Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga ekki meiri í 16 mánuði

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,39% í september. Mælist 12 mánaða verðbólga 3,5% og hefur ekki mælst svo mikil síðan í maí á síðasta ári. Verðbólgan hækkaði 6. mánuðinn í röð og er nú 1,0% yfir markmiði Seðlabankans en framan af ári tókst bankanum vel til að halda verðbólgunni í skefjum þrátt fyrir mikla veikingu krónunnar. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 3,9% undanfarna 12 mánuði. Því má segja að húsnæðisþátturinn sé enn að vega til lækkunar á verðbólgu í septembermánuði líkt og undanfarna mánuði.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Mæling septembermánaðar er örlítið yfir okkar spá en við spáðum 0,3% hækkun fyrr í mánuðinum. Liðurinn húsgögn o.fl. hækkaði meira en við var búist en samhliða miklu lífi á fasteignamarkaði og tilfærslu neyslu yfir í hvers umbætur á heimilum landsmanna undanfarið má ætla að einstaklingar versli meira í búið sem hefur keyrt upp eftirspurn þess liðar. Eldsneytisverð stóð í stað á milli mánaða eftir talsverðar sveiflur í verði fyrr á árinu. Neysla landans hefur haldið sjó nokkuð vel á síðkastið miðað við mikinn samdrátt hennar á öðrum ársfjórðungi þegar samkomutakmarkanir voru hvað strangastar. Ætla má að veiking íslensku krónunnar sé því farin að þokast í ríkari mæli inn í verðlagið.

Húsgögn hækka samhliða miklu lífi á fasteignamarkaði

Helsti munur á milli spár Greiningar Íslandsbanka og septembertölum Hagstofunnar liggur í vanmati okkar á verðhækkun húsgagna, heimilisbúnaðar o.fl. Húsgögn eru vitanlega stoðvörur fasteignakaupa en fyrstu kaupendur nema nú um 30% af heildareftirspurn húsnæðismarkaðar. Þeir aðilar þurfa í flestum tilvikum að versla mikið í búið og því má ætla að eftirspurn húsgagna hafi undanfarið. Einnig er vert að nefna að algjör samdráttur utanlandsferða Íslendinga hefur veitt svigrúm til að ráðast í umbætur á heimilum, bæði innan- og utanhúss. Fyrrnefndir þættir hafa ýtt heilmikið undir eftirspurn húsgagna sem leiðir til frekari þrýstings á verðhækkanir, sér í lagi þar sem slíkar vörur eru nú talsvert dýrari í innflutningi en á síðasta ári. Liðurinn hækkaði um 4% (0,22% í VNV) á milli mánaða en við höfðum spáð 2,3% hækkun. Eldsneytisverð hefur sveiflast mikið það sem af er ári en það stóð í stað á milli mánaða að þessu sinni, enda hefur heimsmarkaðsverð lítið breyst undanfarið og krónan sveiflast á tilteknu bili. Liðurinn föt og skór hækkaði minna en við gerðum ráð fyrir en venjulega á þessum tíma árs koma nýjar vörur í verslanir sem hækka að jafnaði vara í þeim lið. Liðurinn hækkaði um 1,75% (0,06% í VNV) en við höfðum spáð um 4,2% hækkun.

Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu leiðir hækkunartakt fasteigna.

Líkt og áður kom fram hefur verið mikið líf á fasteignamarkaði undanfarna mánuði og var til að mynda slegið met í hreinum nýjum útlánum í júní (45 ma.kr.). Vaxtakjör húsnæðislána eru í sögulegu lágmarki sem gefið hefur eftirspurn á markaði talsvert undir fótinn. Mest hækkaði fasteignaverð sérbýla á höfuðborgarsvæðinu á milli mánaða (0,9%) en hækkunin var þó minni en síðastliðna 3 mánuði. Hæst mælist 12 mánaða hækkunartaktur fasteignaverðs á landsbyggðinni (11,8%) en á höfuðborgarsvæðinu nemur hann 7,3%.

Reiknuð húsleiga lækkaði lítillega í septembermánuði (-0,01% í VNV). Fyrst og fremst var það vegna áhrifa lækkandi íbúðalánavaxta á liðinn en hann er samsettur af verðþróun íbúðarhúsnæðis og þróun vaxta. Undanfarna mánuði hefur einmitt síðarnefndi liðurinn vegið verulega gegn hækkunaráhrifum hins fyrrnefnda enda hafa vextir íbúðarlána lækkað talsvert undanfarin misseri.

Verðbólgan í grennd við 3% næsta kastið

Verðbólguhorfur næstu mánaða hafa versnað talsvert á síðustu mánuðum. Við spáum 0,2% hækkun VNV í október, 0,2% hækkun í nóvember og sömuleiðis í desember. Gangi spáin eftir mun verðbólgan mælast 3,3% í október og 3,4% í nóvember. Greining Íslandsbanka metur verðbólguna þó ekki óhóflega sem stendur að teknu tilliti til veikingar krónu fyrr á árinu og hækkunar á innlendum kostnaði. Til að mynda var meðalverðbólga í síðasta samdráttarskeiði (2008) 12,6%.

Líkt og fyrri daginn er umtalsverð óvissa með framhaldið en íslenskt hagkerfi stendur enn sem komið er á sterkum stoðum og hefur getu til þess að standa af sér núverandi kreppu án langvinns samdráttar í alþjóðlegum samanburði. Hægt er að lesa frekar um samanburð Íslands við útlönd í nýútgefinni Þjóðhagsspá. Horfur eru því á að verðbólga hjaðni á nýjan leik með hækkandi sól á nýju ári.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband