Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Með augun á seðlabönkum heimsins

Seðlabankar heimsins hafa alltaf haft ákveðin áhrif á áhættuþol fjárfesta. Sögulega er þó erfitt að meta hver áhrifin verða þegar seðlabankar hefja að hækka vexti á sama tíma og þeir draga úr stuðningi við hagkerfin í formi magnbundinnar íhlutunar.


Í janúar ár hvert liggja fjárfestar yfir hinum ýmsu spám frá markaðsaðilum í leit að góðum fjárfestingatækifærum. Í dag eru flestir þeirra væntanlega að velta því fyrir sér hvort árangur undanfarinna ára muni einnig nást á þessu ári. Síðastliðin ár hafa nefnilega verið ótrúleg á mörkuðum. Covid faraldurinn hækkaði eignaverð þvert á fyrstu spár. Stýrivextir lækkuðu, ávöxtunarkrafa skuldabréfa sömuleiðis og hlutabréf hækkuðu mikið í verði. Áhættuvitund fjárfesta var að einhverju leyti sett í aftursætið og þeir aðilar sem tóku mestu áhættuna fengu hæstu ávöxtunina.

Viðbrögð við Covid faraldrinum eru fyrir margar sakir söguleg. Víða brugðust seðlabankar við með því að snarlækka vexti og styðja við hagkerfi með miklu lausafé og umfangsmiklum skuldabréfakaupum. Að bera saman aðgerðir við Covid faraldrinum við fjármálakreppuna 2008 er áhugaverð æfing. McKinsey & Company tók saman nokkrar tölur um þetta sem eru nokkuð sláandi. Viðbrögðin eru mun hraðari og stærri í sniðum en við höfum séð í seinni tíð.

Í lok árs 2021 voru verðbréfamarkaðir nálægt hágildum sínum og verðbólga farin að aukast víða. Jerome Powell, bankastjóri bandaríska seðlabankans, hóf að tala um að verðbólguskotið væri tímabundið og ekkert alvarlegt og áhrif faraldursins væru að koma fram í hækkandi verði þar sem allt væri að færast til fyrri vegar. Verðbólgan í Bandaríkjunum náði 7% í janúar og hefur ekki verið meiri síðan 1982. Fyrir okkur sem höfum gaman að söguskoðun voru stýrivextir árið 1982 um fimmtán prósent í Bandaríkjunum og markmiðið var skýrt, að halda stýrivöxtum háum til að ná niður verðbólgu.

Hvað tekur við?

Í dag staðan þó allt önnur en 1982. Í sjö prósent verðbólgu í eru stýrivextir í dag 0,25% í Bandaríkjunum. Seðlabanki Bandaríkjanna stundar enn magnbundna íhlutun á mörkuðum (e. Quantitative easing) en það er nokkuð nýlegt fyrirbæri sem felst í því að seðlabankar hafa keypt skuldabréf á markaði og þannig haldið vöxtum lágum yfir lengri tíma. Í ársbyrjun 2022 blasir þó við nýr raunveruleiki. Seðlabankar eru farnir að huga að hærri vöxtum og því sem má kalla leitni að eðlilegu ástandi. Í Bandaríkjunum er þegar farið að verðleggja fjórar vaxtahækkanir á árinu inn í núverandi vaxtaróf.

Seðlabankar heimsins hafa alltaf haft ákveðin áhrif á áhættuþol fjárfesta. Sögulega er þó erfitt að meta hver áhrifin verða þegar seðlabankar hefja að hækka vexti á sama tíma og þeir draga úr stuðningi við hagkerfin í formi magnbundinnar íhlutunar. Sér í lagi ef núverandi hagtölur versna.

Ef rýnt er í myndina hér að ofan má segja að afar umfangsmikil íhlutun Seðlabanka Bandaríkjanna hafi snúið hratt við þeirri lækkun hlutabréfaverðs sem varð fljótlega í kjölfar faraldursins. Fjármagn var ódýrt og vextir lágir. Hvert annað áttu fjárfestar að sækja ávöxtun? Það eru þó aðrar hliðar á teningnum. Mörg fyrirtæki nutu góðs af þeim kerfislegu breytingum sem áttu sér stað í faraldrinum, breytingum sem sumar flýttu í raun framþróun á vinnumarkaði. Sjálfur man ég vel eftir að þegar mér barst tölvupóstur „Vinn heima í dag“ þýddi það að viðkomandi var eflaust svefnvana, þreyttur eða þunnur. Í dag eru tímarnir allt aðrir. Fyrirtæki hafa náð að beisla starfskrafta á áður óþekktum skala með minni skrifstofukostnaði og umfram allt minni kostnaði fyrir starfsfólkið sjálft. Fyrirtæki nutu sömuleiðis mörg góðs af því að fólk var fast heima. Google, Facebook, Amazon, Microsoft og fleiri náðu að nýta sér þessa breyttu tíma. Önnur fyrirtæki náðu að grípa tækifærin og voru nánast þvinguð í hagræðingaraðgerðir í rekstri sem eflaust voru á teikniborðinu fyrir næstu 5-10 árin. Uppgjörstölur á síðasta ári staðfestu það.

Ég er oft spurður hvað mér finnst um komandi ár og svarið mitt er ávallt eins; markaðurinn getur hækkað, lækkað eða staðið í stað. Hingað til hef ég ekki haft rangt fyrir mér. Fjárfestingaárið 2022 verður áhugavert fyrir margar sakir. Seðlabanki Íslands er í vaxtahækkunarferli, bandaríski seðlabankinn er farinn að ýja að hækkun vaxta og að minnka efnahag sinn. Í Evrópu erum við ekki enn að sjá vaxtahækkanir að neinu ráði frá seðlabanka Evrópu. Það að faraldurinn og áhrif hans fari minnkandi veitir okkur betri upplýsingar og innsýn í það sem kalla má eðlilegt ástand á mörkuðum og í rekstri fyrirtækja.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál

Höfundur


Vignir Þór Sverrisson

Fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum


Hafa samband