Fullkominn samhljómur virðist hafa ríkt innan peningastefnunefndar Seðlabankans (PSN) um síðustu vaxtaákvörðun sem kynnt var þann 20. nóvember sl. Samkvæmt nýbirtri fundargerð nóvemberfundanna samþykkti nefndin samhljóða tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um 50 punkta vaxtalækkun og hefði enginn nefndarmaður fremur kosið aðra niðurstöðu. Er það í annað skiptið þetta árið sem slík samstaða ríkir í PSN. Í þrjú skipti hefur einn nefndarmeðlimur greitt atkvæði gegn meirihlutanum og í október lét einn nefndarmanna bóka að viðkomandi hefði frekar kosið óbreytta vexti þótt öll greiddu þau atkvæði með vaxtalækkun.
Peningastefnunefnd: Samstaða um hálfrar prósentu vaxtalækkun í nóvember
Samstaða var í peningastefnunefnd Seðlabankans um að lækka stýrivexti um hálfa prósentu í nóvember. Möguleg vaxtalækkun um fjórðung úr prósentu var þó einnig rædd. Útlit er fyrir að stýrivextir verði alls lækkaðir um tvö prósentustig á næsta ári og einhver frekari vaxtalækkun gæti orðið á árinu 2026.
Á vaxtaákvörðunarfundunum í nóvember var rætt hvort lækka ætti vexti um 0,25 eða 0,50 prósentur. 0,75 prósenta vaxtalækkun, sem einhverjar væntingar voru um á markaði, virðist hins vegar ekki hafa verið rædd yfir höfuð frekar en möguleikinn á óbreyttum vöxtum.
Helstu rök með vaxtalækkun voru, að mati nefndarinnar:
- Áfram hefði hægt á efnahagsumsvifum og margir þættir hefðu þokast í rétta átt.
- Dregið hefði úr umfangi verðhækkana og bæði innlend og innflutt verðbólga minnkað.
- Horfur væru á að verðbólga myndi hjaðna hraðar en áður var talið og verðbólguhorfur því batnað.
- Ef fram héldi sem horfði væri líklegt að skammtímaverðbólguvæntingar lækkuðu enn frekar.
- Áfram hefði dregið úr spennu bæði á vinnumarkaði og húsnæðismarkaðnum en íbúðaverð hafði lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar og meðalsölutími lengst.
- Svo virtist sem áhrif vegna flutninga Grindvíkinga væru að mestu komin fram og húsnæðismarkaðurinn væri því að komast í betra jafnvægi.
- Taumhald peningastefnunnar hefði aukist undanfarið.
- Hækkun verðtryggðra vaxta á húsnæðislánum viðskiptabankanna og hert lánaskilyrði myndu væntanlega áfram draga úr umsvifum á húsnæðismarkaði auk þess sem greiðslubyrði af lánum færi vaxandi hjá þeim hluta heimila sem stæði frammi fyrir endurskoðun vaxtaskilmála.
Helstu rök fyrir áframhaldandi aðhaldi voru:
- Þótt hægt hefði á vexti innlendrar eftirspurnar væri þróunin afar hæg og ýmsar vísbendingar væru um að enn væri þróttur í þjóðarbúskapnum.
- Ekki væri útilokað að efnahagsumsvif væru vanmetin í ljósi nýlegra endurskoðana Hagstofunnar á sögulegum hagtölum.
- Endurskoðaðar tölur um ráðstöfunartekjur heimila bentu til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði aukist meira á síðustu árum en áður var áætlað og sparnaður heimila væri því meiri.
- Það, ásamt launahækkunum umfram verðbólgu gæti leitt til meiri einkaneysluvaxtar en spáð væri.
- Enn virtist töluverð spenna í byggingageiranum þótt vísbendingar væru um að áraun á framleiðsluþætti hefði minnkað í öðrum atvinnugreinum.
- Ef stór skref til lækkunar vaxta yrðu tekin of snemma gæti það skaðað trúverðugleika peningastefnunnar, einkum ef það leiddi til þess að undirliggjandi kraftur í þjóðarbúskapnum myndi aukast á ný, verðbólga aukast og verðbólguvæntingar hækka.
- Óvissa væri um kjarasamninga hjá hluta opinberra starfsmanna og að framundan væru kosningar.
Fram kom samkvæmt fundargerðinni að næsti reglulegi fundur nefndarinnar yrði ekki fyrr en á nýju ári (5. febrúar nk.) og taldi nefndin að svigrúm væri til að taka stærra skref til lækkunar vaxta og viðhalda um leið hæfilegu aðhaldsstigi til þess að styðja við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og draga úr framleiðsluspennu á komandi misserum. Útlit væri þó fyrir að taumhald peningastefnunnar þyrfti áfram að vera þétt.
Hvað er framundan í stýrivöxtunum?
Fundargerðin rímar við væntingar okkar um að almennur vilji hefði verið innan PSN til þess að lækka stýrivexti í nóvember eftir hagfellda verðbólgumælingu í október, lækkun verðbólguvæntinga í nýjustu væntingamælingum meðal þátttakenda á fjármálamörkuðum og skýrari merki um kólnun hagkerfisins í nýlegum hagtölum.
Frá stýrivaxtaákvörðuninni hafa ýmsir hagvísar birst þótt ekki sé langt um liðið. Verðbólga í nóvember reyndist 4,8% og þar með heldur meiri en almennt var spáð. Það breytir þó að okkar mati ekki enn sem komið er stóru myndinni um að verðbólga muni hjaðna jafnt og þétt á fyrri helmingi næsta árs og verði komin í grennd við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans þegar lengra líður á það ár. Þá sýndu þjóðhagsreikningar fyrir 3. ársfjórðung samdrátt VLF milli ára þótt á móti væri landsframleiðsla á fyrri helmingi ársins metin heldur meiri en í fyrri tölum.
Líkt og við nefndum í umfjöllun eftir vaxtaákvörðunina teljum við að stýrivextir verði lækkaðir áfram jafnt og þétt um 25-50 punkta í hverri vaxtaákvörðun á næsta ári. Vextirnir gætu miðað við það verið komnir niður í 6,5% í árslok 2025. Von er í kjölfarið á einhverri frekari lækkun vaxta á árinu 2026 en vitaskuld er óvissa um hagþróun og verðbólguhorfur, og þar með viðeigandi aðhald peningastefnunnar, mikil þegar svo langt er skyggst fram í tímann.