Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Olíuverð hefur hækkað um helming á ársfjórðungi

Olíuverð á heimsmarkaði hefur hækkað um hér um bil helming frá októberlokum. Verðið er nú svipað og það var áður en Kórónukreppan skall á en þó enn fremur hóflegt í samanburði við meðalverð síðasta áratugar. Hækkunin hefur þegar haft áhrif á innlent verðlag og mun líklega gera eitthvað áfram.


Hráolíuverð hefur lækkað lítillega undanfarna tvo daga eftir linnulitla hækkun allt frá lokum októbermánaðar. Tunnan af Brent hráolíu kostar þegar þetta er ritað 60,4 Bandaríkjadollara en fór hæst í 61,5 dollara síðastliðinn miðvikudag. Hafði verðið þá ekki verið hærra síðan í janúarmánuði 2020.

Eins og sjá má af myndinni var hráolíuverð tiltöluleg stöðugt frá júníbyrjun fram til októberloka í fyrra og sveiflaðist nokkurn veginn innan bilsins 40-45 dollarar á tunnu. Fyrr á árinu hafði verðið hrunið eftir því sem Kórónukreppan gróf um sig en hækkað talsvert á nýjan leik þegar fyrsta bylgja faraldursins lét undan síga.

Brent-olíuverðið er nú ríflega 40% hærra en það var að jafnaði á fyrrnefndu stöðugleikatímabili en rúmlega 50% hærra en í októberlok. Hækkunarhrinan var framan af drifin að miklu leyti af fréttum af góðum gangi í þróun bóluefna gegn COVID-19 og bættum horfum um efnahagsbata í framhaldinu. Hins vegar hefur hún í stórum dráttum haldið áfram þrátt fyrir ris Kórónuveirufaraldursins á heimsvísu undir lok síðasta árs og bakslag í framleiðslu og útbreiðslu bóluefna í Evrópu.

Undanfarnar vikur hefur áframhaldandi hækkun olíuverðs meðal annars verið drifin af væntingum um að þrátt fyrir tímabundin ljón á veginum sé heimshagkerfið þrátt fyrir allt að fara að taka myndarlega við sér á komandi fjórðungum með tilheyrandi aukningu á eftirspurn eftir olíu og tengdum afurðum. Þá er þess getið í nýlegri frétt BBC um málið að spurn eftir olíu og afurðum hennar hafi aukist í geirum tengdum aukinni heimaveru, til dæmis til að knýja vöruflutninga vegna stóraukinna heimsendinga og framleiða plastpakkningar fyrir netverslanir.

Auk heldur hafa olíuframleiðsluríki haldið aftur af framleiðslu olíu í því skyni að þoka verði upp á við. Er talið að frá apríl síðastliðnum hafi skerðing framleiðslu samtals numið 2,1 milljarði tunna.

Hækkun olíu- og bensínverðs á heimsmarkaði er þegar farið að hafa áhrif hér á landi. Frá nóvember hefur undirvísitala eldsneytis í vísitölu neysluverðs (VNV) hækkað um 6,5% miðað við áætlun okkar fyrir febrúargildi VNV. Hér kemur raunar inn árviss hækkun á krónutölugjöldum hins opinbera á eldsneyti um áramót og hækkunin að því slepptu er því væntanlega rétt innan við 5%. Einnig er rétt að halda því til haga að gengi Bandaríkjadollars er nú u.þ.b. 5% hærra gagnvart krónu en það var í ársbyrjun 2020. Líklegt er að eldsneytisverð á dælu hérlendis hækki enn frekar á næstu vikum ef framangreind hækkun á heimsmarkaði er komin til að vera.

Þá hefur hækkun eldsneytisverðs víðar áhrif á neysluverð hérlendis. Fargjöld ýmiskonar sveiflast talsvert með eldsneytisverði og þá hefur það einnig á endanum áhrif á almennan flutningskostnað á vörum bæði til og frá landinu sem og innanlands. Hér er þó rétt að halda því til haga að þrátt fyrir allt er olíuverð á heimsvísu enn u.þ.b. fjórðungi lægra en það var að jafnaði áratuginn fyrir Kórónukreppuna. Fari eldsneytisverðið ekki á þeim mun meira viðbótarflug á komandi mánuðum verður því beinn og óbeinn eldsneytiskostnaður heimilum landsins áfram talsvert léttbærari að jafnaði en hann hefur verið undanfarinn áratug.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband