Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Krappur efnahagssamdráttur á þriðja ársfjórðungi

Landsframleiðsla dróst saman á þriðja fjórðungi þessa árs en samdrátturinn var þó heldur minni en á öðrum ársfjórðungi. Samdrátturinn skýrist að stærstum hluta af hruni í ferðaþjónustu en innlend eftirspurn lét einnig nokkuð undan síga. Áfram er útlit fyrir umtalsverðan samdrátt næstu fjórðunga en viðsnúningurinn gæti orðið hraður þegar lengra líður á næsta ár.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar dróst verg landsframleiðsla (VLF) saman um 10,4% á þriðja fjórðungi þessa árs. Samdrátturinn er að mestu tilkominn vegna neikvæðs framlags utanríkisviðskipta. Útflutningur skrapp saman um tæp 39% á fjórðunginum sem má að mestu rekja til samdráttar í ferðaþjónustu. Á móti minnkaði innflutningur vöru og þjónustu um rúm 26%. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar er því áfram neikvætt á árinu þar sem samdráttur útflutnings er talsvert meiri en innflutnings á fyrstu þremur fjórðungum ársins.

Allt bendir til þess að áfram verði samdráttur VLF á síðasta fjórðungi ársins enda hagkerfið enn í miðri Kórónukreppu með tilheyrandi áhrifum á útflutning og innlenda eftirspurn. Framhaldið veltur á framvindu faraldursins en jákvæðar fréttir af bóluefnum undanfarnar vikur eru ljós í myrkrinu. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir 8,6% samdrætti á árinu sem verður að öllum líkindum nærri lagi.

Mikil samdráttur í þjónustuútflutningi

Samfellt 8 ára hagvaxtarskeið Íslands hefur nú runnið sitt skeið. Helsti orsakavaldur þess vaxtar var sá sami og skýrir að mestu niðursveifluna nú; ferðaþjónustan. Líkt og áður kom fram skrapp útflutningur saman um 39% og þar vó þyngst mikill samdráttur í þjónustuútflutningi. Þar hefur COVID mikið að segja en flugsamgöngur lágu að miklu leyti niðri frá seinni hluta mars fram undir maílok og hafa aftur að mestu verið í dvala frá lokum ágústmánaðar.

Samdrátt útflutnings má nærri að öllu leyti rekja til þjónustu, en hún dróst saman um rúm 18% á þriðja fjórðungi þessa árs á meðan vöruútflutningur minnkaði aðeins um 0,2%. Í fyrrnefndri spá okkar gerum við ráð fyrir að útflutningur vöru og þjónustu minnki um 27,2% á árinu og innflutningur um 16,3%.

Fjárfesting dregst enn frekar saman

Fjármunamyndun lét nokkuð undan síga á árinu 2019 og var það annað árið í röð sem hún dróst saman. 2020 gefur ekkert þar eftir og ætla má að fjárfestingin dragist enn frekar saman í ár. Vextir hafa lækkað umtalsvert undanfarin misseri sem að öðru óbreyttu eykur arðsemi fjárfestinga. Þau áhrif hafa enn ekki raungerst enda er mikil óvissa um framhaldið og líklegra að lágir vextir hjálpi við að glæða fjárfestingu á næsta ári.  Fjármunamyndun hefur dregist saman um 11,4% það sem af er ári þar vegur samdráttur atvinnuvegafjárfestinga þyngst.

Íbúðafjárfesting hefur dregist saman á árinu en hún hafði aukist nærri samfleytt frá því 2011 (að frátöldu 2015). Samkvæmt Hagstofunni hefur vöxtur íbúðafjárfestingar á síðustu misserum verið að mestum hluta vegna fjölgunar íbúða á síðari byggingarstigum en töluverður samdráttur er á íbúðum á fyrri byggingarstigum. Lægra vaxtastig hefur aukið eftirspurn á fasteignamarkaði þrátt fyrir aukið atvinnuleysi og slæmar efnahagshorfur og því verður áhugavert að fylgjast með hve snöggur viðsnúningur verður á fjárfestingum í íbúðahúsnæði. Líkt og með atvinnuvegafjárfestingarnar gæti sá viðsnúningur orðið allhraðr þegar faraldurinn fer að láta undan síga.

Einkaneysla hríðfallið á árinu

Þróun einkaneyslu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt hérlendis en á undanförnum árum hefureinkaneyslan talið um helming af vergri landsframleiðslu (VLF). Góðu heili hefur sá vöxtur ekki verið byggður á vaxandi skuldsetningu heimila, líkt og fyrir fjármálahrunið 2008, heldur hefur hann verið studdur af auknum kaupmætti og fólksfjölgun. Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa sett einkaneyslunni skorður á árinu með því að takmarka framboð rekstraraðila. Einkaneysla dróst saman um 2,3% á þriðja ársfjórðungi en samdrátturinn var þó töluvert meiri á öðrum ársfjórðungi (-8,8%). Á fyrstu 9 mánuðum ársins hefur einkaneyslan skroppið saman um 3,5% miðað við sama tímabil 2019. Í fyrrnefndri þjóðhagsspá gerum við ráð fyrir 3,3% samdrætti einkaneyslu á árinu 2020.

Atvinnuleysi hefur vaxið í hæstu hæðir á árinu og ekki er útlit fyrir að það muni minnka að einhverju ráði fyrr en líður á næsta ár. Ólíkt fyrri samdráttarskeiðum hefur kaupmáttur hins vegar aukist á meðal þeirra sem halda vinnu. Ætla má að samdráttur einkaneyslunnar sé hóflegri fyrir vikið en á móti vegur fyrrnefnt aukið atvinnuleysi. Í september spáðum við að hagvöxtur næsta árs verði 3,1% og einkaneyslan vaxi um 1,6%.

Hagtölur næstu fjórðunga munu litast af því hversu vel gengur að ráða niðurlögum farsóttarinnar. Við reiknum með að bólusetning við Kórónuveirunni verði orðin tiltölulega útbreidd um mitt næsta ár en ef betur gengur í því ferli gætu hagtölur næsta árs verið heldur bjartari en við gerum ráð fyrir. Jákvæðar fregnir af bóluefni hafa aukið bjartsýni á mörkuðum víðsvegar um heim og því ástæður til að ætla að bjartari tímar séu framundan þótt veturinn verði óhjákvæmilega býsna harður í efnahagslegu tilliti.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa Samband