Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ljós við enda ganganna í hótelrekstri?

Hótel og gistiheimili hafa staðið í ströngu stríði við takmarkað tekjuflæði. Þó er ekki öll nótt úti enn hvað varðar ferðamannastrauminn og spáir Ferðamálastofa fjölgun ferðamanna í ágúst. Það er nokkuð ljóst að lokun landamæra landsins í kjölfar COVID hafði víðtæk áhrif á atvinnugreinar hér á landi en þó engar jafn mikið og ferðaþjónustugreinar. Hótel og gistiheimili hafa staðið í ströngu stríði við takmarkað tekjuflæði. Þó er ekki öll nótt úti enn hvað varðar ferðamannastrauminn og spáir Ferðamálastofa fjölgun ferðamanna í ágúst. Síðustu mánuðir hafa verið ferðaþjónustunni afar erfiðir en við hverju má búast eftir því sem líður á árið?


Skráðu þig á póstlistann okkar

Áður en ferðir til og frá landinu lögðust að mestu leyti af vegna COVID í mars síðastliðnum hafði samdráttur ferðamanna gert vart um sig. Farþegaflutningar með flugi á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2020 drógust saman um 13% samanborið við árið 2019. Ástæða þess er líklega að stærstum hluta minna framboð flugs og hærra meðalverð eftir fall Wow-air í marslok 2019. Einnig fór minnkandi ferðavilji vegna COVID að gera vart við sig eftir því sem leið á febrúarmánuð. Tekjur af erlendum ferðamönnum á fyrsta fjórðungi ársins 2020 samanborið við 2019 drógust saman um 28% samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Mikill samdráttur í gistinóttum

Mikill samdráttur gistinátta á hótelum frá fyrra ári hefur verið öllum ljós undanfarinna mánuði. Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofu Íslands fækkaði gistinóttum á hótelum um tæplega 330.000 (79%) í júní og 278.000 (88%) í maí frá sömu mánuðum árið áður. Til viðbótar þeim tölum er vert að minnast á að þó þessi tölfræði sé vissulega neikvæð má ætla að áhrifin á tekjur hótelanna séu enn meiri en hún lýsir. Hótel þurfa að keppast harðar en áður um viðskipti Íslendinga vegna skorts á erlendum ferðamönnum. Þau hafa því tekið það upp að bjóða sérstaka „Íslendingaafslætti“ af gistinóttum og því má gera ráð fyrir að tekjur hótela hafi rýrnað enn meira milli ára en tölfræðin gefur til kynna.

Umtalsverð samkeppni gistináttageirans

Samkeppni gistináttageirans á Íslandi nær til fleiri rekstaraðila heldur en eingöngu hótela. Á síðustu árum hefur stóraukist framboð svokallaðra útilegubíl (Camper van) og gera má ráð fyrir að hótelin verða af allnokkrum viðskiptavinum sökum þeirra. Svipaða sögu má segja af Air-Bnb og annarri slíkri skammtímaleigu, þótt raunar hafi dregið talsvert úr framboði slíkra gistikosta síðustu misserin.

Rekstraraðilar eru ekki allir í stöðu til að geta lækkað verð með Íslendingaafsláttum og munu þeir aðilar sem geta dregið hvað mest úr rekstrarkostnaði og/eða hafa mesta gjaldþolið meðan COVID gengur yfir vera líklegust til að lifa af. Frá janúar til maí 2020 lokuðu 47 hótel tímabundið með þeim afleiðingum framboð hótelherbergja minnkaði úr tæplega 11.000 í tæplega 8.000. Ef til þess kemur að smitum taki að fjölga og loka þurfi landamærum á nýjan leik má gera ráð fyrir að geirinn verði fyrir enn meiri skakkaföllum og fleiri hótel falli af markaði.

Bjartari tímar fram undan?

Þó að íslenskur hótelrekstur hafi vissulega átt undir högg að sækja undanfarna mánuði bendir ýmislegt til þess að rekstur a.m.k. sumra þeirra muni batna eftir því sem líður á árið. Með veikingu krónunnar hefur orðið ódýrara fyrir erlenda ferðamenn að kaupa þjónustu hérlendis, velgengni varðandi meðhöndlun COVID faraldursins hér á landi hefur ratað í fjölmiðla víðsvegar um heiminn auk þess sem jákvæð umfjöllun frá þekktum erlendum ferðamönnum um dvöl sína á landinu og ný Netflix mynd Will Farrell ættu að ýta undir aðsókn erlendra ferðamanna til Íslands. Þá er þegar farið að fjölga þeim löndum sem ekki þarf skima fyrir við komu til landsins og einnig hafa borist fréttir um að bandarísk bóluefni séu komin á það stig að vera tilbúin fyrir lokaprófanir. Því er margt sem gefur til kynna að spá Greiningar Íslandsbanka frá maí síðastliðnum um að komur ferðamanna á árinu gætu numið ríflega 700 þúsundum verði nærri lagi.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur


Hafa samband