Í janúar ár hvert liggja fjárfestar yfir hinum ýmsu spám frá markaðsaðilum í leit að góðum fjárfestingatækifærum. Í dag eru flestir þeirra væntanlega að velta því fyrir sér hvort árangur undanfarinna ára muni einnig nást á þessu ári. Síðastliðin ár hafa nefnilega verið ótrúleg á mörkuðum. Covid faraldurinn hækkaði eignaverð þvert á fyrstu spár. Stýrivextir lækkuðu, ávöxtunarkrafa skuldabréfa sömuleiðis og hlutabréf hækkuðu mikið í verði. Áhættuvitund fjárfesta var að einhverju leyti sett í aftursætið og þeir aðilar sem tóku mestu áhættuna fengu hæstu ávöxtunina.
Viðbrögð við Covid faraldrinum eru fyrir margar sakir söguleg. Víða brugðust seðlabankar við með því að snarlækka vexti og styðja við hagkerfi með miklu lausafé og umfangsmiklum skuldabréfakaupum. Að bera saman aðgerðir við Covid faraldrinum við fjármálakreppuna 2008 er áhugaverð æfing. McKinsey & Company tók saman nokkrar tölur um þetta sem eru nokkuð sláandi. Viðbrögðin eru mun hraðari og stærri í sniðum en við höfum séð í seinni tíð.