Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 0,75 prósenta stýrivaxtahækkun í júní

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans hækki stýrivexti um 0,75 prósentur í næstu viku. Gangi spáin eftir verða meginvextir bankans 4,5% en svo háir hafa vextirnir ekki verið frá því í maí 2019.


Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka stýrivexti bankans um 0,75 prósentur á vaxtaákvörðunardaginn 22. júní næstkomandi. Gangi spáin eftir verða meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum veðlánum, 4,5% en svo háir hafa vextirnir ekki verið frá því í maí 2019, eða þegar vaxtalækkunarferlið hófst.

Við síðustu ákvörðun, í maí síðastliðnum, hækkaði peningastefnunefndin vexti um 1,0% þar sem allir nefndarmenn voru sammála um hækkunarskrefið. Í yfirlýsingu nefndarinnar var sleginn fremur harður tónn. Þar kom meðal annars fram að líklega þurfi að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni innan ásættanlegs tíma. Við teljum líkur á að nefndin muni ræða 0,5-1,0 prósenta hækkun vaxta en komast að þeirri niðurstöðu að hækka um 0,75 prósent.

Hagvaxtarhorfur nokkuð góðar

Íslenska hagkerfið er komið á gott skrið eftir þann skell sem dundi yfir þegar Kórónuveirufaraldurinn tók að geisa á heimsvísu. Hagstofan birti nýlega bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung og samkvæmt þeim óx verg landsframleiðsla um 8,6% að raungildi miðað við sama tímabil í fyrra. Þrátt fyrir að um bráðabirgðatölur sé að ræða benda þessi gögn til þess að mikill gangur sé í hagkerfinu og að áhrif Kórónukreppunnar fari dvínandi. Atvinnuleysi hefur hjaðnað hratt og er á svipuðum slóðum og fyrir faraldur og kortaveltutölur segja svipaða sögu af neysluhegðun landsmanna.

Enn ríkir þó óvissa um nærhorfur í efnahagslífinu vegna innrásar Rússa í Úkraínu sem mun óneitanlega hafa áhrif á heimsbúskapinn á komandi fjórðungum. Til að mynda dró Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) verulega úr hagvaxtarspá sinni á heimsvísu í nýjustu spá sinni í apríl að mestu vegna beinna og óbeinna áhrifa stríðsins. AGS spáir talsvert minni hagvexti hér á landi en hérlendir aðilar líkt og sést á myndinni hér að ofan.

Enn eykst verðbólgan

Peningastefnunefndin horfir mikið til mælikvarða á langtíma verðbólguvæntingar og í fundargerð nefndarinnar í maí voru helstu rök fyrir hækkun stýrivaxta meðal annars að verðbólguvæntingar hefðu hækkað á alla mælikvarða og aukin hætta væri á að kjölfesta þeirra við markmið hefði veikst. Þó svo að lítið hafi birst af nýjum væntingakönnunum frá síðustu ákvörðun má ætla að þar sem verðbólguhorfur hafi versnað séu áhyggjurnar ekki minni í þetta skiptið. Við síðustu vaxtaákvörðun nam ársverðbólga 7,2% og lýstu nefndarmenn áhyggjum yfir því sem og versnandi verðbólguhorfum.

Nú mælist verðbólga 7,6% og útlit er fyrir að hún muni aukast enn frekar á næstu mánuðum. Í maíspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólga mælist mest um 8% á þriðja ársfjórðungi. Við teljum hins vegar að verðbólga verði enn meiri. Í nýlegri verðbólguspá okkar spáum við 8,4% verðbólgu í júní og að hún nái hámarki í lok sumars en hjaðni hægt og bítandi í kjölfarið.

Vissulega má rekja vaxandi verðbólgu að sumu leyti til verðhækkana erlendis og getur Seðlabankinn lítið gert í þeirri þróun. Aftur á móti skýrist stór hluti af verðbólgunni um þessar mundir af hækkandi íbúðaverði og þar getur Seðlabankinn vissulega haft áhrif á eftirspurnina með hækkandi vöxtum sem og hertum reglum við lánveitingar. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hefur hert enn frekar á reglum um lánveitingar og tilkynnti um það í gær. Þetta gerir nefndin samkvæmt tilkynningu til að gæta að viðnámsþrótti lántakenda og lánveitenda.

Þótt hækkandi íbúðaverð vegi vissulega þungt til hækkunar á vísitölu neysluverðs um þessar mundir horfir peningastefnunefnd einnig talsvert til undirliggjandi verðbólgu. Verðbólguþrýstingur er orðinn nokkuð almennur þessa dagana sem ætti að valda nefndinni töluverðum áhyggjum. Þannig mælist verðbólga samkvæmt kjarnavísitölum Hagstofunnar, þar sem ýmsir sveiflukenndir liðir eru undanskildir, 4,1-7,7%.

Raunstýrivextir neikvæðir

Þrátt fyrir hækkun stýrivaxta um 3,0% frá því í maí í fyrra eru raunstýrivextir neikvæðir á alla mælikvarða. Ef horft er til raunstýrivaxta miðað við verðbólgu er talsvert í land með að vextir verði jákvæðir eins og sést á myndinni hér að neðan. Ef horft er til annarra mælikvarða eins og verðbólguvæntinga og álags er þó styttra í land. Stuðningur peningastefnunnar við þjóðarbúskapinn er því enn talsverður og útlit fyrir að enn frekari hækkun vaxta þurfi til að herða taumhaldið.

Við teljum því ansi líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé hvergi nærri lokið enda vill bankinn trúlega koma raunstýrivöxtum yfir núllið fyrr en seinna. Trúlega mun bankinn vilja stíga fast til jarðar því ef brugðist er of seint við gæti þurft að hækka vexti meira en ella. Það veltur svo ekki síst á því hvort, og þá hversu mikið, aðrir hagstjórnaraðilar á borð við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar leggja hönd á plóg við að minnka verðbólguþrýsting á komandi misserum hversu hátt stýrivextirnir fara áður en yfir líkur í yfirstandandi vaxtahækkunarferli.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.