Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hefur í dag staðfest lánshæfismat Íslandsbanka í BBB/A-2 með stöðugum horfum.
Í rökstuðningi sínum telur S&P að íslenskar fjármálastofnanir standi enn frammi fyrir áhættu þar sem ferðaþjónustan og ákveðnar tegundir atvinnuhúsnæðis séu enn að ná sér á strik eftir heimsfaraldurinn. S&P telur þó að þessir áhættuþættir fari minnkandi þó þeir verði enn til staðar á fyrri hluta ársins 2022.
Stöðugar horfur endurspegla, að mati S&P, áframhaldandi áhættu vegna útlána til ferðaþjónustunnar og tengdra atvinnugreina í kjölfar heimsfaraldurs en sterk eiginfjárstaða bankanna og væntingar S&P um trausta arðsemi þeirra vega þar upp á móti.
S&P tekur fram að lánshæfismatseinkunn íslensku bankanna gæti hækkað ef þau meti að arðsemi þeirra haldi áfram að styrkjast á traustum og breiðum grunni. Að mati S&P yrði það líklega samhliða áframhaldandi lækkun á markaðshlutdeild annarra aðila en fjármálastofnana á íslenskum húsnæðislánamarkaði. Að auki myndi S&P líta til þess að eignagæði væru stöðug og umlíðun lána færi minnkandi.
S&P bendir ennfremur á að íslensk stjórnvöld vinni um þessar mundir að innleiðingu regluverks um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og hvernig skilavald Seðlabanka Íslands muni ákvarða lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (e. MREL requirements) á íslensku bankanna. Með tímanum gæti S&P hækkað lánshæfiseinkunn bankanna ef þau telja umgjörðina skilvirka og þau trúi því að bankarnir muni byggja upp og viðhalda nægjanlegu tapsþoli sem dragi úr áhættu eiganda ótryggðra skuldabréfa (e. senior preferred).
Í tilkynningu S&P kemur fram að lánshæfismatsfyrirtækið geti lækkað lánshæfismatseinkunn íslensku bankanna ef kæmi til óvænts efnahagsáfalls sem væri tilkomið vegna hægari eða veikari bata ferðaþjónustunnar en vonir standa til um. Að mati S&P myndi þessi sviðsmynd líklega gerast samhliða víðtækari efnahagssamdrætti á Íslandi, miklum virðisrýrnunum útlána og versnandi arðsemi bankanna.