Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Neytendur bjartsýnni með hækkandi sól

Væntingavísitalan hefur ekki mælst hærri en nú í 5 mánuði og má segja að neytendur séu að verða bjartsýnni með hækkandi sól.


Væntingar íslenskra neytenda til efnahags- og atvinnulífsins hækkuðu um 13,6 stig milli mánaða samkvæmt nýlega birtri væntingavísitölu Gallup (VVG). Vísitalan mælist nú 93,7 stig og er enn undir 100 stiga jafnvægisgildinu sem markar jafnvægið milli bjartsýni og svartsýni hjá íslenskum neytendum. Væntingavísitalan lækkaði nær samfellt allt síðasta ár og hefur verið undir 100 stiga jafnvægisgildinu frá því í ágúst 2018. Væntingavísitalan hefur ekki mælst hærri en nú í 5 mánuði og má segja að neytendur séu að verða bjartsýnni með hækkandi sól

Allar undirvísitölur hækka

Allar undirvísitölur VVG hækka á milli mánaða. Mat á núverandi ástandi er eina undirvísitalan yfir 100 stiga jafnvægisgildinu og mælist 132,6 stig (9,8 stig). Mat á efnahagslífinu hækkaði mest á milli mánaða (16,1) en mælist þó lægst, í 67,7 stigum. Eins hækka vísitölurnar sem eiga að endurspegla mat á efnahagslífinu (11,0) og mat neytenda á atvinnuástandi (4,6). Sú fyrrnefnda mældist 84,1 stig og sú síðarnefnda 89,9 stig. Þrátt fyrir að væntingar á mati neytenda á atvinnuástandi sé eina undirvísitalan yfir jafnvægisgildinu hefur vísitalan ekki mælst lægri í fimm ár að nóvember og desember utanskildum.

Væntingavísitalan styður hægari vöxt einkaneyslu

Hægt hefur á vexti einkaneyslu frá því hún náði hæstu hæðum í júlí 2017 og í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir enn hægari einkaneysluvexti á næstu misserum. Á þriðja ársfjórðungi 2018 jókst einkaneysla um 5,3% sem var meiri vöxtur en þróun helstu hagvísa benti til. Einn af þessum hagvísum er væntingavísitalan, en hún getur verið góður mælikvarði á einkaneyslu landans. Þrátt fyrir hækkun á VVG í janúar er vísitalan enn í lágum gildum og má því ætla að þróun væntingavísitölunnar og annarra hagvísa muni endurspeglast í hægari vexti einkaneyslu á lokafjórðungi ársins 2018 sem og komandi mánuðum.

Menntun eykur bjartsýnina

Væntingar neytenda eftir menntun eru breytilegar. Neytendur með mestu menntunina, háskólapróf, eru bjartsýnastir og er eini hópurinn yfir 100 stiga jafnvægisgildinu að þessu sinni. Hópurinn mældist í janúar með 101,1 stig (6,9 stig). Hóparnir með minnstu menntunina, grunnskólapróf (20,9) og grunnskólapróf ásamt viðbótargráðu (25,6), hækka mest á milli mánaða. Fyrrnefndi hópurinn stendur í 68,3 stigum og sá síðarnefndi í 94,9 stigum. Neytendur með framhaldsskólamenntun mælast svo með 93,3 stig. Það lítur út því fyrir að þeir sem eru með meiri menntun séu umtalsvert bjartsýnni en neytendur með minni menntun, hvað sem veldur.