Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

S&P Global Ratings staðfestir lánshæfismat Íslandsbanka í BBB+/A-2 en breytir horfum í neikvæðar

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hefur í dag staðfest lánshæfismat Íslandsbanka í BBB+/A-2 en jafnframt breytt horfum úr stöðugum í neikvæðar.


Í rökstuðningi sínum vísar S&P til þess að Íslandsbanki sé með stöðuga markaðshlutdeild á innlendum markaði og hafi náð góðum árangri á sviði stafrænnar þróunar og upplýsingatækni þar sem hann standi framar en margir erlendir bankar. Bankinn sé jafnframt með sterka lausa- og eiginfjárstöðu auk þess sem lánasafn hans sé traust.

Ástæður S&P fyrir breytingu á horfum má meðal annars rekja til krefjandi rekstrarumhverfis fyrir íslenskar bankastofnanir sem einkennist af kólnandi hagkerfi, lækkandi vaxtaumhverfi, hárrar skattlagningar og ójafnrar samkeppnisstöðu við íslenska lífeyrissjóði en allt þetta hafi leitt til lækkandi arðsemi hjá íslenskum bönkum. S&P tekur fram að horfur á lánshæfismatseinkunn Íslandsbanka geti færst aftur í stöðugar með batnandi rekstrarumhverfi og hækkandi arðsemi en nefnir jafnframt að einkunn bankans geti lækkað ef rekstrarumhverfi bankans versni frekar á næstu 24 mánuðum.

Í ljósi þessa, þá vill Íslandsbanki ítreka að það sé ábyrgðarhlutur hins opinbera að gæta þess að skattar og gjöld á íslenska viðskiptabanka séu ekki of íþyngjandi og veiki ekki samkeppnisstöðu þeirra en skattar hérlendis eru ennþá margfalt hærri en í nágrannalöndunum. Slíkt er bagalegt í umhverfi þar sem lífeyrissjóðir og fjártæknifyrirtæki hafa bæst í hóp keppinauta án þess að greiða samsvarandi gjöld til ríkisins og viðskiptabankar greiða. Samkeppni er af hinu góða en þá er nauðsynlegt að allir keppinautar sitji við sama borð.

Nánari upplýsingar veita: