Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Langtímavextir lækka en vaxtamunur við útlönd eykst

Þótt langtímavextir á skuldabréfamarkaði hafi lækkað talsvert undanfarið hefur langtíma vaxtamunur við útlönd aukist. Lækkun langtímavaxta erlendis endurspeglar væntingar um verulega lækkun stýrivaxta á komandi misserum. Ólíkar verðbólguvæntingar endurspeglast í því að munur á langtíma raunvöxtum hér á landi og á helstu myntsvæðum er mun minni en munur á nafnvöxtum.


Talsverð kúvending hefur orðið í vaxtastigi á skuldabréfamarkaði á alþjóðavísu undanfarnar vikur. Er Ísland þar ekki undanskilið. Til að mynda hefur ávöxtunarkrafa á lengsta flokki óverðtryggðra ríkisbréfa, RIKB 42, lækkað um hálfa prósentu undanfarinn mánuð eða svo. Krafan, sem endurspeglar langtíma grunnvexti á skuldabréfamarkaði, er nú 6,5%. Þar sem krafa á skuldabréfum hreyfist öfugt við verð samsvarar þessi kröfulækkun talsverðri hækkun á verði íslenskra ríkisbréfa undanfarið eftir linnulitla verðlækkun allt frá miðju ári 2020. Verðhækkunin á fyrrnefndu skuldabréfi nemur til að mynda nærri 4,5% undanfarinn mánuð.

Kraftmikil kröfulækkun erlendis

Þrátt fyrir lækkun á ávöxtunarkröfu íslenskra ríkisbréfa hefur langtíma vaxtamunur við útlönd aukist allnokkuð upp á síðkastið. Ástæðan er sú að ávöxtunarkrafa sambærilegra skuldabréfa í helstu gjaldmiðlum hefur lækkað talsvert meira en raunin er með kröfu íslensku bréfanna. Þar má nefna að frá októberlokum hefur krafa á 10 ára skuldabréfum bandaríska ríkisins lækkað um tæpa prósentu, þýska ríkisins um 0,8 prósentur og þess breska um 0,9 prósentur.

Langtíma vaxtamunur íslensku krónunnar við útlönd, eins og hann endurspeglast í kröfu ríkisbréfa, hefur því aukist allnokkuð síðustu mánuði. Gagnvart evru er vaxtamunurinn nú 5,2% og hefur ekki verið meiri því fyrir faraldur, eins og sjá má af myndinni. Gagnvart bandaríkjadollar er vaxtamunurinn 3,3% og 3,5% gagnvart breska pundinu. Er það mesti vaxtamunur gagnvart þessum tveimur myntum frá því í mars síðastliðnum.

Verulegrar vaxtalækkunar vænst víða erlendis árið 2024

En hvað veldur þessum skarpa viðsnúningi í langtímavöxtum? Í sem stystu máli hafa breyttar væntingar um þróun stýrivaxta hjá ýmsum helstu seðlabönkum heims haft þar mikil áhrif. Í síðustu viku tilkynntu til að mynda seðlabankar Evrusvæðis, Bandaríkjanna og Bretlands allir um óbreytta stýrivexti. Markaðsaðilar kusu hins vegar að túlka yfirlýsingar og ummæli stjórnenda þessara banka á þann veg að horfur væru á að stýrivextir lækkuðu fyrr og meira á komandi ári en væntingar höfðu verið um fyrr í haust. Raunar hafa seðlabankastjórar og aðrir forkólfar peningastefnu í þessum löndum reynt að slá á þessar væntingar í ræðu og riti síðustu daga en það virðist lítið slá á bjartsýni markaðarins.

Samkvæmt síðustu samantektarspá Reuters vænta sérfræðingar erlendra greiningardeilda þess að stýrivextir byrji að lækka á vordögum á evrusvæði og síðsumars í Bretlandi og Bandaríkjunum. Afleiðumarkaðir verðleggja raunar meiri vaxtalækkun inn í afurðir sínar á komandi ári en spár hljóða upp á. Þannig endurspeglar slík verðlagning um þessar mundir 1,5 prósentu lækkun stýrivaxta á evrusvæði á árinu 2024 samkvæmt Refinitiv-fréttaveitunni. Svipuð lækkun er verðlögð fyrir bandaríska stýrivexti á komandi ári og fyrir breska vexti endurspeglar verðlagningin ríflega prósentu stýrivaxtalækkun á tímabilinu.

