Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

S&P hækkar lánshæfismat Íslandsbanka í BBB+/A-2 með stöðugum horfum

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hækkaði í dag lánshæfismat Íslandsbanka úr BBB/A-2 í BBB+/A-2 með stöðugum horfum.


Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hækkaði í dag lánshæfismat Íslandsbanka úr BBB/A-2 í BBB+/A-2 með stöðugum horfum.

Hækkun á lánshæfismati bankans byggir að mestu á batnandi rekstrarumhverfi íslenska bankakerfisins í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta og lækkandi skuldastöðu fyrirtækja og heimila. Vegna þessa telur S&P að íslenska bankakerfið hafi styrkts og eiginfjárstaða Íslandsbanka batnað þegar horft er til langs tíma að teknu tilliti til áhættu í umhverfinu.

Stöðugar horfur á einkunn bankans endurspegla þá skoðun S&P að íslenskt efnahagslíf muni áfram standa á traustum fótum og að bankinn viðhaldi sterkri eiginfjárstöðu á komandi árum á sama tíma og hann haldi áfram að ná fram hagstæðari fjármagnsskipan.

Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka:

Það er ánægjulegt að sjá lánhæfismat bankans hækka og trúna aukast á íslensku efnahagslífi og fjármálakerfi. Hækkun á lánshæfismatseinkunn bankans er í takt við hagstæða þróun á vaxtaálagi á erlendum skuldabréfaútgáfum og aukinn áhuga erlendra fjárfesta á skuldabréfum bankans undanfarna mánuði sem kemur sér vel fyrir viðskiptavini bankans. Hækkunin er jafnframt skýrt merki um góðan árangur við uppbyggingu bankans og íslensks efnahagslífs á síðustu árum.