Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Lífeyrissjóðir í mótbyr á fyrri árshelmingi

Eignir íslenskra lífeyrissjóða minnkuðu um 5,4% á fyrri helmingi ársins eftir myndarlegan eignavöxt árin á undan. Verðlækkun á hérlendum sem erlendum verðbréfamörkuðum er helsta skýring þessa. Raunávöxtun eigna lífeyrissjóðanna hefur þó verið talsvert umfram tryggingafræðilegt viðmið þeirra undanfarinn áratug og þegar rofar til á mörkuðum lifnar að sama skapi á ný yfir ávöxtun sjóðanna.


Eignir íslenskra lífeyrissjóða námu alls 6.386 ma.kr. í júnílok samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Á fyrri árshelmingi minnkuðu eignirnar í krónum talið um 361 ma.kr. sem samsvarar 5,4% lækkun frá ársbyrjun. Lækkunin var fyrst og fremst í hlutabréfaeign sjóðanna. Þannig minnkaði innlend eign þeirra í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum um 102 ma.kr. og erlendar eignir, sem að langstærstum hluta eru í formi hlutabréfa og hlutdeildarskírteina í hlutabréfasjóðum, minnkuðu um 343 ma.kr. Innlendar eignir í útlánum og markaðsskuldabréfum jukust hins vegar um 75 ma.kr. og aðrar eignir samtals um 9 ma.kr.

Skýringin á rýrnun hlutabréfaeignar lífeyrissjóðanna liggur að stærstum hluta í snarpri verðlækkun á hlutabréfum á innlendum jafnt sem erlendum hlutabréfamörkuðum á fyrri árshelmingi eftir myndarlega verðhækkun árin á undan. Sem dæmi má nefna að innlend hlutabréf lækkuðu að jafnaði um tæp 15% á fyrri helmingi ársins og MSCI heimsvísitala hlutabréfa lækkaði um rúmlega 21% á tímabilinu.

Það er því stjórnendum sjóðanna væntanlega nokkur léttir að júlímánuður markaðist af viðsnúningi hér sem erlendis og hækkuðu innlend hlutabréf að jafnaði um 7% í mánuðinum en á heimsvísu nam hækkunin tæpum 8% samkvæmt heimsvísitölu MSCI.

Hlutfall erlendra eigna hefur minnkað nokkuð

Lækkun á erlendum eignum sjóðanna hefur einnig haft í för með sér lækkun á hlutfalli erlendu eignanna af heildareignum. Hæst varð þetta hlutfall tæplega 36% í lok síðasta árs eftir mikla verðhækkun erlendis og allnokkur erlend eignakaup sjóðanna á síðasta ári. Hlutfallið var hins vegar komið niður í tæp 33% um mitt þetta ár.

Hámark er á hlutfalli óvarinnar gjaldeyrisstöðu lífeyrissjóðanna af heildareignum, sem má hæst vera 50%. Í bígerð er að hækka þetta hlutfall jafnt og þétt á komandi árum. Það mun vafalítið gera sjóðunum auðvaldara fyrir með stýringu erlendra eigna en nokkur brögð hafa verið að því að einstakir sjóðir hafi þurft að selja hluta gjaldeyriseigna sinna þar sem hlutfall erlendra eigna hefur farið yfir mörk fjárfestingarstefnu þeirra eða jafnvel nálgast framangreint hámark tímabundið. Glöggt má sjá merki þessa í gjaldeyrisviðskiptum lífeyrissjóða sem Seðlabankinn heldur til haga. Samkvæmt gögnum bankans námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða 56 ma.kr. árið 2020 og 53 ma.kr. árið 2021. Bæði árin bætti hins vegar verulega í sölu sjóðanna á gjaldeyri á lokamánuðum ársins sem væntanlega endurspeglar framangreinda sölu þeirra á erlendum eignum.

Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða tæpum 40 ma.kr. samanborið við 25 ma.kr. á sama tíma árið áður. Eins og sést á myndinni voru gjaldeyriskaup sjóðanna sérstaklega mikil í maímánuði en þá námu hrein kaup þeirra á gjaldeyri 17 ma.kr.

Aukin kaup lífeyrissjóða á erlendum eignum falla vel að breytingum á gjaldeyrisflæði vegna utanríkisviðskipta. Við teljum að viðsnúningur eigi sér stað þessa dagana í viðskiptum með vörur og þjónustu þar sem stóraukinn ferðamannastraumur ásamt hagfelldri þróun á verði helstu útflutningsvara og hægari vexti innlendrar neyslu og fjárfestingar hjálpast væntanlega að við að snúa viðskiptahalla undanfarinna missera í viðskiptaafgang á síðari helmingi þessa árs. Það fer að mati okkar vel á því að lífeyrissjóðirnir ráðstafi hluta þess afgangs í langtímasparnað utan landsteinanna, dragi þar með úr þeirri styrkingu krónu sem ella hafði orðið og dreifi landfræðilegri áhættu í fjárfestingum sínum.

Tímabundið bakslag í ávöxtun eftir góð ár

Hætt er við að raunávöxtun eigna lífeyrissjóðanna hafi verið rýr í roðinu á fyrri árshelmingi þar sem eignir þeirra minnkuðu í krónum talið þrátt fyrir verulegt hreint innflæði vegna iðgjalda sjóðfélaga umfram lífeyrisgreiðslur. Gróf áætlun okkar bendir til þess að raunávöxtunin á fyrri hluta ársins hafi verið neikvæð um ríflega 10%.

Ekki er þó ástæða til að örvænta fyrir núverandi og verðandi lífeyrisþega. Sjóðirnir hafa skilað ágætri raunávöxtun að jafnaði undanfarinn áratug þrátt fyrir sveiflur milli einstakra ára. Þannig var meðal raunávöxtun eigna þeirra á tímabilinu 2012-2021 6,6% og þar með nærri tvöfalt meiri en það tryggingarfræðilega viðmið (3,5% raunvextir) sem þeim ber að nota við uppgjör og framreikning heildareigna og -skuldbindinga. Þótt enn sé of snemmt að kveða upp úr um hvort viðsnúningurinn á mörkuðum í júlímánuði sé varanlegur ber að hafa í huga að öll él styttir upp um síðir, líka á fjármálamörkuðum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband