Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Skýrslur ársins 2017

Íslandsbanki hefur gefið út ársreikning, ársskýrslu, áhættuskýrslu (Pillar 3) og samfélagsskýrslu


Íslandsbanki birti í morgun uppgjör sitt fyrir árið 2017.  Bankinn hefur nú gefið út ársskýrslu, áhættuskýrslu og samfélagsskýrslu. Ritunum er ætlað að veita heildstæða yfirsýn yfir margvíslega starfssemi bankans frá ólíkum sjónarhornum. 

Árið 2017 var tímabil uppbyggingar þar sem áhersla var lögð á að styrkja grunnstoðir bankans en nýjar höfuðstöðvar voru fullkláraðar í Norðurturni í Kópavogi, verkefnamiðuð vinnuaðstaða innleidd, skipulagi var breytt, og unnið var að því að skipta um grunnkerfi bankans. Rekstur bankans var á sama tíma góður og kom hagnaður bankans frá öllum viðskiptaeiningum hans. Bankinn fékk nýlega Íslensku ánægjuvogina fyrir að veita bestu þjónustuna á bankamarkaði, í fimmta sinn, og var jafnframt valinn besti bankinn á Íslandi að mati The Banker.

Í ársskýrslu bankans má finna yfirgripsmikla samantekt um starfssemi og stefnu bankans og helstu atburði sem tengjast rekstri hans árið 2017. Þar er til að mynda að finna umfjöllun yfir þær fjölmörgu stafrænu lausnir sem bankinn hefur kynnt viðskiptavinum nýverið. Viðskiptavinir geta til dæmis sótt um og breytt yfirdrætti í appi Íslandsbanka en appið er þegar orðið stærsta útibú bankans þegar kemur að yfirdráttarumsóknum.  

Samhliða er gefin út sérstök áhættuskýrsla (Pillar 3) sem veitir markaðsaðilum upplýsingar sem ætlað er að auka skilning á áhættustýringu bankans, eiginfjárstöðu hans, sem og lausafjárstöðu. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að Íslandsbanki uppfyllti allar innri og ytri kröfur um áhættumörk á árinu 2017 og helst lausafjár- og eiginfjárstaða bankans sterk.

Samfélagsskýrsla bankans kemur út samhliða ársskýrslu í fyrsta sinn en Íslandsbanki leggur mikla áherslu á samfélagsábyrgð í starfsemi sinni. Unnið er eftir níu verkefnum er snúa að ábyrgum rekstri og eitt af lykilverkefnum bankans  árið 2017 var Hjálparhönd, en þá veitir starfsfólk Íslandsbanka góðu málefni lið einn dag á ári. 

Öflugur hópur starfsmanna bankans kom að gerð skýrslnanna en þær veita innsýn í rekstur bankans fyrir viðskiptavini og hagaðila.

Hægt er að nálgast ofangreindar skýrslur, ásamt fjárhagsupplýsingum, á vef bankans.