Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óbreyttir stýrivextir...í bili?

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni halda stýrivöxtum óbreyttum við næstu vaxtaákvörðun bankans þann 2. október næstkomandi. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða samkvæmt því áfram 3,50% næsta kastið. Vaxtalækkunarferli bankans er þó ekki lokið að mati okkar og eigum við von á að minnsta kosti einu lækkunarskrefi fyrir árslok.


Við ákvörðun peningastefnunefndar nú munu væntanlega takast á sjónarmið um að annars vegar staldra við og fylgjast með þróun verðbólgu, útkomu kjarasamninga við opinbera starfsmenn og því hvernig haustið fer í ferðaþjónustuna, og hins vegar þrýsta raunstýrivöxtum enn frekar niður til að liðka fyrir fjárfestingu og bæta rekstrarskilyrði þeirra fyrirtækja sem eiga undir högg að sækja þessa dagana.

Við gerum ráð fyrir að fyrrnefndu rökin vegi þyngra að þessu sinni en útilokum þó ekki vaxtalækkun. Í ágúst voru nefndarmenn á því að mikilvægt væri að stíga varlega til jarðar í vaxtalækkunarferlinu um þessar mundir þar sem ákveðnar blikur væru á lofti um innlendan verðbólguþrýsting á næstunni. Hins vegar voru allir nefndarmenn sammála um vaxtalækkun í ágúst og var önnur niðurstaða raunar ekki rædd að ráði ef marka má fundargerð síðasta vaxtaákvörðunarfundar. Framsýna leiðsögnin við vaxtaákvörðunina í ágúst var hins vegar hlutlaus og hljóðaði svo:

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

Ekki hefur orðið afgerandi breyting á þessu samspili á þeim vikum sem liðnar eru frá vaxtaákvörðuninni í ágúst að mati okkar.

Hagkerfið er að kólna

Endurskoðaðar tölur Hagstofunnar fyrir fyrri helming ársins 2019 komu mörgum á óvart enda mældist 0,9% hagvöxtur á tímabilinu. Tölurnar bera þó nokkuð skýrt með sér að hagkerfið er að kólna. Þjóðarútgjöld skruppu til að mynda saman um 2,4% á sama tíma en óvenju hagstætt framlag utanríkisviðskipta vó á móti.

Góðu heilli virðist sumarið þó  hafa verið ferðaþjónustunni léttbærara en margir óttuðust fyrr á árinu. Þótt ferðamönnum hafi fækkað um ríflega 17% ef tímabilið frá falli WOW-air (apríl-ágúst) er borið saman við sama tíma í fyrra virðist hver og einn þeirra að jafnaði hafa talsvert dýpri vasa en áður. Meðaldvalartími hefur lengst og kortavelta á hvern ferðamann hefur aukist umtalsvert í krónum talið. Hefur veiking krónu í fyrra trúlega hjálpað þar talsvert til ásamt því að breyttar áherslur Icelandair og vísbendingar um að WOW-farþegar hafi að jafnaði verið aðhaldssamari í Íslandsheimsóknum sínum en aðrir farþegar eiga væntanlega hlut að máli. Óvissa er þó um hvernig ferðaþjónustunni vegnar í vetur og ekki er á vísan að róa um það hvort og hvenær farþegum fjölgar á nýjan leik.

Samkvæmt nýbirtri þjóðhagsspá okkar er útlit fyrir 0,1% samdrátt VLF á árinu 2019 í heild. Raunar er nær lagi að segja að hagvöxtur verði við núllið þar framangreind tala er talsvert innan skekkjumarka frá núlli. Snarpur samdráttur í fjármunamyndun atvinnuvega og þjónustuútflutningi vegst þar á við vöxt neyslu fjárfestingarvöxt að atvinnulífinu undanskildu, og mikinn samdrátt innflutnings.

Á næsta ári gerum við ráð fyrir fremur hægum vexti, eða 1,3%, drifnum af hóflegum vexti innlendrar eftirspurnar. Meiri kraftur færist svo í vöxtinn árið 2021 að mati okkar en þá spáum við 2,8% vexti eftir því sem meiri þróttur færist í einkaneyslu og útflutning á nýjan leik.

Verðbólguvæntingar hóflegar

Það hefur vakið athygli okkar hvað gengisfall krónu í fyrra hafði á endanum mild áhrif á verðbólgu. Um síðustu áramót mældist verðbólga 3,7% og hafði ekki mælst hærri í fimm ár. Það sem af er þessu ári hefur verðbólga verið 3,1% að meðaltali. Í ágúst mældist verðbólgan 3,2%.

Verðbólguvæntingar hafa hjaðnað samfara batnandi verðbólguhorfum undanfarna fjórðunga og svipaða sögu má segja af verðbólguálagi á markaði. Þessi þróun er væntanlega til marks um aukna trú á því að verðbólga muni halda áfram að sjatna og verða skapleg á komandi misserum.

Lægri stýrivextir í farvatninu

Það sem af er árinu 2019 hafa stýrivextir Seðlabankans verið lækkaðir um 1 prósentu vegna lakari efnahagshorfa, batnandi verðbólguhorfa og hjaðnandi verðbólguvæntinga. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga innlánum, eru nú 3,5%. Hafa stýrivextir ekki verið lægri frá því verðbólgumarkmið var tekið upp á vordögum árið 2001.

Þótt ákveðið verði að halda vöxtum óbreyttum í október er ekki þar með sagt að vaxtalækkunarferlinu sé lokið. Gangi nýjasta verðbólguspá okkar eftir mun verðbólga hjaðna allhratt á komandi mánuðum og nema 2,4% í árslok. Sú þróun, ásamt skýrari merkjum um kólnun á vinnumarkaði og í efnahagslífinu í heild mun væntanlega ríða baggamuninn um að vextir verði lækkaðir að minnsta kosti einu sinni fyrir áramót.  Í kjölfarið spáum við að stýrivöxtum verði haldið í 3,25% út árið 2020 en taki að hækka að nýju á árinu 2021 samfara batnandi efnahagshorfum. Óvissan í þessari spá er fremur í þá átt að vextir gætu lækkað meira til skemmri tíma litið og haldist lægri út næsta ár, sér í lagi ef efnahagsmál þróast með lakari hætti en við gerum ráð fyrir.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband