Stýrivextir Seðlabankans lækka um 0,5 prósentur eftir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem kynnt var í morgun. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 8,0% og hafa vextirnir ekki verið lægri frá maí 2023.
Myndarleg vaxtalækkun en varfærinn tónn
Lækkun stýrivaxta um 0,5 prósentur var í samræmi við almennar væntingar. Hægari eftirspurnarvöxtur, hjaðnandi verðbólga og jákvæð þróun verðbólguvæntinga voru meðal helstu raka fyrir vaxtalækkuninni en þó sló peningastefnunefndin varfærinn tón um framhaldið. Útlit er fyrir að minni skref verði tekin við næstu vaxtaákvarðanir en spá okkar um 6,5% stýrivexti í lok árs stendur þó óhögguð.
Ákvörðunin var í samræmi við flestar birtar spár, þar á meðal okkar spá. Flestir markaðsaðilar í könnunum Viðskiptablaðsins, Innherja og Seðlabankans höfðu einnig gert ráð fyrir 0,5 prósenta vaxtalækkun. Tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar er þó fremur varfærinn og vill nefndin greinilega áfram hafa vaðið fyrir neðan sig hvað varðar lækkun á raunvaxtastiginu.
Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:
- Það nýmæli er í yfirlýsingunni nú að tekið er fram að allir nefndarmenn hafi stutt þessa ákvörðun. Þetta hefur ekki verið gert fyrr en á kynningarfundi tóku stjórnendur bankans fram að þessi breyting væri komin til að vera og væri til þess fallin að auka gegnsæi peningastefnunnar.
- Verðbólga hefur haldið áfram að hjaðna og var 4,6% í janúar. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað og hefur ekki verið minni í þrjú ár.
- Útlit er fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum.
- Hægt hefur á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og spennan í þjóðarbúinu er í rénun.
- Dregið hefur úr umsvifum á húsnæðismarkaði og hægt á hækkun húsnæðisverðs.
- Vísbendingar eru þó um að krafturinn í þjóðarbúinu sé meiri en bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga gefa til kynna og áfram mælist nokkur hækkun launakostnaðar.
Stigvaxandi hagvöxtur og hjaðnandi verðbólga
Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina var farið yfir nýbirt Peningamál þar sem hagspá Seðlabankans er sett fram að vanda. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir stigvaxandi hagvexti á næstu þremur árum eða svo. Þó telur Seðlabankinn vöxtinn verða heldur hægari í ár (1,6%) en í síðustu spá. Á móti er svo spáð öllu meiri hagvexti á næsta ári (2,6% í stað 2,3%) sem og á árinu 2027 (3,0% í stað 2,7%). Hagvaxtarspá bankans er keimlík nýlega birtri hagspá okkar. Helst sýnist okkur munurinn liggja í sterkari áhrifum af uppbyggingu í gagnaverageiranum á takt fjárfestingar, innflutnings og viðskiptajafnaðar í ár. Þá áætlar Seðlabankinn að lítilsháttar framleiðsluslaki verði til staðar í hagkerfinu í ár en í kjölfarið leiti umsvifin í hagkerfinu á ný í jafnvægi við framleiðslugetuna.
Seðlabankinn gerir ráð fyrir talsvert meiri viðskiptahalla en við á yfirstandandi ári en batnandi viðskiptajöfnuði eftir það. Fram kom á kynningarfundinum að framangreind gagnaverafjárfesting væri á vegum erlendra aðila og fjármögnuð af þeim. Því myndi takmarkað gjaldeyrisflæði fylgja þeim umsvifum og því minni ástæða en ella til þess að ætla að viðskiptahallinn í ár myndi valda veikingarþrýstingi á krónu.
Ný verðbólguspá er lítið eitt svartsýnni en síðasta spá bankans sem birtist í nóvember. Hún er hins vegar áþekk okkar nýjustu spá hvað varðar komandi ársfjórðunga. Seðlabankinn gerir þannig ráð fyrir að verðbólga verði komin niður í 3,4% á síðasta fjórðungi þessa árs. 2,5% verðbólgumarkmiðið næst svo á seinni helmingi næsta árs í spá Seðlabankans á meðan við eigum von á að verðbólga verði þrálát rétt yfir markmiðinu næstu árin. Stjórnendur bankans tóku hins vegar fram á kynningarfundinum að mögulega gæti orðið meiri tregða við að ná verðbólgu síðasta spölinn í markmið á komandi misserum en spá Seðlabankans gerði ráð fyrir.
Töluverð umræða skapaðist á kynningarfundinum um hina ýmsu óvissuþætti sem breytt geta horfunum á komandi misserum:
- Opinber fjármál: Stjórnendur bankans nefndu aðspurðir að þróun opinberra fjármála myndi skipta verulegu máli fyrir þróun næstu missera. Þar horfðu þau ekki síst til væntanlegrar fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem væntanleg er síðla vetrar. Áhersla á efnahagsstöðugleika og innleiðing á útgjaldareglu fyrir ríkissjóð væru jákvæð teikn.
- Tollastríð: Líkt og við höfðu stjórnendur bankans talsverðar áhyggjur af mögulegum neikvæðum áhrifum af tollastríði sem magnast gæti á komandi mánuðum. Þau bentu á að miklar skorður við alþjóðaviðskiptum í formi tolla eða viðskiptahindrana hefðu sýnt sig að hafa neikvæð áhrif á bæði verðbólgu og efnahagsþróun.
- Kjaradeila kennara við hið opinbera: Stjórnendur bankans ítrekuðu að kjarasamningar á meginhluta almenna vinnumarkaðarins í fyrra hefðu verið jákvætt skref í átt að stöðugra verðlagi. Talsvert væri því í húfi að ekki yrði beygt af þeirri vegferð í lausn á þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir. Í spánni væri gert ráð fyrir því að kjarasamningar myndu halda á spátímanum þótt stjórnendurnir hefðu ekki sérstaka skoðun á kjaradeilunni sem slíkri.
Horfur á frekari stýrivaxtalækkun í ár
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er nokkuð breytt frá nóvember og hljóðar svo:
Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað er enn verðbólguþrýstingur til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist aukin óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Til samanburðar var framsýna leiðsögnin í nóvember svohljóðandi:
Þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar yfir markmiði kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Við túlkum leiðsögnina þannig að peningastefnunefndin vilji halda raunstýrivöxtum í grennd við núverandi gildi og að vaxtalækkun á næstu vaxtaákvörðunarfundum (í mars og maí) ráðist ekki síst af því hvort verðbólga/verðbólguvæntingar hjaðni á komandi mánuðum. Í því samhengi nefndu stjórnendur bankans á kynningarfundinum að raunhagkerfið væri enn sterkt og fátt benti þess vegna til þess að það lægi mikið á að lækka raunstýrivextina. Það gæti að okkar mati þýtt vaxtalækkun upp á 25 punkta bæði í mars og aftur í maí miðað við nýlega birtar spár okkar um verðbólgu og hagþróun á komandi fjórðungum.
Spá okkar, sem birtist í þjóðhagsspá fyrir viku síðan hljóðar upp á 6,5% stýrivexti í árslok og vexti á bilinu 5,0 – 5,5% frá og með miðju næsta ári.