Tíminn er afstæður. Sjálfri finnst mér langt í árið 2040, heil 20 ár, en þegar uppfylla á sérlega metnaðarfull markmið geta tveir áratugir liðið ansi hratt og þá liggur á að bretta upp ermar.
Eitt slíkt markmið hefur minn vinnustaður sett sér og snýr að því að náð verði fullu kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Ekki er eingöngu átt við rekstur bankans heldur einnig með tilliti til fjármögnunar á útblæstri í gegnum lána- og eignasafn. Þetta þýðir að við munum hafa markmið okkar um kolefnishlutleysi í huga við mat á lánveitingum og verðlagningu. Þetta verður vonandi mikilvæg varða á þeirri leið sem íslenskt samfélag hefur skuldbundið sig til að fylgja í gegnum aðild að Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og styður við metnaðarfulla aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftlagsmálum. En meira þarf að sjálfsögðu til.
Í þessu sem svo mörgu geta lítil og meðalstór fyrirtæki verið drifkrafturinn í mikilvægum umbreytingum. Þau leika lykilhlutverk í nýsköpun og framþróun almennt í íslensku efnahagslífi, enda Ísland að megninu til lítið og meðalstórt þegar kemur að að stærð og umfangi fyrirtækja. Við eigum auðvitað víða langt í land; aðferðarfræði, gögn og upplýsingar til að byggja á eru ennþá af skornum skammti á mörgum sviðum og viðfangsefnið sannarlega ögn óáþreifanlegt í mörgu tilliti. Hið jákvæða er að skilningur, áhugi og metnaður fyrirtækja í sjálfbærni er hratt vaxandi og ég hef tekið eftir að þau samtöl sem ég á við forsvarsfólk fyrirtækja varðandi sjálfbærni falla í frjóan jarðveg.
Hvort viðhorf innan íslenskra fyrirtækja til sjálfbærnimála séu að breytast nógu hratt og markmiðin nægilega metnaðarfull er að sjálfsögðu deilt um en breytingin sem orðið hefur á einungis örfáum árum fylla mig þó bjartsýni. En tækifærin til að leggja lóð á vogaskálar kolefnihlutleysis liggja svo miklu víðar en margur hyggur. Orkuskipti í samgöngum eru að líkindum hvergi jafn nærtækt skref að stíga en á Íslandi og þar fer valkostum hratt fjölgandi.