Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Met slegið í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka

Áheit á hlaupara og málefni inni á hlaupastyrkur.is námu að þessu sinni yfir 199,8 milljónum króna en söfnun áheita lauk á miðnætti 21. ágúst.


Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka hefur rétt úr kútnum eftir hlé sem varð vegna heimsfaraldurs COVID-19. Þetta endurspeglast í afar góðri þátttöku og meti sem slegið var í söfnun áheita í 38. Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram fór 19. ágúst síðastliðinn.

Að þessu sinni voru skráðir til þátttöku 11.307 hlauparar á öllum aldri frá 84 löndum, 5.766 konur, 5.483 karlmenn og 12 kvár, en í ár gátu þátttakendur í fyrsta sinn skráð sig í þrjá kynjaflokka.

Áheit á hlaupara og málefni inni á hlaupastyrkur.is námu að þessu sinni yfir 199,8 milljónum króna en söfnun áheita lauk á miðnætti 21. ágúst. Með þessu slegið fyrra met í söfnun áheita frá árinu 2019 þegar söfnuðust 167 milljónir króna. Afraksturinn rennur svo til þeirra 175 góðgerðarfélaga sem skráð eru hjá hlaupinu.

Okkur hjá Íslandsbanka er nú efst í huga þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt, hvort sem það eru þátttakendur í hlaupinu sjálfu, skipuleggjendur og starfsfólk, fólkið sem hvetur á hliðarlínunum, eða sá stóri hópur sem látið hefur af hendi rakna til styrktar góðu málefni í tengslum við hlaupið. Íslandsbanki hefur allt frá árinu 1997 verið stoltur stuðningsaðili Reykjavíkurmaraþonsins og stórkostlegur vettvangur fyrir bankann til að vera hreyfiafl til góðra verka. Ávinningur þátttöku í hlaupinu er sannarlega margþættur, hvort sem hann snýr að heilsubót, sigri á áskorunum, eða því að láta gott af sér leiða.

Jón Guðni Ómarsson
Bankastjóri Íslandsbanka

Fyrsta Reykjavíkurmaraþonið fór fram í miðbæ Reykjavíkur árið 1984, sem þýðir að á næsta ári fagnar hlaupið 40 ára afmæli þó að hlé vegna heimsfaraldursins geri að þá verði hlaupið í 39. sinn. Næst fer hlaupið fram 24. ágúst 2024.