Óvænt en tímabær lækkun stýrivaxta

Lækkun stýrivaxta úr 9,25% í 9,0% kom nokkuð á óvart í ljósi þess tóns sem sleginn var á ágústfundi peningastefnunefndar. Vaxtalækkunin er þó tímabær og gild rök fyrir henni. Þótt sleginn hafi verið varfærinn tónn um næstu skref teljum við að vaxtalækkunarferlið muni halda áfram á komandi fjórðungum.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar bankans að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 9,0%. Þetta er fyrsta vaxtalækkunarskref bankans frá nóvember 2020 en sem kunnugt er hækkaði bankinn stýrivexti úr 0,75% í 9,25% frá vordögum 2021 fram á haustið 2023.

Ákvörðunin er á skjön við birtar spár sem allar hljóðuðu upp á óbreytta vexti. Við spáðum því að þrátt fyrir óbreytta vexti yrði því gefið undir fótinn að vaxtalækkunarferlið væri í startholunum. Þegar við spáðum  óbreyttum vöxtum horfðum við ekki síst til þess hversu harður tónn var sleginn af nefndinni í ágúst, þar sem möguleikinn á vaxtalækkun var ekki ræddur yfir höfuð. Ákvörðunin er þó að okkar mati studd gildum rökum og tímabært að hefja lækkun vaxta.

Skiptar skoðanir höfðu hins vegar verið á markaði um hvort vextir yrðu lækkaðir eða þeim haldið óbreyttum og höfðu vaxtaferlar skuldabréfa síðustu daga endurspeglað talsverðar líkur á því að vextir yrðu lækkaðir að þessu sinni.

Tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar er almennt fremur varfærinn og bendir til þess að frekar verði farið hægt í sakirnar næsta kastið og raunvöxtum haldið fremur háum.

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

  • Verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mældist 5,4% í september.
  • Þótt ákveðnir einskiptisliðir vegi þungt hefur dregið úr umfangi og tíðni verðhækkana.
  • Undirliggjandi verðbólga hefur jafnframt minnkað og verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað.
  • Áfram virðist hægja á efnahagsumsvifum í takt við aukið peningalegt taumhald.
  • Vísbendingar eru um að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði og svartsýni heimila og fyrirtækja hefur aukist.
  • Þrálát verðbólga, verðbólguvæntingar yfir markmiði og mikil innlend eftirspurn kalla þó á varkárni.
  • Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er talsvert breytt frá ágúst, stutt og laggóð og hljóðar svo:

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Til samanburðar var framsýna leiðsögnin í ágúst þannig:

Peningastefnunefnd telur að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið en þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kalla á varkárni. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Skiptar skoðanir í peningastefnunefnd?

Á kynningarfundi Seðlabankans eftir vaxtaákvörðunina kom fram að þrátt fyrir allnokkurt vægi einskiptisliða í hjöðnun verðbólgu hefði einnig dregið úr umfangi og tíðni verðhækkana almennt.  Benti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á að ýmsir mælikvarðar aðrir en verðbólguþróunin bentu til minnkandi spennu. Vinnuaflseftirspurn væri til að mynda á leiðinni niður, nema þá helst í byggingargeiranum.

Spurningu um hæfilegt aðhaldsstig svöruðu stjórnendur bankans með því að nefndin væri ánægð með núverandi aðhaldsstig. Nægilegt aðhald væri til að ná verðbólgunni í  markmið innan ásættanlegs tíma.  Með 25 punkta lækkunarskrefi væri verið að fara af stað af varkárni í vaxtalækkunarferli og ef bakslag yrði í hjöðnun verðbólgu og/eða kólnun hagkerfisins myndi það ferli stöðvast. Þótt sú leið hefði einnig verið möguleg að bíða eftir ótvíræðari merkjum að þessu leytinu hefði nefndin talið farsælla að byrja með smáu skrefi. Undir það getum við tekið.

Nokkuð skiptar skoðanir virtust vera hjá stjórnendum bankans á því hversu mikið hefði breyst á milli funda. Taldi Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, aðspurð að ekki hefði endilega mikið breyst frá því allharður tónn var sleginn við ágústákvörðun peningastefnunefndar. Ásgeir var því ósammála og taldi talsverðar breytingar hafa orðið á tímabilinu. Þá kom fram í máli þeirra Ásgeirs og Rannveigar að nefndarmenn horfðu með mismunandi hætti á hina ýmsu áhrifaþætti og gæfu þeim mismikið vægi við ákvörðun nefndarinnar.

Við teljum okkur greina af þessu að skoðanir hafi verið skiptar innan peningastefnunefndar um ákvörðunina að þessu sinni. Kæmi okkur ekki á óvart að það myndi koma á daginn að einhverjir nefndarmanna hafi lagst gegn lækkun vaxta að þessu sinni, en það skýrist þegar fundargerð vaxtaákvörðunarfundanna nú verður birt að tveimur vikum liðnum.

Hvert stefna stýrivextirnir?

Í sem stystu máli er okkar mat á tíðindum dagsins og horfum: Vaxtalækkunarferli er hafið en peningastefnunefndin mun vilja stýra lækkunartaktinum næsta kastið með þeim hætti að raunvextir lækki ekki verulega. Það er því útlit fyrir að stýrivextir verði lækkaðir aftur í nóvember en það mun að okkar mati ráðast af verðbólgu- og efnahagsþróun hvort aftur verður stigið 0,25 prósentuskref eða stærra skref tekið.

Gangi nýlega birt þjóðhagsspá okkar eftir hvað varðar efnahags- og verðbólguþróun mun svo að öllum líkindum bæta í vaxtalækkunartaktinn þegar lengra líður fram á næsta ár. Gætu stýrivextir verið komnir í 7,5% í árslok 2025 og í 5,5% á seinni helmingi ársins 2026.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband
Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur


Hafa samband