Landsmenn straujuðu greiðslukort sín fyrir tæplega 137 milljarða í ágúst síðastliðnum samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans. Það samsvarar rúmlega 7% aukningu frá sama mánuði í fyrra. Þegar tekið er tillit til verðlags- og gengisbreytinga nemur raunaukningin rúmlega 2% á milli ára. Vöxtur kortaveltu skýrist alfarið af aukinni veltu erlendis sem jókst um 12% á milli ára á meðan kortavelta innanlands dróst lítillega saman eða um 0,6% að raunvirði.
Kortavelta í ágúst: Neysla erlendis dregur vagninn
Kortavelta erlendis í ágúst er ástæða þess að kortavelta eykst á milli ára. Íslendingar hafa verið mjög duglegir að ferðast á árinu. Heimilin standa vel og einkaneysla mun að öllum líkindum halda áfram að vaxa jafnt og þétt á næstu misserum.
Kortavelta hefur sveiflast nokkuð á milli mánaða undanfarið eins og sést á myndinni hér að ofan. Því er gagnlegt að skoða þróunina yfir lengra tímabil til að fá skýrari heildarmynd. Á fyrstu átta mánuðum ársins hefur kortavelta aukist um 4% á milli ára og á síðustu þremur mánuðum jókst kortaveltan um 3,5% miðað við sama tímabil í fyrra.
Ferðagleði og neysla í takt
Kortavelta Íslendinga erlendis hefur drifið áfram vöxt kortaveltunnar undanfarin misseri. Kortavelta erlendis skiptist í raun í tvo meginflokka, annars vegar neyslu heimila á ferðalögum erlendis og hins vegar kaup í erlendum netverslunum. Rannsóknarsetur verslunarinnar birtir gögn um umfang erlendrar netverslunar og samkvæmt nýjustu gögnum nam velta í erlendum netverslunum 2,6 ma.kr. í júlí og jókst um 2,2% frá sama tíma í fyrra.
Velta íslenskra greiðslukorta erlendis nam rúmlega 29 ma.kr. í ágúst og skýrir neysla í utanlandsferðum því alla jafna talsvert stærri hlut veltunnar en erlend netverslun. Íslendingar hafa verið ansi ferðaglaðir uppi á síðkastið. Samkvæmt Ferðamálastofu fjölgaði ferðalögum Íslendinga til útlanda um 20% á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Í ágúst var aukningin um 13% milli ára. Það helst vel í hendur við kortaveltu erlendis sem jókst um 12% í mánuðinum.
Frá því í apríl hefur kortavelta erlendis mælst yfir 30 milljörðum í hverjum mánuði. Það gerðist í fyrsta sinn í júní í fyrra, en virðist hafa fest sig í sessi undanfarna mánuði. Í ágúst nam kortavelta erlendis til að mynda 32,5 milljörðum króna.
Þrátt fyrir mikla neyslu Íslendinga erlendis mælist kortaveltujöfnuður enn jákvæður. Velta erlendra greiðslukorta hér á landi var 51 milljarður í ágúst, sem vegur upp á móti gjaldeyrisútflæði vegna neyslu Íslendinga erlendis og gott betur.
Einkaneysla á uppleið
Nokkur gangur hefur verið á einkaneyslu það sem af er ári. Á fyrri helmingi ársins jókst einkaneysla um 3% að raungildi miðað við sama tíma í fyrra og þar af var vöxturinn 3,1% á öðrum ársfjórðungi. Það er jafnframt hraðasti vöxtur einkaneyslu síðan á fyrsta ársfjórðungi 2023.
Almenn aukning hefur orðið í innlendri neyslu, meðal annars vegna aukinna kaupa heimilanna á þjónustutengdum neysluvörum. Einnig má þar nefna fjölgun nýskráninga bifreiða á öðrum ársfjórðungi eftir samdrátt fjórðungana þar á undan.
Þrátt fyrir að neysla hafi aukist og ferðalögum fjölgað virðast íslensk heimili ekki að vera að skuldsetja sig til að fjármagna neysluna. Hún hefur haldist í hendur við vaxandi kaupmátt og fólksfjölgun. Fjárhagsstaða heimila er almennt sterk og sparnaður þeirra mælist enn sögulega hár. Þrátt fyrir aukna neyslu virðast íslensk heimili ekki vera að ganga verulega á sparnað sinn. Af þessum ástæðum teljum við líklegt að einkaneysla haldi áfram að vaxa jafnt og þétt á næstu misserum.