Evrópumót kvenna í knattspyrnu er haldið á Englandi nú í júlí. Íslenska landsliðið mætir til leiks með sterkari hóp en nokkru sinni fyrr og útlit er fyrir að um verði að ræða eitt umfangsmesta og glæsilegasta stórmót í knattspyrnu kvenna sem haldið hefur verið.
Á fjárhagslegan mælikvarða liggur fyrir að EM 2022 verður langstærsta Evrópumót kvenna sem haldið hefur verið hingað til. Sem dæmi má nefna að evrópska knattspyrnusambandið UEFA útfærir nú fyrirkomulag greiðslna til landsliða og félagsliða leikmanna með sama hætti og á EM karla auk þess sem heildar greiðslur sambandsins til þátttakenda vel ríflega tvöfaldast á milli móta. Ýmislegt áhugavert leynist bak við tjöld þessa spennandi stórmóts og því ekki úr vegi að líta á það helsta.
Verðlaunafé og greiðslur
Á EM 2017 í Hollandi fengu knattspyrnusambönd þáttökuþjóðanna 69 milljónir króna að meðaltali millifærðar frá UEFA vegna þátttöku á mótinu. Nú verður þessi fjárhæð tvöfölduð í 138 milljónir. Ekkert hefur verið gefið upp um hvort leikmenn íslenska liðsins fái hluta þeirra greiðslu.
Þar að auki munu félagslið leikmanna fá í það minnsta 1,4 milljónir króna fyrir þátttöku hvers leikmanns, en greiðslan eykst örlítið fyrir hvern leik sem landsliðið spilar umfram leiki í riðlakeppni mótsins. Valur og Bayern Munchen eiga því von á ríflega 4 milljónum króna, Breiðablik 2,8 milljónum og Selfoss 1,4, svo dæmi séu tekin.