Ekkert lát er á aðlögun hagkerfisins eftir þensluskeið síðustu ára ef marka má nýbirta þjóðhagsreikninga Hagstofunnar til og með 3. fjórðungs á þessu ári. Verg landsframleiðsla (VLF) skrapp saman að raungildi um 0,5% á 3. ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra eftir allsnarpan samdrátt á 1. fjórðungi en eilítinn vöxt á 2. fjórðungi ársins. Samdrátturinn skýrist af óhagstæðu framlagi utanríkisviðskipta. Þannig uxu þjóðarútgjöld, sem í grófum dráttum endurspegla innlenda eftirspurn, um 0,8% að raungildi á milli ára. Útflutningur skrapp hins vegar saman um 2,2% á milli ára en innflutningur minnkaði um 0,7% á sama tíma.
Samdráttur landsframleiðslu á 3. ársfjórðungi til marks um aðlögun
0,5% samdráttur landsframleiðslu á 3. ársfjórðungi er til marks um áframhaldandi aðlögun hagkerfisins eftir þensluskeið. Óhagstæð þróun þjónustuviðskipta við útlönd vegur þungt í hóflegum efnahagssamdrætti það sem af er ári en samdráttur í einkaneyslu á mann hefur einnig áhrif. Horfur eru á mildum samdrætti á árinu í heild en stíganda í hagvexti næstu tvö árin.
Þjónustuviðskipti þróast til verri vegar
Utanríkisviðskipti hafa verið leiðandi í hagsveiflunni meira og minna frá upphafi síðasta áratugar. Hefur hraður uppgangur ferðaþjónustu fram að faraldri og í kjölfarið sviptingar tengdar faraldrinum vegið þar þungt. Nú hefur aftur slegið í bakseglin á útflutningshliðinni eftir myndarlegan vöxt frá vordögum 2021 fram á mitt síðasta ár. Þar vegur þyngst samdráttur í þjónustuútflutningi en slíkur útflutningur skrapp saman um 6% að raungildi á 3. ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra. Tölurnar bera þess merki að þótt þokkalega hafi ræst úr háönn ferðaþjónustunnar eftir býsna slakt vor hefur tekjuvöxtur þar á bæ ekki haldið í við verðlagsþróun auk þess sem aðrir undirliðir voru sumir hverjir að þróast með óhagstæðum hætti eins og við fjölluðum nýlega um.
Vöruútflutningur var nánast óbreyttur milli ára í magni mælt á 3. ársfjórðungi. Hins vegar skrapp vöruinnflutningur lítillega saman á þeim kvarða en innflutningur á þjónustu jókst hins vegar á fjórðungnum. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var því á heildina litið neikvætt um 1,3% á 3. ársfjórðungi og hafa utanríkisviðskiptin dregið úr hagvexti samfellt það sem af er þessu ári öfugt við síðasta ár eins og sjá má á myndinni hér að ofan.
Fjárfesting í hægum vexti
Seigla hefur verið í fjármunamyndun það sem af er ári þrátt fyrir háa vexti, samdrátt í útflutningi og minnkandi bjartsýni hjá stjórnendum fyrirtækja í viðhorfskönnunum. Alls jókst fjárfesting um 2,3% á 3. ársfjórðungi í magni mælt. Jafnt og þétt hefur dregið úr vextinum það sem af er ári en samdráttur hefur þó ekki mælst á heildina litið samkvæmt gögnum Hagstofu.
Á fjórðungnum munaði langmest um tæplega 11% aukningu íbúðafjárfestingar milli ára. Þá tók fjárfesting hins opinbera heldur við sér eftir samdrátt á fyrri árshelmingi. Fjárfesting atvinnuveganna skrapp hins vegar örlítið saman eftir allnokkurn vöxt á fyrri helmingi þessa árs. Þar sem verulegar sveiflur eru oft á tíðum í ársfjórðungslegum fjárfestingartölum er gagnlegra að horfa á þróun þeirra frá ársbyrjun. Á þann mælikvarða hefur fjármunamyndun vaxið um tæp 4%. Þar vegur vöxtur í atvinnufjárfestingu þyngst en einnig hefur fjárfesting í íbúðarhúsnæði sótt í sig veðrið. Fjárfesting hins opinbera hefur aftur á móti nánast staðið í stað það sem af er þessu ári.
Rétt er að halda því til haga að fjármunamyndun er sá undirliður þjóðhagsreikninga sem hvað mest er endurskoðaður frá fyrstu tölum í gögnum Hagstofu. Alla jafna er sú endurskoðun til hækkunar eftir því sem ítarlegri gögn berast. Gæti því vöxtur fjárfestingar þetta árið reynst nokkru meiri á endanum en ofangreindar tölur gefa til kynna.
