Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Myndarlegt ferðaþjónustusumar að baki

Háönn ferðaþjónustunnar hefur verið heldur myndarlegri í ár en við væntum. Horfur eru á að 2,2 milljónir ferðamanna sæki Ísland heim á yfirstandandi ári. Útlit er fyrir að þjónustuútflutningur vaxi áfram margfalt hraðar en vöruútflutningur og taki forystu á ný í öflun gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið.


282 þúsund erlendir farþegar fóru frá landinu um Keflavíkurflugvöll í nýliðnum ágústmánuði samkvæmt nýlega birtum tölum Ferðamálastofu. Hafa slíkar brottfarir aðeins tvisvar verið fleiri í ágúst, þ.e. árin 2017 og 2018. Eins og fyrri daginn voru Bandaríkjamenn fjölmennastir í þessum hópi en um 85 þúsund (30% af heildarfjölda) erlendra farþega um flugvöllinn voru af bandarísku bergi brotnir. Þar á eftir komu Þjóðverjar (7,4% af heild), þá Ítalir (6,5%) og Frakkar voru í fjórða sætinu (5,9%). Geta þá þess að undanfarin ár hafa komur Ítala til landsins ávallt verið langflestar í ágústmánuði. Varð engin undantekning þar á þetta árið enda komu álíka margir Ítalir hingað í ágúst og í maí – júlí samanlagt.

Erlendir ferðamenn hingað til lands með flugi voru tæplega 1,7 milljónir á árinu 2022 ef miðað er við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll. Við það bætist nokkur fjöldi farþega um Akureyrarflugvöll að ógleymdum erlendum ferðamönnum sem sóttu landið heim með ferjunni Norrænu sem og með skemmtiferðaskipum. Hefur ferðafólk hér á landi ekki verið fleira frá árinu 2019.

Við spáðum því í maí síðastliðnum að ríflega 2,1 milljón ferðamanna myndi sækja landið heim um Keflavíkurflugvöll á þessu ári, álíka margir og sóttu landið heim árið 2017. Það sem af er ári hefur fjöldi ferðamanna hér á landi verið í allgóðu samræmi við spá okkar en háönnin hefur þó verið heldur myndarlegri en við áætluðum í maí. Efnahagsmótbyr og verðbólguskot í Bretlandi og á meginlandi Evrópu virðist engin teljandi áhrif hafa á ferðamannastraum hingað til lands.

Ríflega þriðjungs fjölgun ferðamanna milli ára

Alls kom 1,5 milljón erlendra farþega til landsins um Keflavíkurflugvöll á fyrstu 8 mánuðum ársins. Jafngildir það ríflega 36% fjölgun frá sama tímabili í fyrra. Haldi fram sem horfir verður fjöldi erlendra farþega sem sækja Ísland heim um flugvöllinn rétt í kring um 2,2 milljónir þetta árið. 2023 verður þar með álíka stórt og árið 2017 á þennan kvarða. Metárið 2018 komu hins vegar ríflega 2,3 milljónir ferðafólks til landsins um Keflavíkurflugvöll.

Það met mun þó líklega falla á næsta ári. Árið 2024 gerum við ráð fyrir rúmum 2,3 milljónum ferðafólks um Keflavíkurflugvöll og tæplega 2,5 milljónum árið 2025. Við það bætast svo þeir farþegar sem sækja landið heim með öðrum hætti. Næstu tvö ár verða því metár í ferðaþjónustu gangi spá okkar eftir. Hafa ber í huga að spá þessi miðast við brottfarir um Keflavíkurflugvöll en við þá tölu bætast m.a. farþegar með Norrænu og með skemmtiferðaskipum. Hægari fjölgun ferðamanna þegar frá líður í spá okkar skýrist meðal annars af skorðum í framboði á gistingu og öðrum tilheyrandi innviðum auk þess sem hækkandi raungengi gæti með tímanum dregið úr ferðavilja sumra hingað til lands.

Þjónustuútflutningur á leið í toppsætið á ný

Með endurreisn ferðaþjónustunnar eftir faraldur hafa útflutningstekjur greinarinnar á ný orðið álíka miklar og þegar mest lét fyrir Covid-19. Frá 3. fjórðungi síðasta árs til 2. fjórðungs á þessu ári námu útflutningstekjur af ferðafólki alls 544 ma.kr. og jafngildir það 29% af öllum útflutningstekjum á tímabilinu. Til samanburðar voru tekjur af útflutningi sjávarafurða 354 ma.kr. (19% af heild) og álútflutningur skilaði 379 ma.kr. (20% af heild) brúttó í gjaldeyristekjum. Þar ber að halda til haga að bæði í ferðaþjónustu og sjávarútvegi er innlendur virðisauki talsvert hærra hlutfall af útflutningstekjum en í orkufrekum iðnaði þar sem innflutt aðföng eru tiltölulega þung í síðastnefndu greininni auk þess sem hagnaður (eða eftir atvikum tap) fellur í hlut erlendra eigenda.

Miðað við fram komnar tölur um ferðamannafjölda á 3. fjórðungi og vísbendingar um umsvif í ferðaþjónustunni á næstu mánuðum má telja líklegt að heildar útflutningstekjur greinarinnar verði í grennd við 600 ma.kr. á yfirstandandi ári. Til samanburðar voru slíkar tekjur 520 ma.kr. metárið 2018 en vitaskuld hefur verðlag hækkað allnokkuð síðan.

Þá hefur annar þjónustuútflutningur verið í jöfnum og þéttum vexti undanfarin ár. Á síðustu fjórum ársfjórðungum voru útflutningstekjur af slíkri starfsemi 324 ma.kr. sem samsvarar 17% af heildar útflutningstekjum þjóðarbúsins á tímabilinu. Heildartekjur af þjónustuútflutningi voru því 47% af öllum útflutningstekjum á þessum tíma. Þetta hlutfall fór hins vegar hæst í 56% árið 2017 en minnkaði síðan vitaskuld verulega meðan faraldurinn stóð sem hæst.

Miðað við horfur um talsvert hraðari vöxt á útflutningi þjónustu en vöruútflutningi á komandi misserum er líklegt að þjónustuútflutningur mun hafa vinninginn að nýju innan tíðar. Þar má nefna að í maíspá okkar gerðum við ráð fyrir að þjónustuútflutningur myndi vaxa alls um 36% að magni til á árunum 2023-2025 á meðan vöxtur í vöruútflutningi myndi nema tæpum 5% alls á sama tímabili. Þjónustan tekur því líklega aftur við af útflutningsframleiðslu á vörum sem stærsti stofn útflutningstekna í Íslensku hagkerfi um miðjan áratuginn.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband