Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Krónan: Forskot á sæluna?

Gengi krónu er nú á svipuðum slóðum og í apríllok eftir lítilsháttar veikingu í sumar. Styrking hennar á fyrstu fimm mánuðum ársins skýrist líklega að stórum hluta af stöðutöku með krónunni vegna væntinga um batnandi gjaldeyrisflæði síðar á árinu. Útlit er fyrir nokkra styrkingu krónu á komandi misserum en veruleg styrking myndi á endanum spilla ytra jafnvægi þjóðarbúsins.


Gengi krónu hefur sveiflast á fremur þröngu bili gagnvart körfu helstu gjaldmiðla þetta sumarið. Krónan veiktist raunar lítillega í júlí gagnvart öðrum gjaldmiðlum ef miðað er við viðskiptavegna gengisvísitölu. Á þann kvarða er gengið á svipuðum slóðum og í lok apríl síðastliðins og ríflega 2% lægra en í lok maí.

Styrking krónu... nema gegn dollaranum

Það er þó ekki svo að helstu gjaldmiðlar hafi almennt hækkað í verði gagnvart krónu heldur skýrist veikingin miðað við gengisvísitölu að stærstum hluta af hækkandi gengi dollarans gagnvart krónunni eins og raunar flestum öðrum gjaldmiðlum undanfarna mánuði. Bandaríkjadollar kostar 136,8 kr. á millibankamarkaði þegar þetta er ritað og hefur gengi hans gagnvart krónu hækkað um tæp 8% frá maílokum. Eins og myndin ber með sér hefur gengi evru og breska pundsins hins vegar fremur lítið breyst á þessu tímabili.

Frá ársbyrjun hefur gengi krónu hækkað um tæp 4% ef horft er til gengisvísitölu Seðlabankans. Sú styrking endurspeglar hins vegar, líkt og ofangreindar tölur, mjög ólíka þróun gagnvart helstu gjaldmiðlum. Gagnvart Bandaríkjadollar hefur krónan veikst sem nemur 5,6%. Á móti evru, sem vegur langþyngst í utanríkisviðskiptum og þar með gengisvísitölunni, hefur krónan hins vegar styrkst um tæp 5% og gagnvart pundinu nemur styrkingin ríflega 5%. Svipaða sögu er að segja af öðrum helstu gjaldmiðlum.

Ástæða þessarar mismunandi gengisþróunar krónu gagnvart erlendum myntum er vitaskuld sú að gengi dollarans hefur hækkað verulega það sem af er ári. Til að mynda nemur styrking dollarans gagnvart evru ríflega 9% frá áramótum og um miðjan síðasta mánuð var evran hársbreidd frá því að fara niður fyrir 1 Bandaríkjadollar í verði í fyrsta sinn í tæp 20 ár. Hækkun vaxta og skárri efnahagshorfur vestan hafs en víðast hvar í öðrum iðnríkjum skýra að stórum hluta þessa styrkingu dollarans ásamt þeim flótta í náðarfaðm þessarar stærstu forðamyntar heims þegar veður gerast válynd á alþjóðamörkuðum líkt og verið hefur þetta árið.

Hvað skýrir þróun krónunnar í ár?

En hvers vegna styrktist krónan frá áramótum fram í sumarbyrjun og hvers vegna hefur gengi hennar lækkað lítillega síðan?

Ekki verður þessi hreyfing krónunnar að minnsta kostið skrifuð á afskipti Seðlabankans. Bankinn hefur verið fremur hóflegur í gjaldeyrisinngripum á markaði þetta árið, ef undan er skilinn aprílmánuður þegar bankinn keypti u.þ.b. 130 m. evra (jafnvirði ríflega 18 ma.kr.) inn í forða sinn. Um þetta er fjallað í fundargerð fjármálastöðugleikanefndar bankans sem birt var í júlíbyrjun:

„Ágætis stöðugleiki hafði verið á gjaldeyrismarkaði og flökt verið hóflegt. ... Seðlabankinn hafði því lítið þurft að grípa inn í markaðinn ef frá væru talin stór viðskipti í apríl þegar bankinn keypti erlendan gjaldeyri í beinum viðskiptum til að mæta fjármagnsinnflæði vegna fjárfestinga erlendra aðila í ríkisbréfum.“

Samkvæmt frétt Innherja var þar um að ræða kaup evrópska fjárfestingasjóðsins BlueBay á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum í útboði Lánamála ríkisins. Í sumar hefur Seðlabankinn hins vegar alfarið haldið sig frá gjaldeyrismarkaði enda hafa dagsveiflur verið hóflegar og engin merki um spíralmyndun á markaði sem þörf var á að snúa ofan af.

Ekki er heldur hægt að skýra þróun krónunnar í ár með beinu gjaldeyrisflæði tengdu utanríkisviðskiptum. Viðskiptahalli var rúmir 50 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins og gögn um vöruskipti, kortaveltu milli landa og fleira þess háttar benda til þess að talsverður halli hafi einnig verið á utanríkisviðskiptum á öðrum ársfjórðungi.

Þá liggur skýringin tæpast í miklu hreinu fjárfestingainnflæði á tímabilinu. Samkvæmt gögnum Seðlabankans var vissulega hreint innflæði tengt nýfjárfestingum á fyrstu fimm mánuðum ársins sem nam 16,5 ma.kr. Kúfurinn af því innflæði endurspeglar hins vegar framangreind skuldabréfakaup sem Seðlabankinn afgreiddi að mestu í beinum viðskiptum og höfðu því tæpast áhrif á gjaldeyrismarkaði. Á móti námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða á sama tíma tæplega 40 ma.kr. líkt og við fjölluðum um nýlega.

Að mati okkar er skýringarinnar á styrkingu krónu fram á vor einna helst að leita í stöðutöku aðila á markaði með krónunni. Gögn Seðlabankans sýna að framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabanka jókst um 54 ma.kr. á fyrstu fimm mánuðum ársins og nam alls 171 ma.kr. í maílok. Þessi staða er spegilmynd af stöðutöku viðskiptavina sem gert hafa samsvarandi framvirka samninga þar sem gjaldeyrir er keyptur fyrir krónur. Eðli slíkra viðskipta er að gengisáhrif þeirra koma fram á markaði þegar til þeirra er stofnað. Því má segja að væntingar um sterkari krónu síðar á árinu hafi komið fram í styrkingu hennar framan af ári. Ekki liggja fyrir nýrri gögn um framvirka gjaldeyrisstöðu en fróðlegt verður að sjá þróun hennar það sem af er sumri þegar þau gögn verða birt.

Meðvindur með krónu líklegur á komandi misserum

En er gild ástæða fyrir þessari stöðutöku aðila á markaði með krónunni? Við teljum að tína megi til ýmis rök fyrir því að meðvindur verði á með krónu í gjaldeyrisflæði á komandi mánuðum. Viðskiptajöfnuður fer líkast til ört batnandi þessa dagana þar sem gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar aukast hröðum skrefum og verð á sjávarafurðum hefur farið hækkandi á sama tíma og verð á ýmsum innfluttum hrávörum og aðföngum er heldur að síga auk þess sem við eigum von á hægari vexti einkaneyslu og fjárfestingar á komandi misserum en verið hefur undanfarna fjórðunga.

Í grófum dráttum gerum við ráð fyrir því að árið reynist tvískipt hvað utanríkisviðskipti varðar og að viðskiptaafgangur taki við af -halla á síðari hluta ársins. Við það bætist að horfur eru á talsverðu fjárfestingarinnflæði með haustinu þegar íslenski hlutabréfamarkaðurinn færist upp um flokk í skilgreindum vísitölum alþjóðlegra fjármálafyrirtækja, sem aftur hefur í för með sér að verðbréfasjóðir sem fjárfesta í takti við þær vísitölur þurfa að bæta íslenskum hlutabréfum í söfn sín. Loks má nefna að vaxtamunur við útlönd er talsverður og hagvaxtarhorfur með skárra mótinu í alþjóðlegum samanburði á sama tíma og sterk erlend staða þjóðarbúsins ætti að styðja við hærra raungengi en þjóðarbúið hefði ella ráðið við.

Raungengi krónunnar hefur þó hækkað umtalsvert frá því faraldurinn stóð sem hæst og er nú komið á svipaðar slóðir og árið fyrir faraldur. Það er því tæpast innistæða fyrir stórfelldri frekari styrkingu krónu áður en gengi hennar fer að spilla fyrir samkeppnishæfni þjóðarbúsins, rýra viðskiptajöfnuð og hafa neikvæð áhrif á hreina erlenda eignastöðu.

Í þjóðhagsspá okkar í maí gerðum við ráð fyrir því að krónan ætti inni u.þ.b. 5% styrkingu á næstu misserum frá genginu eins og það var í lok apríl. Sem fyrr segir er gengi krónu um þessar mundir almennt á svipuðum slóðum og þá var. Skoðun okkar frá því í maí er í stórum dráttum enn sú sama þótt ógerningur sé að segja fyrir um hvernig gengið muni sveiflast til skemmri tíma litið, hvað þá um það hvernig gengið þróist þegar til lengdar lætur.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband