Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ný öryggisvirkni í appi Íslandsbanka

Nú geta notendur með einni aðgerð lokað aðgangi að appi Íslandsbanka í öllum tækjum þar sem það hefur verið sett upp.


Um er að ræða öryggisaðgerð vakni grunur um að einhver óboðinn, eða óprúttinn, hafi komist yfir aðgang notandans að appinu.

Um er að ræða nýja virkni sem þegar hefur verið tekin hefur verið í notkun. Á ensku er virkni eins og þessi stundum nefnd „kill switch“ og gæti nefnst „öryggisrofi“ á íslensku.

Viðbótin er skref til að auka öryggi viðskiptavina í rafrænum þjónustuleiðum bankans. Leiki grunur um innskráningu einhvers annars en aðgang á að hafa að appinu er notendum með virkninni hjálpað að bregðast fljótt við.

Til þess að loka fyrir aðgang er appið opnað og farið í valmyndina „Meira“ og svo „Stillingar“, en þar er valið „Skrá út af öllum tækjum“. Útskráningin er svo staðfest.

Með þessu er aðgangi að appinu lokað á öllum tækjum þar sem það hefur verið sett upp. Til að opna appið aftur þarf fulla innskráningu í hverju tæki, þar sem stuðst er við rafræn skilríki, auðkennis app eða notandanafn og lykilorð.