Nýhafið ár byrjar þokkalega hvað utanríkisviðskipti varðar. Til að mynda var vöruskiptahalli í janúar aðeins 7,6 ma.kr. samkvæmt nýlega birtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Svo lítill hefur hallinn ekki verið í 3 ár en til samanburðar var hallinn 19,7 ma.kr. í sama mánuði fyrir ári. Óvenju myndarlegur álútflutningur, aukinn útflutningur á eldislaxi milli ára og lítill innflutningur á eldsneyti og neysluvörum var þar meðal áhrifaþátta. Eins og myndin sýnir eru umtalsverðar sveiflur í vöruskiptunum á milli mánaða og því ekki hægt að draga miklar ályktanir um framhaldið af janúartölunum.
Minni vöruskiptahalli en færri ferðamenn í ársbyrjun
Nýhafið ár byrjar vel hvað vöruskipti varðar en upphafið er heldur lakara í ferðaþjónustu. Útlit er fyrir að útflutningur vaxi hraðar en innflutningur á þessu ári. Viðskiptahalli verður trúlega minni í ár en í fyrra og á komandi árum eru horfur á þokkalegu jafnvægi í utanríkisviðskiptum.
Ársbyrjunin er hinsvegar heldur lakari hvað ferðaþjónustu varðar. Samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálstofu fóru tæplega 121 þúsund ferðamenn af landi brott um Keflavíkurflugvöll í janúarmánuði. Eru það álíka margir ferðamenn og í sama mánuði 2023 en hins vegar nærri 6% færri ferðamenn en á sama tíma í fyrra.
Sem fyrr eru Bandaríkjamenn fjölmennastir meðal ferðafólks, tæp 27% af heildarfjöldanum. Þar á eftir koma Bretar (17% af heildarfjölda), Kínverjar (8%), Þjóðverjar (6%) og Frakkar (5%). Nærri þriðjungs fækkun Breta milli ára vekur athygli, en þarlent ferðafólk var fjölmennast meðal erlendra ferðamanna hér á landi fyrir ári síðan. Bretar hafa gjarnan verið fjölmennir gestir á Íslandi yfir háveturinn og þar með dýrmætir hvað varðar að minnka árstíðasveifluna í ferðaþjónustu. Er það því talsvert áhyggjuefni ef næstu mánuðir sýna áframhaldandi fækkun þeirra milli ára. Á móti fjölgaði Bandaríkjamönnum og Kínverjum umtalsvert milli ára.
Líkt og við röktum nýlega eru horfur á því að útflutningur vaxi þokkalega á heildina litið bæði í ár og næstu tvö ár. Þar koma ekki síst til nýir vaxtarbroddar í vöru- og þjónustuviðskiptum. A sama tíma dregur trúlega úr vexti innflutnings á þessu ári í samanburði við árið 2024.
Horfur á hægt batnandi viðskiptajöfnuði
Í nýlega birtri þjóðhagsspá Greiningar förum við yfir horfurnar í utanríkisviðskiptum sem ávallt eru mikilvægur áhrifaþáttur í hagþróun í okkar litla, opna hagkerfi.
Eftir viðskiptaafgang ársins 2023 sló nokkuð í bakseglin á viðskiptajöfnuði á síðasta ári. Viðskiptahalli var ríflega 26 ma.kr. á fyrstu 9 mánuðum ársins en þar náði myndarlegur afgangur á þjónustujöfnuði ekki að vinna upp mikinn vöruskiptahalla og nokkurn halla á hreinum rekstrarframlögum til og frá landinu. Einnig var afgangur af jöfnuði frumþáttatekna mun minni en á sama tíma 2023. Útlit er fyrir að viðskiptahalli á síðasta ári hafi alls numið tæplega 70 ma.kr. sem samsvarar um það bil 1,5% af VLF ársins.
Horfur eru á fremur hagfelldri þróun viðskiptajafnaðar á spátímanum. Þó mun trúlega verða lítilsháttar viðskiptahalli í ár, eða sem nemur 0,3% af VLF ársins. Á næsta ári eru horfur á að viðskiptajöfnuður verði rétt við núllið og á árinu 2027 gæti viðskiptaafgangur numið 0,5% af VLF.
Hraðari vöxtur útflutnings en innflutnings ræður mestu um batann á þessu ári en einnig eru að mati okkar horfur á lítilsháttar bata á viðskiptakjörum á spátímanum. Með öðrum orðum gerum við ráð fyrir að verð á útfluttum vörum og þjónustu þróist með heldur hagfelldari hætti en verð á innflutningi. Einnig ætti jákvæð erlend staða þjóðarbúsins auk mismunandi samsetningar erlendra eigna og skulda að leiða til þess að jöfnuður frumþáttatekna verði jákvæður fremur en hitt.
Ekki má þó mikið út af bera í undirliggjandi stærðum svo viðskiptahallinn verði ekki þrálátari. Til að mynda gæti meiri styrking krónu á komandi misserum en við gerum ráð fyrir orðið til þess að ýta undir innflutning og halda aftur af útflutningi.
Hreinar erlendar eignir þjóðarbúsins námu tæpum 1.800 mö.kr. eða sem nemur 40% af VLF í septemberlok 2024. Þessi trausta eignastaða Íslands gagnvart umheiminum skiptir sköpum um líkur á þokkalegum stöðugleika í gengi krónu og eflir traust umheimsins á íslenskum efnahag.
Horfur eru á að erlenda staðan verði áfram traust en það veltur m.a. á þróun erlendra markaða ásamt því hvoru megin hryggjar viðskiptajöfnuður lendir á komandi árum hvort staðan batnar frekar.