Auk heldur hafa olíuframleiðsluríki haldið aftur af framleiðslu olíu í því skyni að þoka verði upp á við. Er talið að frá apríl síðastliðnum hafi skerðing framleiðslu samtals numið 2,1 milljarði tunna.
Hækkun olíu- og bensínverðs á heimsmarkaði er þegar farið að hafa áhrif hér á landi. Frá nóvember hefur undirvísitala eldsneytis í vísitölu neysluverðs (VNV) hækkað um 6,5% miðað við áætlun okkar fyrir febrúargildi VNV. Hér kemur raunar inn árviss hækkun á krónutölugjöldum hins opinbera á eldsneyti um áramót og hækkunin að því slepptu er því væntanlega rétt innan við 5%. Einnig er rétt að halda því til haga að gengi Bandaríkjadollars er nú u.þ.b. 5% hærra gagnvart krónu en það var í ársbyrjun 2020. Líklegt er að eldsneytisverð á dælu hérlendis hækki enn frekar á næstu vikum ef framangreind hækkun á heimsmarkaði er komin til að vera.
Þá hefur hækkun eldsneytisverðs víðar áhrif á neysluverð hérlendis. Fargjöld ýmiskonar sveiflast talsvert með eldsneytisverði og þá hefur það einnig á endanum áhrif á almennan flutningskostnað á vörum bæði til og frá landinu sem og innanlands. Hér er þó rétt að halda því til haga að þrátt fyrir allt er olíuverð á heimsvísu enn u.þ.b. fjórðungi lægra en það var að jafnaði áratuginn fyrir Kórónukreppuna. Fari eldsneytisverðið ekki á þeim mun meira viðbótarflug á komandi mánuðum verður því beinn og óbeinn eldsneytiskostnaður heimilum landsins áfram talsvert léttbærari að jafnaði en hann hefur verið undanfarinn áratug.