Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Mun atvinnuleysi hjaðna enn frekar á árinu?

Atvinnuleysi mældist rétt undir 4% í febrúar og stendur í stað á milli mánaða. Alla jafna er atvinnuleysi meira yfir vetrarmánuðina og minnkar þegar líða tekur nær sumri. Við spáum því að atvinnuleysi muni hjaðna þegar nær dregur sumri og að erlendu starfsfólki, sem nú er fimmtungur vinnumarkaðarins, muni halda áfram að fjölga.


Samkvæmt nýlegum tölum Vinnumálastofnunar mældist skráð atvinnuleysi 3,7% í febrúar og var óbreytt frá mánuðinum á undan. Atvinnuleysi mælist yfirleitt meira yfir vetrarmánuðina og þá sérstaklega í janúar og febrúar, en hjaðnar svo alla jafna þegar líða tekur nær sumri.

Á flestum stöðum á landsbyggðinni minnkaði atvinnuleysi á milli mánaða. Mest mælist það á Suðurnesjum en þar dróst það þó saman úr 6,0% í 5,8% í febrúar. Næst mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu. Þar mælist það 3,8% og stóð í stað á milli mánaða. Atvinnuleysi hefur hjaðnað nokkuð hratt frá því það mældist hvað hæst í 11,6% í byrjun árs 2021. Fyrir ári síðan var það 5,2% en þá mældist það ríflega 9% á Suðurnesjum og yfir 5% á höfuðborgarsvæðinu.

Störfum fjölgar og mannfjöldinn eykst

Vinnumarkaðurinn hefur jafnað sig merkilega fljótt eftir faraldurinn og eru störf nú orðin fleiri en fyrir faraldur. Fjöldi starfa árið 2022 voru tæplega 230 þúsund að jafnaði en til samanburðar voru þau 220 þúsund árið 2019. Störfum hér á landi hefur fjölgað í takti við mannfjölda, en samkvæmt nýlegum tölum frá Hagstofu Íslands fjölgaði íbúum landsins um 11.500 á síðastliðnu ári. Þann 1. janúar 2023 voru Íslendingar tæplega 388 þúsund og fjölgaði um 3% frá árinu á undan. Þetta er mesta fjölgun á einu ári frá 1732 eða svo langt aftur sem gögn Hagstofunnar ná.

Þegar rýnt er nánar í gögnin skýrist þessi fjölgun að stærstum hluta af aðfluttum erlendum ríkisborgurum hingað til lands sem passar vel við gögn um erlenda ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði. Á lokafjórðungi síðasta árs var erlent starfsfólk hér á landi ríflega 46 þúsund eða um 22% allra á vinnumarkaði. Þetta hlutfall hefur aldrei mælst hærra og má ætla að hlutfallið haldi áfram að hækka á næstunni ef marka má þörf fyrir starfsfólk í mörgum af okkar helstu atvinnugreinum. Það er nefnilega útlit fyrir talsverðan vöxt í greinum á borð við byggingarstarfsemi, en þar virðist skortur á starfsfólki vera einna mestur. Samkvæmt Hagstofunni eru laus störf í greininni nær 1.500 talsins og hlutfall lausra starfa um 8%.

Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins virðast vera á sama máli um mikla þörf á starfsfólki til vinnu. Samkvæmt könnun Gallup frá því í desember meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telja 53% fyrirtækja skort vera á starfsfólki. Þetta er hátt hlutfall sögulega séð þótt það hafi heldur lækkað frá síðasta hausti. Mestur er skorturinn í byggingargeiranum en um 78% stjórnenda slíkra fyrirtækja töldu skort vera á starfsfólki. Næst mestur mælist skortur á starfsfólki hjá fyrirtækjunum í verslunargeiranum um 63%. Skortur í ferðaþjónustu sveiflast meira til og mældist 29% í desember, en ætla má að það hlutfall hækki aftur þegar háannatími ferðaþjónustunnar færist nær. Þannig er útlit fyrir talsverða frekari fjölgun starfa á næstu misserum sem verða líklega að stórum hluta mönnuð af erlendu starfsfólki.

Atvinnuleysi mun hjaðna meira

Í þjóðhagsspá okkar sem kom út í byrjun febrúar spáum við því að atvinnuleysi í ár verði á svipuðum slóðum og það var á lokafjórðungi síðasta árs, í kringum 3,3% að meðaltali. Við gerum því ráð fyrir að það muni hjaðna aðeins frá þeim mánaðargildum sem nú mælast þegar líða tekur á árið. Á næsta ári mun atvinnuleysi svo aukast lítillega samhliða minni spennu á vinnumarkaði. Við spáum því að atvinnuleysi verði 3,7% að jafnaði árið 2024 og 3,8% árið 2025.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband