Skert þjónusta vegna kvennaverkfalls 

Þriðjudaginn 24. október munu konur og kvár leggja niður störf til að mótmæla kynbundnu misrétti. Er þetta í sjöunda sinn sem mótmælt er með þessum hætti á kvennafrídaginn, en það var gert í fyrsta sinn árið 1975.


Íslandsbanki leggur sig fram um að styðja starfsfólk sitt sem kýs að taka þátt í þessum baráttudegi kvenna, en vekur um leið athygli viðskiptavina á því að aðgerðirnar koma til með að hafa nokkur áhrif á þjónustustig bankans.

Útibú bankans um allt land verða lokuð, en opið verður í útibúi bankans í Norðurturni við Smáralind í Kópavogi með tilfærslu starfsfólks af höfuðborgarsvæðinu en gjaldkeraþjónusta verður lokuð. Ergo verður einnig lokað og útborganir frestast fram á miðvikudaginn 25. október. Ráðgjafaver bankans verður opið en viðskiptavinir mega búast við meiri bið eftir þjónustu. 

Viðskiptavinir eru hvattir til að nýta sér stafræna þjónustu bankans í appi og netbanka og Fróði verður til taks í netspjalli.