Neytendur halda að sér höndum
Takturinn í einkaneyslu landsmanna ræður talsvert miklu um þróun þjóðhagsreikninganna enda er hlutdeild einkaneyslunnar í VLF ríflega helmingur. Á 3. ársfjórðungi óx einkaneysla um 0,8% að raunvirði miðað við sama tíma í fyrra. Þar vó hvað þyngst aukning í neyslu landsmanna erlendis um 3%. Jafnframt sýndu útgjöld heimilanna vegna þjónustu og húsnæðis vægan vöxt. Umtalsverður samdráttur var aftur á móti í neyslu varanlegra neysluvara, til dæmis bifreiðakaupum, sem er framhald þróunarinnar á fyrsta og öðrum ársfjórðungi.
Á heildina litið hefur einkaneysla verið í svipuðum takti þetta árið og í fyrra þótt nokkur sveifla hafi verið milli ársfjórðunga. Til að mynda óx einkaneyslan um 0,4% að raungildi á fyrsta fjórðungi ársins en skrapp hins vegar saman um hálfa prósentu á öðrum ársfjórðungi. Þar þarf þó að hafa í huga að landsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt það sem af er ári. Þannig nam fólksfjölgun á fyrstu 9 mánuðum ársins 1,8% frá sama tíma í fyrra. Einkaneysla á mann hefur því skroppið nokkuð saman á tímabilinu.
Þá þróun má skýra með ýmsum áhrifaþáttum, til að mynda hærri vöxtum, breytingum í samsetningu mannfjöldans þar sem erlendir ríkisborgarar skýra langstærstan hluta fjölgunarinnar, lítinn kaupmáttarvöxt á heildina litið og síðast en ekki síst vaxandi svartsýni landsmanna framan af ári ef marka má þróun Væntingavísitölu Gallup. Hins vegar gæti yfirstandandi ársfjórðungur reynst frávik frá þeirri þróun af nýlegum hagvísum að dæma. Þannig tók bæði kortavelta og væntingar landans allhressilega við sér samkvæmt nýjustu tölum auk þess sem hjaðnandi verðbólga hefur leitt til heldur meiri kaupmáttarvaxtar undanfarið en mældist fyrr á árinu.
Útlit fyrir lítilsháttar samdrátt VLF í ár
Það sem af er ári hefur samdráttur í stórum dráttum einkennt hagþróunina. Þó mældist örlítill hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi eftir allsnarpan samdrátt á fyrsta fjórðungi ársins. Á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs hefur VLF skroppið saman að raungildi um 1% frá sama tíma í fyrra. Þjóðarútgjöld hafa þó vaxið um 0,6% þar sem tæplega 4% vöxtur fjárfestingar og nærri 3% raunaukning samneyslu hefur dregið vaxtarvagninn en einkaneysla nánast verið sú sama og í fyrra líkt og fyrr segir.
Ríflega tveggja prósenta samdráttur útflutnings á sama tíma og innflutningur óx um ríflega prósentu hefur hins vegar riðið baggamuninn um þann samdrátt í VLF sem mælst hefur í ár. Útflutningsmegin munar mestu um nærri 6% samdrátt í þjónustuútflutningi en vöruútflutningur jókst á móti um ríflega prósentu. Svipaða sögu má segja um innflutninginn. Þar stóð vöruinnflutningur í staða en innflutningur þjónustu óx á sama tíma um nærri 4%. Óhagstæðari þjónustuviðskipti eru því í raun hornsteinninn í þeim samdrætti sem hefur einkennt hagþróun ársins.
Niðurstaðan fyrir fyrstu þrjá fjórðunga ársins er heldur undir því sem nýlegar hagspár hafa reiknað með. Þar má nefna að í nýlegum Peningamálum áætlaði Seðlabankinn að VLF myndi aukast um 2,5% á 3. fjórðungi og að niðurstaðan fyrir árið í heild yrði óbreytt VLF að raungildi milli ára þrátt fyrir samdrátt á fyrri árshelmingi.
Þá má nefna að í septemberlok spáðum við því að VLF myndi aukast um 0,3% á árinu í heild. Lítur nú út fyrir að lítilsháttar samdráttur muni líklega mælast í landsframleiðslunni í ár jafnvel þótt vöxtur taki líklega eitthvað við sér á lokafjórðungi ársins. Þarna munar hvað mestu um að samdrátturinn í útflutningi lítur út fyrir að verða nokkru meiri en við væntum. Eftir sem áður eru þó horfur á því að hagvöxtur glæðist á ný næstu misserin. Við spáðum í september að hagvöxtur myndir reynast 1,2% á árinu 2025 og 2,5% árið 2026. Sambærilegar tölur í nýjustu spá Seðlabankans eru 1,9% fyrir 2025 og 2,3% fyrir árið 2026. Það bendir því enn flest til þess að hagsveifluskilin sem nú standa yfir muni fela í sér tiltölulega mjúka lendingu hagkerfisins án mikilla skakkafalla á borð við aukið atvinnuleysi, útbreidd greiðsluvandræði heimila eða umtalsverða rekstrarerfiðleika fyrirtækja.