Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum hjaðnandi verðbólgu í júní

Við spáum því að VNV muni hækka um 0,4% í júní frá mánuðinum á undan. 12 mánaða verðbólga verður þá 3,4% en var 3,6% í maí.


Við spáum því að VNV muni hækka um 0,4 í júní frá mánuðinum á undan. Miðað við þá spá verður 12 mánaða verðbólga 3,4% en var 3,6% í maí. Útlit er að verðbólga hjaðni nokkuð á næstu fjórðungum vegna hagfelldara útlits um launaþróun í ár og hægari hækkun íbúðaverðs. Við spáum því að verðbólga verði 2,9% í lok árs 2019 og því gæti verðbólgumarkmið Seðlabankans verið í sjónmáli. Við gerum í kjölfarið ráð fyrir því að verðbólga verði 2,8% í lok árs 2020 og 2021. Hagstofan birtir VNV fyrir júní kl. 9 þann 26. þessa mánaðar.

Flugfargjöld helsti hækkunarvaldur í júní

Samkvæmt mælingum okkar munu hærri flugfargjöld vera helsta ástæða hækkunar VNV í júní. Um árstíðarbundna hækkun er að ræða þar sem flugfargjöld hækka jafnan verulega yfir sumartímann. Við spáum því að hækkunaráhrif ferða og flutninga í heild mælist 0,20% í VNV. Þar vegur þyngst flutningar í lofti sem við spáum að hækki í verði um 13% (0,25% í VNV). Á móti spáum við því að verð á eldsneyti lækki um 1,0% (-0,03% í VNV). Erfitt er þó um vik að mæla flugfargjaldaliðinn eftir gjaldþrot WOW air því Hagstofan gerði fyrirvaralitlar breytingar á aðferðafræði sinni í kjölfar gjaldþrotsins.  

Verðbólguspá júní 2019

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Sérfræðingur í Greiningu


hafa samband