Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Meiri trú á verðbólgumarkmiði Seðlabankans

Veruleg breyting hefur orðið á sambandi verðbólguvæntinga við skammtímaþróun verðbólgu. Þróun verðbólguvæntinga undanfarið ár endurspeglar aukna trú á því að Seðlabankinn geti sinnt því lögbundna hlutverki sínu að halda verðbólgu nærri 2,5% að jafnaði. Þetta gefur bankanum meira svigrúm en áður til þess að bregðast við bakslagi í efnahagshorfum með lækkun stýrivaxta.


Seðlabankinn birti nýverið samantekt á þróun verðbólguvæntinga heimila, fyrirtækja og markaðsaðila á fjármálamarkaði. Einnig má lesa væntingar um verðbólguþróun úr verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði á hverjum tíma. Samanlagt gefa þessir mælikvarðar allskýra mynd af því hvernig fólk og fyrirtæki býst við því að verðbólga þróist næsta kastið. Þessar væntingar ráða svo miklu um það hvernig þróunin verður í raun og veru.

Búist heimilin við því að verðbólga verði umtalsverð munu þau fara fram á hraðari hækkun launa en ella til þess að verja kaupmátt sinn og lífskjör. Að sama skapi móta slíkar væntingar ákvörðun seljenda vöru og þjónustu á verðlagningu þar sem þeir horfa bæði til þess hvernig kostnaður er líklegur að þróast og eins þess hvernig samkeppnin er líkleg til að hegða sér. Háar verðbólguvæntingar geta því skapað vítahring verulegra launahækkana og stærri stökka í verðhækkun vöru og þjónustu, en hóflegar verðbólguvæntingar að sama skapi orðið til þess að hækkun launa og verðlags verði skaplegri.