Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 4,4% verðbólgu í maí

Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% á milli mánaða. Hins vegar mun 12 mánaða verðbólga hjaðna í maí gangi spá okkar eftir og mælast 4,4%. Íbúðaverð vegur þungt til hækkunar í mánuðinum en mikill hiti virðist vera í íbúðamarkaðnum þessa dagana. Verðbólga hefur reynst þrálátari en við höfum spáð undanfarið en verðbólguhorfur eru þó allgóðar.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% í maí frá fyrri mánuði. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 4,4% en var 4,6% í apríl. Útlit er fyrir að verðbólgukúfurinn hafi náð toppi í apríl síðastliðnum og verðbólga muni nú taka að hjaðna, þó hægar en við höfðum áður gert ráð fyrir. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði komin við markmið um mitt næsta ár. Hagstofan birtir VNV fyrir maí þann 27. maí næstkomandi.

Húsnæði vegur þyngst til hækkunar

Talsverður gangur er á íbúðamarkaði þessa dagana og hefur hækkandi íbúðaverð sett svip sinn á þróun vísitölu neysluverðs síðustu mánuði. Reiknaða húsaleigan hækkaði um 2,5% á milli mánaða í apríl og hefur samtals hækkað um 3,8% frá ársbyrjun. Þar sem reiknaða húsaleigan byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og vöxtum á íbúðalánum hafa þessar tvær stærðir togast á undanfarin misseri. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hefur því hækkað um tæp 5,3% frá ársbyrjun en á sama tíma hefur vaxtaþátturinn dregið mælinguna niður um 1,5%.

Við teljum að húsnæðisverð haldi áfram að hækka og muni koma til með að vega þungt í mælingu vísitölunnar í maí. Samkvæmt okkar mælingu mun reiknaða húsaleigan hækka um 1,40% í maí (0,23% áhrif á VNV). Eftirspurn á íbúðamarkaðnum er mikil um þessar mundir og eru helstu ástæður þess meðal annars vaxandi kaupmáttur launa, sterk fjárhagsstaða heimila auk hagstæðra lánakjara. Á framboðshliðinni virðist vera töluverður skortur á íbúðum og ekki er útlit fyrir að íbúðum fari fjölgandi á næstu fjórðungum.

Aðrir liðir til hækkunar

Aðrir liðir sem vega talsvert til hækkunar á vísitölunni í maí eru tómstundir og menning (0,04% áhrif á VNV), matar- og drykkjarvörur (0,03% áhrif á VNV) ásamt ferðum og flutningum (0,03% áhrif á VNV). Að öðru leyti er frekar rólegt yfir mánaðarbreytingum á VNV. Frá því að faraldurinn skall á hefur verið erfitt að spá fyrir um flutninga í lofti sem er undirliður í ferðum og flutningum. Við teljum að flutningar í lofti, þ.e. flugfargjöld, muni hækka um 1,85% milli mánaða (0,03% áhrif á VNV) og vonum að auðveldara verði að ráða í þennan lið og að líf fari að glæðast í flugmarkaðinn á ný með tilslökunum á landamærum og hækkandi hlutfalli bólusettra hérlendis.

Samsetning verðbólgunnar

Þess má geta að verðbólguþrýstingur þessa dagana er ekki eingöngu bundinn við íbúðamarkaðinn. Í aprílmánuði þegar verðbólga mældist 4,6% voru það innfluttar vörur sem skýrðu mest af verðbólgunni eða um 2%, húsnæðisliðurinn skýrði um 0,9%, innlendar vörur um 0,8% og þjónusta um 0,8%. Íbúðamarkaðurinn skýrir því um 20% af verðbólgunni þessa dagana.

Verðbólga þrálátari en verðbólguhorfur þó góðar

Verðbólga hefur reynst þrálátari en við höfum spáð undanfarið. Við teljum þó að verðbólgutoppnum hafi verið náð og verðbólga taki að hjaðna á næstunni, þó hægar en við gerðum áður ráð fyrir. Við spáum 0,4% hækkun VNV í júní, óbreyttri vísitölu í júlí og 0,4 hækkun í ágúst. Gangi spáin eftir mælist verðbólga 4,2% í ágústmánuði. Í kjölfarið eigum við von á því að verðbólga taki að hjaðna hraðar og verði komin við markmið Seðlabankans um mitt næsta ár. Næstu tvö ár eru svo horfur á að verðbólga verði í grennd við verðbólgumarkmiðið.

Styrking krónunnar á komandi fjórðungum er ein helsta forsenda að spá okkar gangi eftir. Við gerum ráð fyrir styrkingu krónunnar síðar á árinu þegar ferðamenn taka að streyma til landsins á nýjan leik.

Á móti er talsvert líf á íbúðamarkaði um þessar mundir og ef íbúðaverðshækkanir fara fram úr öllu hófi eins og gerðist hér árið 2017 gæti verðbólga reynst þrálátari en við gerum ráð fyrir. Einnig eru horfur á talsverðum launahækkunum á komandi misserum sem gæti haft áhrif á hækkun VNV. Þess má einnig geta að verðbreytingar erlendis og hækkandi flutningskostnaður vegna áhrifa kórónuveirunnar geta einnig haft frekari áhrif til verðhækkana hérlendis en við gerum ráð fyrir. Hrávöruverð hefur farið hækkandi og haldi það áfram getur það haft áhrif til frekari hækkana á verði innfluttra vara og þrálátari verðbólgu á komandi fjórðungum en við væntum í þessari spá.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband