Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Samdráttur á fyrsta fjórðungi en verra í vændum

Landsframleiðsla dróst saman á fyrsta fjórðungi þessa árs. Má ætla að þessar tölur séu lognið á undan storminum og líklegt er að samdrátturinn verði snarpari á næsta fjórðungi. Þrátt fyrir dökkar efnahagshorfur næstu misseri eru fjölmargar ástæður til að ætla að bjartari tímar séu framundan og kreppan verði skammvinn.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar dróst verg landsframleiðsla (VLF) saman um 1,2% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Samdrátturinn er að mestu vegna neikvæðs framlags utanríkisviðskipta enda jukust þjóðarútgjöld (neysla og fjárfestingar) um 2,9% á fjórðungnum. Útflutningur skrapp hins vegar saman um 17,2% á fjórðungnum sem má að mestu rekja til samdráttar í ferðaþjónustu. Á móti minnkaði innflutningur vöru og þjónustu um nærri 10%. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar er því neikvætt þar sem útflutningur dróst meira saman en innflutningur á fjórðungnum.

Þrátt fyrir samdrátt má ætla að þessar tölur séu lognið á undan storminum. Líklegt er að á næsta fjórðungi verði samdrátturinn mun snarpari. Áhrifa COVID mun gæta mest á þeim fjórðungi og koma í kjölfarið til með að lita allt árið. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir um 9% samdrætti í landsframleiðslu í ár, en verði faraldurinn í rénun eftir mitt ár eru góðar horfur á myndarlegum hagvexti strax á næsta ári.

Ferðaþjónusta þungmiðja hagsveiflunnar

Sú hagsveifla sem hefur nú runnið sitt skeið hefur verið að mestu útflutningsdrifin. Þar spilar ferðaþjónusta stórt hlutverk og var þjónustuútflutningur einn helsti drifkraftur vaxtar frá árinu 2013 fram á árið 2017. Líkt og áður hefur verið nefnt skrapp útflutningur saman um 17% þar sem mestur samdráttur var í þjónustuútflutningi. Áhrif COVID faraldursins hafa talsvert um það að segja en ferðamönnum snarfækkaði í marsmánuði.

Ætla má að þjónustuútflutningur muni skreppa umtalsvert meira saman á komandi fjórðungum vegna áhrifa faraldursins. Í fyrrnefndri spá okkar gerum við ráð fyrir að ferðamenn fari að heimsækja landið á nýjan leik á seinni helmingi ársins en samdráttur í fjölda ferðamanna nemi um 60% á árinu í heild samanborið við síðasta ár.

Fjárfesting eykst... eða hvað?

Fjármunamyndun lét nokkuð undan síga á árinu 2019 og var það annað árið í röð sem hún skrapp saman. Á fyrsta fjórðungi þessa árs jókst hún hins vegar um 4,1%, en það skýrist að mestum hluta af áhrifum útflutnings flugvéla í fyrra þegar WOW-air seldi flugvélar sínar úr landi rétt áður en félagið varð gjaldþrota. Atvinnuvegafjárfesting jókst því um 9,5% á fjórðungnum en án útflutnings flugvéla hefði mælst samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu upp á 26%.

Útflutningur farþegaflugvéla hefur mikið að segja í okkar litla hagkerfi og getur litað tölur varðandi heildarfjárhæðir í fjárfestingu og utanríkisviðskiptum verulega í einstökum fjórðungum. Þar sem áhrif utanríkisviðskipta vega upp áhrif framangreindrar flugvélasölu á fjárfestingu hefur þetta þó engin áhrif á landsframleiðslu.

Íbúðafjárfesting dróst saman á fjórðungnum um 3,2% eftir afar myndarlegan vöxt síðustu ár. Samkvæmt Hagstofunni hefur vöxtur íbúðafjárfestingar á síðustu misserum verið að mestum hluta vegna fjölgunar íbúða á síðari byggingarstigum en minna er um íbúðir á fyrri byggingarstigum. Þetta er góð vísbending um þróun íbúðafjárfestingar á næstunni og rímar við talningu Samtaka iðnaðarins sem gerir ráð fyrir samdrætti í nýbyggingum á næstu misserum.

Útlit er fyrir að eftirspurn á íbúðamarkaði dragist saman á næstunni vegna versnandi efnahagshorfa. Það sem kemur til með að hjálpa eftirspurnarhliðinni eru hagstæð kjör á íbúðalánum en einnig gæti fækkun íbúða í byggingu haft áhrif.  Hér þarf þó að stíga varlega til jarðar og læra af efnahagshruninu þar sem lítið var byggt og umframeftirspurn myndaðist sem varð til þess að verð á íbúðamarkaði hækkaði upp úr öllu valdi um miðbik síðasta áratugar. Útlit er fyrir að samdráttarskeiðið verði stutt og allar líkur á að eftirspurn á íbúðamarkaði glæðist á nýjan leik strax á næsta ári.

Einkaneysla verður fyrir skelli

Þróun einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis. Síðustu ár hefur einkaneysla vegið þungt til hagvaxtar og skýrt um helming af landsframleiðslunni. Góðu heilli hefur sá vöxtur ekki verið byggður á vaxandi skuldsetningu heimila heldur hefur hann verið studdur af auknum kaupmætti og fólksfjölgun. Vöxtur í einkaneyslu mældist 0,9% á fjórðungnum en líklegt verður að teljast að þróunin hafi verið afar mismunandi eftir mánuðum. Þannig benda hagvísar til þess að vöxtur einkaneyslu hafi verið nokkur í janúar og febrúar en neyslan hafi hins vegar skroppið talsvert saman í mars þegar áhrifa faraldursins fór að gæta hér á landi.

Atvinnuleysi, kortaveltutölur og væntingar landsmanna benda til að samdráttur í einkaneyslu verði mikill á þessu ári. Vegna samkomubanns og ferðatakmarkana munu tölur fyrir næsta fjórðung líklega verða fyrir mestu áhrifum COVID faraldursins þó faraldurinn muni vissulega lita allt þetta ár. Við gerum við ráð fyrir 5,5% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári, en ástandið verði skammvinnt og einkaneysla taki við sér strax á næsta ári.

Ætla má að þessi fjórðungur sé þrátt fyrir allt bjartsýnisfjórðungur þessa árs og að samdráttur verði töluverður á næsta ársfjórðungi. Þrátt fyrir að efnahagshorfur til skemmri tíma séu vissulegar dökkar eru hins vegar fjölmargar ástæður til að ætla að bjartari tímar séu framundan og að kreppan verði fremur skammvinn.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband