Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Margir sóttu stefnumót um fjártækni

Í máli gesta mátti greina mikla ánægju með stefnumót Fjártækniklasans og Íslandsbanka sem fram fór í bíósal Grósku sl. þriðjudag, 10. þessa mánaðar.


Ríflega 150 komu til að kynnast betur því starfi sem um þessar mundir fer fram á sviði fjártækni, kynnast nokkrum af nýsköpunarfyrirtækjum Fjártækniklasans og heyra af straumum í stafrænni bankastarfsemi.

Á viðburðinum kynnti Íslandsbanki stefnu sína og verkefni á sviði fjártækni, en kjölfarið fóru fram „örkynningar“ fyrirtækja þar sem þau kynntu starf sitt.

Erindi fluttu Riaan Dreyer, framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka og Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs Íslandsbanka, auk fulltrúa níu fjártæknifélaga, sem mörg hver hafa átt í samstarfi við bankann. Að kynningum loknum bauð Íslandsbanki upp á léttar veitingar og kostur gafst á spjalli um það sem fram kom.

Íslandsbanki leggur ríka áherslu á aukið samstarf við fjártæknifélög með það fyrir augum að auka þjónustu við viðskiptavini bankans. Á þessu sviði á sér stað mikil og hröð þróun sem bankinn fylgist náið með.