Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Riaan Dreyer nýr framkvæmdarstjóri Upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka

Riaan Dreyer hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs hjá Íslandsbanka. Riaan hefur störf hjá bankanum í september.


Riaan hefur mikla reynslu af viðskiptalausnum og upplýsingatæknimálum fjármálafyrirtækja. Hann starfaði áður sem forstöðumaður hugbúnaðarþróunar hjá Arion banka og við hugbúnaðarlausnir hjá Meniga. Þar áður starfaði hann við þróun viðskiptalausna hjá Standard Bank í Suður-Afríku hvar hann var forstöðumaður upplýsingatæknisviðs. Hann gegndi sömu stöðu hjá Liberty Life í Suður Afríku og þar áður sem ráðgjafi hjá Deloitte Consulting.

Riaan er með masterspróf í upplýsingatækni frá Pretoria háskólanum í Suður Afríku. Hann lauk BSc gráðu í tryggingastærðfræði frá sama háskóla og BSc gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Suður Afríku. Hann hefur einnig lokið námi í stjórnunarnámi frá IESE háskólanum í Barcelona á Spáni auk þess sem hann stundaði nám í upplýsingatækni í Saïd viðskiptaháskólanum, sem er hluti af Oxford háskólanum í Englandi.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Íslandsbanki hefur sex ár í röð hlotið verðlaun fyrir bestu þjónustuna á bankamarkaði og höldum við áfram á þeirri vegferð með nýjum stafrænum lausnum og öflugu grunnkerfi. Við erum spennt að fá Riaan til liðs við okkur en hann hefur mikla þekkingu af upplýsingatækni fjármálamarkaða og alþjóðlega reynslu sem mun nýtast okkur vel. Við hlökkum til spennandi tíma með viðskiptavinum okkar þar sem við munum kynna mikið af nýjum lausnum á næstunni sem munu einfalda bankaviðskiptin og færa okkur hratt inn í framtíðina.“