Til samanburðar má nefna að nýjasta stýrivaxtaspá okkar gerir ráð fyrir óbreyttum vöxtum hér á landi fram á 2. fjórðung næsta árs og að stýrivextirnir lækki alls um 1,25 prósentur fram til ársloka 2024. Framvirkur vaxtaferill á markaði bendir til þess að væntingar á skuldabréfamarkaði séu á svipuðum nótum.

Raunvaxtamunur minni en munur nafnvaxta

Þótt verulegur og vaxandi munur sé á langtíma nafnvöxtum hérlendis og í helstu hagkerfum nágrannalanda er myndin öllu flóknari þegar raunvextir eru skoðaðir. Verðtryggð skuldabréf eru vissulega ekki jafn algeng víðast hvar erlendis og raunin er hér á landi en þó gefa ríkissjóðir Bandaríkjanna, Bretlands og Þýskaland allir út slík bréf.

Líkt og raunin er með óverðtryggða vexti hefur raunávöxtunarkrafa slíkra bréfa lækkað nokkuð á undanförnum vikum. Verulegur munur er hins vegar á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa ríkissjóðs Bandaríkjanna annars vegar, og Bretlands og Þýskalands hins vegar. Munur á 10 ára raunávöxtunarkröfu íslenskra ríkisbréfa í krónum (2,8%) og bandarískra TIPS-bréfa (2,0%) er því innan við 1 prósenta á meðan sambærileg bresk og þýsk bréf fást á innan við 0,5% ávöxtunarkröfu. Raunvaxtamunur íslenskra bréfa gagnvart síðarnefndu bréfunum er því í grennd við 2,5 prósentur.

Þessi munur milli bréfa í myntunum þremur endurspeglar svo meðal annars mismunandi væntingar um hagvöxt í viðkomandi löndum. Þannig hljóðar samantektarspá Reuters meðal greiningaraðila upp á 2,4% hagvöxt í Bandaríkjunum í ár og 1,2% vöxt árið 2024. Sambærilegar tölur eru 0,5% og 0,4% fyrir Bretland, og 0,5% og 0,6% fyrir evrusvæðið. Hér má einnig nefna að í þjóðhagsspá okkar í haust spáðum við 2,2% hagvexti á Íslandi í ár og 2,6% vexti á næsta ári.

Ólíkar verðbólguvæntingar spila hlutverk

En hverju sætir að munurinn á langtíma nafnvöxtum milli Íslands og stóru hagkerfunum þremur er svo miklu meiri en raunvaxtamunurinn? Svarið við þeirri spurningu er einfalt: Ólíkar verðbólguvæntingar.

Miðað við samantektarspá Reuters búast kollegar okkar í erlendum greiningadeildum að jafnaði við því að verðbólga verði 2,6% á næsta ári í Bandaríkjunum, 2,5% á evrusvæði og 3,0% í Bretlandi. Fyrir árið 2025 eru tölurnar 2,3% í Bandaríkjunum og 2,1% í hinum hagkerfunum tveimur. Til samanburðar hljóðar nýjasta spá Seðlabankans upp á 5,7% verðbólgu á næsta ári og 3,6% árið 2025. Okkar nýjasta spá er svo heldur svartsýnni á verðbólguhorfurnar og gerir ráð fyrir 6.3% verðbólgu á næsta ári og 3,9% árið 2025. Nýlega birt mæling á verðbólguvæntingum stjórnenda helstu fyrirtækja landsins segir svipaða sögu.

Það er því til mikils að vinna að ná betri tökum á verðbólgunni og þar með verðbólguvæntingum. Þótt raunvaxtastig hér á landi verði ólíklega í takti við hægvaxtarsvæðin í Bretlandi og á meginlandi Evrópu er að okkar mati nærtækara að horfa til Bandaríkjanna varðandi það vaxtastig sem hér á landi gæti orðið í kjölfar hjaðnandi verðbólgu og stöðugri verðbólguvæntinga.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband