Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óvænt hjöðnun verðbólgunnar í desember

Ársverðbólga hjaðnaði nokkuð óvænt í desember. Helsta ástæða þess var minni hækkun íbúðaverðs og flugverðs en vænst var. Hjöðnun ársverðbólgunnar hófst mánuði fyrr en við spáðum en við gerum ráð fyrir áframhaldandi hjöðnun hennar næstu mánuði.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,4% í desember samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar úr 8,0% í 7,7%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis hjaðnar einnig og mælist 6,7% undanfarna 12 mánuði.

Mæling desembermánaðar er undir öllum birtum spám. Spár voru á bilinu 0,6 – 0,9% og við spáðum 0,9% hækkun vísitölunnar. Það helsta í mælingu desembermánaðar sem kom okkur á óvart er að íbúðaverð sem og flugfargjöld eru að hækka talsvert minna en við spáðum.

Íbúðamarkaður róast enn á ný

Það sem vegur þyngst í hækkun vísitölunnar í desembermánuði er reiknaða húsaleigan. Hækkun íbúðaverðs hefur vegið þungt í hækkun vísitölu neysluverðs undanfarna mánuði en nú er talsverð breyting þar á og hækkar íbúðaverð talsvert minna en síðustu mánuði. Reiknaða húsaleigan hækkar um 0,85% (0,17% áhrif á VNV) sem er minnsta hækkun þeirrar undirvísitölu frá því í ágúst. Reiknaða húsaleigan byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis og vöxtum verðtryggra húsnæðislána. Markaðsverðið hækkar um 0,34% og vaxtaþátturinn um 0,5%. Markaðsverðið rímar ágætlega við vísitölu íbúðaverðs sem birtist fyrr í vikunni og hækkaði einungis um 0,1%.

Árshækkun íbúðaverðs hefur aukist aðeins síðustu mánuði og mælist nú 4,2%. Það er þó talsvert breytt staða frá því sem var í fyrrasumar þegar árstakturinn mældist hæst í 25%. Undanfarið ár hefur húsnæðisverð á landsbyggðinni hækkað mest eða um 8%. Næst á eftir kemur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hefur hækkað í verði um 3,1% undanfarið ár og að lokum sérbýli sem hafa hækkað um 2% á sama tímabili.

Aðrir helstu liðir í mælingunni

Að húsnæðisliðnum undanskildum er það liðurinn ferðir og flutningar sem vegur þyngst til hækkunar í mælingunni. Liðurinn hækkar um 0,7% (0,10% áhrif á VNV) þar sem eldsneyti lækkar um 0,8% (-0,02% áhrif á VNV) en flugfargjöld hækka um 5,5% (0,09% áhrif á VNV). Athyglisvert er hvað flugfargjöld hækka lítið nú í desember en alla jafna hækkar þessi liður um tveggja stafa tölu í prósentum talið í desember. Eins og sést á myndinni hér að neðan eru það talsvert minni hækkanir á íbúðamarkaði sem og flugfargjöldum sem er ástæða þess að vísitala neysluverðs hækkar minna í mánuðinum en við spáðum.

Aðrir helstu liðir sem hækka á milli mánaða eru aðrar vörur og þjónusta sem hækkar um 1% (0,07% áhrif á VNV), liðurinn heilsa sem hækkar um 1% (0,04% áhrif á VNV) og föt og skór sem hækka um 0,9% (0,04% áhrif á VNV).

Tveir liðir lækka á milli mælinga, húsgögn og heimilisbúnaður lækkar í verði um 1,3% (-0,08% áhrif á VNV) þar sem raftæki skýra lækkunina að mestu leyti. Einnig lækkar póstur og sími um 1,1% (-0,02% áhrif á VNV) og hefur liðurinn nú lækkað fjóra mánuði í röð.

Verðbólguhorfur

 Þessar nýbirtu tölur eru ansi góðar fréttir. Verðbólgan er að hjaðna hraðar en við gerðum ráð fyrir og nú er ljóst að verðbólga á árinu var 8,7% að jafnaði. Við teljum að verðbólga haldi áfram að hjaðna á næstu mánuðum og það nokkuð hratt. Við höfum breytt spánni okkar um íbúðamarkaðinn fyrir næstu mánuði og teljum við að þessar miklu hækkanir á markaðinum sem einkenndu síðustu misseri séu á undanhaldi. Það breytir þó ekki bráðabirgðaspánni okkar að miklu leyti. Í bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs í janúar, 0,8% í febrúar og 0,5% í mars. Gangi það eftir mun verðbólga mælast 6,6% í mars. Eins og sést mun ársverðbólga hjaðna nokkuð hratt þrátt fyrir allnokkra áframhaldandi hækkun vísitölunnar. Ástæða þess er að stórir hækkunarmánuðir fyrri hluta árs detta útúr 12 mánaða mælingunni.

Langtímaspá okkar hljóðar upp á 5,8% verðbólgu að jafnaði 2024 og 3,7% árið 2025. Það helsta sem þarf að ganga upp til skemmri tíma til þess að spáin okkar gangi upp er að íbúðamarkaður verði rólegur næsta kastið og gengi krónu verði áfram stöðugra en var fram eftir síðasta hausti. Til lengri tíma er stærsti óvissuþátturinn að okkar mati kjarasamningar og hvernig spilast úr þeim í byrjun nýs árs.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband