Afgangur af þjónustujöfnuði á 3. fjórðungi sá næstmesti frá upphafi

Þokkaleg háönn ferðaþjónustunnar átti drjúgan þátt í allmyndarlegum afgangi af þjónustuviðskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á þriðja fjórðungi vó upp halla á fyrri helmingi ársins. Útlit er þó fyrir einhvern halla á utanríkisviðskiptum á árinu í heild.


Afgangur af þjónustujöfnuði á þriðja fjórðungi þessa árs var tæplega 141 ma.kr. Hefur afgangurinn aðeins einu sinni verið meiri samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar en það var á sama tíma í fyrra þegar hann mældist tæpir 155 ma.kr. Alls nam þjónustuútflutningur rúmum 319 ma.kr. á tímabilinu en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu voru tæpir 179 ma.kr.

Ferðaþjónustan drjúg í gjaldeyrisöflun á fjórðungnum

Eins og fyrri daginn vó háönn ferðaþjónustunnar þungt í myndarlegum afgangi á fjórðungnum. Þannig var afgangur vegna neyslu á ferðalögum tæplega 107 ma.kr. og afgangur á millilandaviðskiptum tengdum samgöngum og flutningi nærri 64 ma.kr. Á móti var halli á flestum öðrum helstu undirliðum þjónustujafnaðarins. Til að mynda voru útgjöld vegna kaupa á tækniþjónustu og annarri viðskiptaþjónustu tæplega 11 ma.kr. umfram tekjur af slíkri þjónustu erlendis frá. Þá voru hrein útgjöld vegna sérfræði- stjórnunar- og ráðgjafaþjónustu tæpir 5 ma.kr. á fjórðungunum og síðast en ekki síst voru beinar greiðslur og skyldir liðir vegna fjármálaþjónustu til útlanda nærri 3 ma.kr. umfram sambærilegar tekjur erlendis frá. Viðsnúningur hefur orðið í þeim leið á síðustu fjórðungum en hann skilaði jafnan afgangi fram að því. Trúlega er skýringin þar vaxandi viðskipti innlendra aðila við erlenda færsluhirða í greiðslukortaviðskiptum en sú þróun hefur verið nokkuð hröð síðustu misserin eins og við höfum áður fjallað um.

Umfang ferðaþjónustunnar á hverjum tíma endurspeglast í gögnum um ferðalög annars vegar, og farþegaflutninga með flugi hins vegar. Fyrrnefndi liðurinn endurspeglar neyslu ferðafólks á ferðalagi sínu en hinn síðari beinan verðakostnað.

Á þriðja fjórðungi þessa árs skiluðu þessir tveir liðir samtals útflutningstekjum upp á 241 ma.kr. og hafa tekjurnar aldrei verið meiri í krónum talið. Á móti jukust útgjöld landsmanna vegna ferðalega erlendis einnig nokkuð á milli ára en þau námu tæpum 69 ma.kr. á fjórðungnum. Afgangur af slíkum þjónustuviðskiptum var því nánast upp á krónu sá sami á tímabilinu og á sama tíma í fyrra, eða tæplega 172 ma.kr. Þessar tölur ríma ágætlega við áður framkomnar tölur um brottfarir um Keflavíkurflugvöll, gistinætur og kortaveltu og staðfesta þá sögu að háönn ferðaþjónustunnar hafi verið þokkaleg þetta árið þótt útlitið væri tvísýnt í vor.

Lítilsháttar afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum það sem af er ári

Nú liggja fyrir tölur yfir tvo helstu undirliði viðskiptajafnaðar á þriðja ársfjórðungi. Halli á vöruskiptum var 76 ma.kr. á greiðslujafnaðargrunni á tímabilinu og þar með 6 ma.kr. minni en á sama tíma í fyrra. Þá breytingu má þakka 7% aukningu í vöruútflutningi milli ára en á móti jókst vöruinnflutningur um 2% á sama tíma. Sem fyrr segir var 141 ma.kr. afgangur af þjónustujöfnuði og samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd var því ríflega 64 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi.

Á fyrri helmingi ársins var halli á vöru- og þjónustuviðskiptum alls rúmlega 56 ma.kr. Afgangurinn á þriðja fjórðungi vó þann halla upp og gott betur. Samanlagt var þannig rúmlega 8 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á fyrstu 9 mánuðum ársins. Það er þó talsvert lakari útkoma en á síðasta ári þegar afgangurinn á fyrstu þremur fjórðungum ársins nam nærri 61 ma.kr. og vegur óhagstæðari þjónustujöfnuður þyngst í þeirri þróun.

Ferðaþjónusta og hugverkaiðnaður í sókn

Ferðaþjónustan hefur endurheimt fyrri sess sem stærsta einstaka útflutningsgreinin eftir bakslag í faraldrinum. Alls hefur greinin skilað nærri 33% af heildar útflutningstekjum hagkerfisins undanfarna fjórðunga ef horft er á 12 mánaða hlaupandi heildartölu. Á sama tíma skiluðu tvær helstu vöruútflutningsgreinarnar, sjávarútvegur og álframleiðsla, hvor um sig um það bil 15% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins.

Hins vegar ber að halda því til haga að fjórða stoðin undir útflutningstekjur, hugverkaiðnaður, er í stöðugri sókn og skiptir orðið verulegu máli fyrir heildar tekjuöflun þjóðarbúsins erlendis frá. Hagstofan birtir ekki með beinum hætti heildargögn um slíkar útflutningstekjur enda nær geirinn yfir ýmsar greinar bæði á sviði þjónustu sem og vöruframleiðslu, allt frá framleiðslu á lyfjum og lækningavörum til tölvuleikja.

Samtök iðnaðarins (SI) hafa aftur á móti tekið saman gögn um þróunina í þessum geira. Áætla sérfræðingar SI að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafi verið 263 ma.kr. á síðasta ári en það svarar til 14% af heildar útflutningstekjum af vöru og þjónustu í fyrra. Drjúgur hluti af ljósgulu, ljósgráu og dökku súlunum á myndinni hér að ofan skýrist því af slíkum útflutningi enda má segja að hugverkaiðnaðurinn sé kominn upp að hlið sjávarútvegs og álframleiðslu sem einn burðarás útflutningstekna Íslands.

Seðlabankinn birtir heildartölur um viðskiptajöfnuð á þriðja fjórðungi að viku liðinni. Trúlega reynist viðskiptaafgangur talsverður í þeim tölum. Útlit er hins vegar fyrir að á árinu í heild verði nokkur viðskiptahalli í ljósi verulegs halla á fyrri helmingi ársins. Þar horfir hins vegar til betri vegar og gerum við ráð fyrir að utanríkisviðskipti verði í ágætis jafnvægi bæði næsta ár og það þarnæsta.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband