Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitala í maí um 0,3% frá fyrri mánuði. Undanfarna 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,4% sem er, að undanskildum aprílmánuði, hæsti árstakturinn frá því í apríl í fyrra. Í aprílmánuði hækkaði vísitalan töluvert eða um 3,3% aðallega vegna launahækkana sem samið var um á síðasta ári í kjarasamningum bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera.
Raunlaun hækka en ráðstöfunartekjur margra skerðast
Hagstofan birti nýlega tölur um vísitölu launa og kaupmáttar launa fyrir maímánuð. Engan bilbug er að finna á launaþróun landsmanna þrátt fyrir COVID-19 skellinn. Atvinnuleysi mælist hátt og útlit er fyrir að ráðstöfunartekjur margra komi til með að skerðast vegna þess. Ljóst er að einkaneyslan verður fyrir skelli og þá sérstaklega á öðrum ársfjórðungi og svo aftur á haustmánuðum þegar atvinnuleysi nær hámarki.
Vísitala kaupmáttar launa lækkaði hins vegar um 0,2% frá mánuðinum á undan, enda hækkaði vísitala neysluverðs um 0,5% í maímánuði. Í síðasta mánuði hækkaði kaupmátturinn um 2,8% sem er hæsta hækkun í einstaka mánuði í 3 ár. Árshækkun kaupmáttar launa mældist 3,8% í maí en með hjaðnandi verðbólgu síðastliðið ár hefur heldur betur bætt í hækkunartakt kaupmáttar launa og var kaupmáttarvöxturinn í apríl og maí sá hæsti í tvö ár.
Sú þróun að kaupmáttur sé að aukast verulega kann að skjóta skökku við þegar efnahagshorfur hérlendis eru dökkar vegna COVID-19 faraldursins. Hafa verður í huga að helsta ástæða þessa er árshækkun launa sem samið var um í kjarasamningum fyrir tíma faraldursins.
Ráðstöfunartekjur margra skerðast
Launavísitalan mælir verðbreytingu vinnustundar fyrir fastan vinnutíma og vísitala kaupmáttar launa sýnir breytingu launavísitölunnar umfram breytingu vísitölu neysluverðs. Vísitölurnar endurspegla því breytingar á launum fólks sem er á vinnumarkaðnum en taka ekki tillit til fólks sem missir vinnuna eða fer á hlutabótaleið stjórnvalda. Vegna þessa er þróun vísitalnanna eins og raun ber vitni þó skammtímahorfur á vinnumarkaði séu ansi dökkar.
Á síðastliðnum fjórum árum hefur atvinnuleysi mælst að meðaltali 3% hér á landi en samkvæmt nýlegri skýrslu Vinnumálastofnunar var almennt atvinnuleysi í maí 7,4% og atvinnuleysi vegna hlutabótaleiðarinnar 5,6%. Það liggur því fyrir að ráðstöfunartekjur verulegs hluta launafólks mun skerðast á næstunni.
Í þjóðhagsspá okkar spáum við að atvinnuleysi verði að meðaltali um 9,6% á þessu ári án hlutabótaleiðar. Á síðustu mánuðum hafa um 7.000 manns misst vinnuna í hópuppsögnum og ætla má að töluverð aukning verði í atvinnuleysi í lok sumars og á haustmánuðum þegar talsverður hluti þessa fólks fer á atvinnuleysisbætur. Á næsta ári teljum við að atvinnuleysi taka að hjaðna þegar að faraldurinn verður í rénun og efnahagshorfur batna á nýjan leik.
Skellur í einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi
Eins og sjá má á myndinni hefur þróun einkaneyslu og kaupmáttar launa haldist í takt síðastliðin ár. Það virðist þó ekki vera raunin þessa dagana. Ef marka má þróun kortaveltu, sem er einn gagnlegasti hagvísirinn fyrir mat á þróun einkaneyslu, drógu íslensk heimili allnokkuð úr neyslu sinni undanfarna mánuði. Innlend kortavelta í maímánuði var þó talsvert myndarlegri en í mánuðunum á undan sem má rekja að mestu til uppsafnaðrar þarfar eftir neysluminni mánuði í samkomubanni.
Þarna er vissulega COVID-19 að hafa áhrif á kortaveltutölur, atvinnuleysi mælist hátt auk þess sem samkomubann og ferðatakmarkanir hafa gífurleg áhrif á neyslu landans. Hagvísar næstu mánaða munu gefa okkur frekari vísbendingar um þróun einkaneyslunnar eftir faraldurinn en líklegt er að allnokkur munur verði á einkaneyslunni eftir ársfjórðungum. Á fyrsta ársfjórðungi mældist einkaneysluvöxturinn 0,9% og er útlit fyrir að skellurinn verði hvað harðastur á öðrum ársfjórðungi þegar ýmis boð og bönn voru í hámarki. Neysla landans yfir sumarmánuðina gæti glæðst talsvert á nýjan leik en ætla má að annað högg verði á einkaneyslunni á haustmánuðum þegar atvinnuleysi nær hámarki. Við spáum 5,5% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári en teljum að góðar líkur séu á því að einkaneysla taki við sér strax á næsta ári.