Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Methalli á vöruskiptum í haust

Mikill og vaxandi vöruskiptahalli á líklega þátt í veikingu krónu undanfarna mánuði. Útgjöld vegna vöruinnflutnings hafa vaxið hratt þar sem innflutningsverð hefur hækkað á sama tíma og innflutningur hefur aukist. Halli á utanríkisviðskiptum gæti reynst meiri í ár en í fyrra þrátt fyrir hraðan bata í ferðaþjónustu.


Halli á vöruskiptum í október sl. var tæpir 53 ma.kr. samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Er það mesti halli í einum mánuði svo langt aftur sem tölur Hagstofunnar ná. Þessi methalli kemur á hæla tæplega 44 ma.kr. halla í september og lítur út fyrir að gjaldeyrisútflæði vegna vöruskipta hafi verið umtalsvert í haust.

Mikill vöruskiptahalli í október skýrist bæði af óvenju miklum innflutningi og tiltölulega rýrum vöruútflutningi í mánuðinum. Alls voru fluttar út vörur fyrir tæpa 79 ma.kr. á meðan vöruinnflutningur nam 131 ma.kr. í októbermánuði.

Innflutningur í örum vexti

Vöruinnflutningur hefur verið í afar örum vexti upp á síðkastið og voru september og október metmánuðir að þessu leytinu. Alls var vöruinnflutningur 53% meiri í krónum talið í síðastliðnum mánuði en á sama tíma í fyrra. Aukningin er veruleg í nær öllum helstu undirflokkunum í bókhaldi Hagstofunnar. Þó sker sig úr gífurleg aukning milli ára í eldsneytis- og olíuinnflutningi, sem ríflega þrefaldast á milli ára, og í fjárfestingarvörum öðrum en skipum og flugvélum þar sem aukningin milli ára er 60% á verðlagi hvers árs.

Hvað eldsneyti og olíur varðar endurspeglar mikill vöxtur á milli ára bæði verulega aukningu í tonnum talið sem og hærra verð. Afturkoma ferðaþjónustunnar sem helstu útflutningsgreinar þjóðarbúsins hefur til að mynda kallað á stóraukinn innflutning á þotueldsneyti á sama tíma og verð á slíku eldsneyti hefur tvöfaldast frá áramótum og hefur raunar sögulega sjaldan verið hærra.

Svipað má segja um aðrar tegundir jarðefnaeldsneytis og skyldra afurða enda nam innflutningur á þeim vöruflokkum alls tæplega 28 ma.kr. í október. Það samsvarar ríflega þriðjungi af öllum tekjum af vöruútflutningi í mánuðinum, svo dæmi sé tekið.

Veruleg aukning á innfluttum fjárfestingarvörum þarf ekki að vera umtalsvert áhyggjuefni enda auka slík aðföng væntanlega á endanum efnahagsstarfsemi í landinu, þar á meðal útflutning. Auknum kostnaði til skemmri tíma vegna þeirra kann því að vera vel varið. Hins vegar endurspeglar aukinn innflutningur einnig að hluta til bæði verðhækkanir á margvíslegum aðföngum en einnig að einhverju leyti umtalsverða neyslugleði landsmanna undanfarna fjórðunga. Má þar nefna að innflutningur á almennum neysluvörum var 13% meiri í krónum talið í október en í sama mánuði í fyrra.

Ólík verðþróun á áli og fiski

Líkt og við fjölluðum um nýverið hefur verð á okkar helstu útflutningsafurðum sveiflast mikið síðustu fjórðungana. Undanfarna mánuði hefur álverð þó gefið umtalsvert eftir á nýjan leik en verð á sjávarafurðum aftur á móti haldist tiltölulega hátt. Októbertölurnar endurspegla þessa þróun að hluta. Álútflutningur nam tæplega 25 ma.kr. og hefur ekki verið svo lítill í krónum talið í tæpt ár. Útflutningur sjávarafurða skilaði hins vegar jafnvirði tæplega 30 ma.kr. í tekjur í októbermánuði. Það jafngildir 12% tekjuvexti milli ára þrátt fyrir minnkaðan botnfiskkvóta og sterkari krónu á tímabilinu, en leiðrétt fyrir gengisbreytingum krónu var tekjuvöxturinn 17%.

Vaxandi vöruskiptahalli líklegur áhrifaþáttur á gengi krónu

Vöruskiptahalli hefur aukist jafnt og þétt eftir því sem liðið hefur á árið. Á fyrsta ársfjórðungi var hallinn 50 ma.kr., á öðrum fjórðungi 64 ma.kr. og 95 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi. Þessi þróun á sér líklega nokkrar rætur:

  • Mikill vöxtur í þjónustuútflutningi, sér í lagi ferðaþjónustu, kallar á verulega aukningu í innfluttum vörum. Í bókhaldi Hagstofunnar kemur það fram í batnandi þjónustujöfnuði en vaxandi vöruskiptahalla.
  • Innbyrðis verðþróun á útflutnings- og innflutningsvörum hefur verið óhagstæð síðustu mánuði. Álverð hefur lækkað verulega á nýjan leik eftir hækkun í vor en eldsneytisverð og verð ýmissa annarra aðfanga haldist hátt.
  • Meiri gangur virðist hafa verið í innlendri eftirspurn, bæði fjárfestingu og neyslu, undanfarna mánuði en við væntum eftir mikinn vöxt á fyrri helmingi ársins.
  • Minni botnfiskkvóti, sér í lagi þorskkvóti, hefur í för með sér samdrátt í útfluttu magni þótt hátt verð vegi þar blessunarlega á móti.

Vöruskiptahalli á fyrstu 10 mánuðum ársins var 262 ma.kr. samanborið við 185 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Er hallinn í ár þegar orðinn álíka mikill og við höfðum áætlað að hann yrði á árinu í heild og væntanlega bætist enn nokkuð við hallann á lokamánuðum ársins. Þótt bati á þjónustujöfnuði vegna stóraukinna ferðamannatekna muni væntanlega vega talsvert á móti miklum vöruskiptahalla á seinni helmingi ársins virðist ljóst að allnokkur halli verður á utanríkisviðskiptum í heild þetta árið.

Þessi mikli vöruskiptahalli á væntanlega sinn þátt í gengisþróun krónu undanfarna mánuði. Frá sumarbyrjun hefur krónan veikst um nærri 7% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta og er gengi hennar á þann kvarða svipað og það var í ársbyrjun.

Í þjóðhagsspánni sem við gáfum út í september sl. áætluðum við að viðskiptahalli í ár myndi nema 1,5% af VLF, eða sem samsvarar 55 - 60 ma.kr. Er það svipaður viðskiptahalli og var á síðasta ári. Líklega mun hallinn reynast nokkru meiri en við spáðum í september og þótt væntanlega horfi til betri vegar í utanríkisviðskiptum á komandi ári eru batahorfurnar þá að sama skapi heldur tvísýnni en við töldum fyrr í haust.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband