagsaðgerða stjórnvalda yrðu lykilþættir í því hvenær, og hversu hratt, hagkerfið rétti úr kútnum að nýju.

Í nýbirtri Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka fyrir 2020-2022 kemur fram að við teljum að samdráttur VLF í ár muni nema 8,6%. Harður skellur í utanríkisviðskiptum skýrir u.þ.b. 2/3 samdráttarins í ár en fall í innlendri eftirspurn er að baki 1/3 samdráttarins. Neysla og fjárfesting einkaaðila skreppur umtalsvert saman í ár, en á móti vaxa umsvif hins opinbera í fjárfestingu og samneyslu.

Á árinu 2021 gerum við ráð fyrir 3,1% hagvexti. Skýrist vöxturinn jöfnum höndum af bata í utanríkisviðskiptum og aukinni innlendri eftirspurn. Árið 2022 ætti hagkerfið að vera komið í allhraða uppsveiflu að mati okkar. Það ár spáum við 4,7% hagvexti sem drifinn verður að mestu af vaxandi eftirspurn. Útflutningur sækir einnig áfram í sig veðrið en aukinn innflutningur vegur á móti.

Spá Seðlabankans í ágúst var á keimlíkum nótum. Spáði bankinn þar 7,1% samdrætti í ár en 3,4% vexti á næsta ári. Spá okkar er því ívið svartsýnni en vel er hugsanlegt að bankinn meti einnig horfur heldur dekki nú en í ágúst þar sem faraldurinn hefur ágerst síðan þá.

Verðbólga vex en væntingar traustar

Eftir hjöðnun verðbólgu á seinni helmingi síðasta árs hefur hún vaxið að nýju í kjölfar nýrrar lækkunarhrinu krónu fyrr á árinu 2020. Verðbólga mældist 3,5% í septembermánuði og hafði þá ekki verið meiri frá vordögum 2019.

Verðbólguþrýstingur hefur þó haldist hóflegri en ætla mætti miðað við hversu mikið krónan hefur gefið eftir á sama tíma og laun hafa hækkað umtalsvert, sér í lagi í lægri þrepum launastigans. Þar vegur m.a. á móti harðnandi samkeppni á smásölumarkaði, vaxandi slaki í hagkerfinu og lægra eldsneytisverð það sem af er ári en raunin var árin á undan. Þá skiptir miklu máli að verðbólgumarkmið Seðlabankans nýtur mun meiri trúverðugleika en áður og hafa verðbólguvæntingar til lengri tíma því haldist hóflegar.

Horfur eru á að verðbólga verði áfram yfir 3% fram á 2F 2021. Enn á nokkur verðþrýstingur vegna veikari krónu eftir að koma fram, sem og áhrif af samningsbundinni hækkun launa um komandi áramót. Útlit er hins vegar fyrir að verðbólga hjaðni þegar lengra líður á næsta ár. Vaxandi slaki í hagkerfinu ásamt gengisstöðuleika og í kjölfarið lítilsháttar styrkingu krónu skýrir þá þróun að stórum hluta. Við spáum því að verðbólga mælist að jafnaði 2,7% bæði á þessu og næsta ári, en verði 1,9% að meðaltali árið 2022.

Peningastefnunefndin horfði í ágúst til þess að verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma hefðu lítið breyst þrátt fyrir vaxandi verðbólgu undanfarna mánuði. Taldi nefndin jákvætt að kjölfesta verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiði bankans virtist halda sem skipti máli fyrir þróun verðbólgu á komandi misserum. Það ætti því að gleðja nefndina að nýjustu mælingar á væntingum stjórnenda fyrirtækja, sem birtar voru undir lok september, eru áfram lítið breyttar. Þá hefur langtíma verðbólguálag á markaði haldist hóflegt. Þegar þetta er ritað mælist álagið m.v. 10 ára ríkisbréf 2,7% sem hlýtur að teljast í ágætu samræmi við markmið Seðlabankans að teknu tilliti til óvissuálags í kröfu óverðtryggðra bréfa.

Raunstýrivextir hafa lækkað

Þrátt fyrir að stýrivöxtum hafi verið haldið óbreyttum frá maí sl. hafa raunstýrivextir lækkað undanfarið. Miðað við einfalt meðaltal mismunandi mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntingar voru raunstýrivextirnir  neikvæðir um 1,9% í september. Í júní sl. voru vextirnir hins vegar neikvæðir um 1,6% og um 1,1% í maí á þennan kvarða.  

Þessi lækkun raunstýrivaxta skýrist að mestu af aukinni mældri verðbólgu þar sem verðbólguvæntingar og -álag hefur haldist lítið breytt eins og fyrr segir. Lengri raunvextir á markaði lækkuðu einnig tímabundið en hafa stigið lítið eitt á nýjan leik og eru í stórum dráttum á svipuðum slóðum og þeir voru fyrri hluta sumars. Til dæmis er krafa á lengsta markflokki verðtryggðra ríkisbréfa, RIKS30, nú tæplega 0,2% og því nánast sú sama og hún var að jafnaði í maí og júní.

Vextir óbreyttir fram á mitt næsta ár?

Við teljum að stýrivextir hafi náð lágmarki og að þeir verði áfram 1,0% fram á mitt ár 2021. Er óvissan í þeirri spá fremur á þá leið að vextirnir gætu haldist óbreyttir enn lengur ef bið verður á bata hagkerfisins fram eftir næsta ári. Seðlabankinn mun hins vegar horfa til annarra aðgerða til þess að slaka hugsanlega enn frekar á aðhaldi og milda áhrif kreppunnar í vetur. Má þar nefna kaup á ríkisbréfum og inngrip á gjaldeyrismarkaði í því skyni að styðja við krónuna, minnka skammtímasveiflur og draga úr verðbólguþrýstingi. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að stýrivextir muni hækka hægt og bítandi eftir því sem efnahagurinn braggast og slaki minnkar í hagkerfinu. Vextirnir verða þó að okkar mati lágir í sögulegu ljósi út spátímann. Spá okkar hljóðar upp á 1,5% stýrivexti í árslok 2021 og 2,25% vexti ári síðar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband