Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kenndu barninu þínu þessa einföldu reglu

Hlutfall 18-29 ára af þeim sem leita til Umboðsmanns skuldara hefur á undanförnum 7 árum vaxið úr 5% í 42%.


XXX Rottweilerhundar halda því fram að eina reglan sé að negla en ég ætla að leyfa mér andmæla því pent. Ég fæ kannski kjarnyrt lag frá þeim kumpánum lag beint í andlitið en það verður bara að hafa það.

Þegar kemur að fjármálalegu uppeldi barna, sem svo allrar sanngirni sé nú gætt var varla það sem hundarnir áttu við, er reglan þessi: Aldrei kaupa neitt og borga seinna.

Of lítið rætt um peninga

Á hverjum vetri hitti ég hundruð nemenda við framhalds- og gagnfræðaskóla og spyr yfirleitt hvort rætt sé um peninga á heimilinu. Því miður virðist allt of lítið vera um slíkt og mikið vanta upp á að línurnar séu lagðar heima fyrir. Það er grundvallaratriði í uppeldi barna að leggja þeim línurnar varðandi skynsamlega fjármálahegðun og ef slíkt vantar alfarið er hætt við að lærdómur seinna meir geti orðið ansi kostnaðarsamur.

Hlutfall 18-29 ára af þeim sem leita til Umboðsmanns skuldara hefur á undanförnum 7 árum vaxið úr 5% í 42% og hlutfall skjólstæðinga stofnunarinnar með smálán á sama tíma úr 6% í 57%. Þetta eru alvarleg tíðindi og við verðum að taka höndum saman við að grípa þarna inn í.

Verðmætur varasjóður

Einföld og skýr skilaboð til barna eru að forðast með öllu skammtíma- og neyslulán. Besta leiðin til að tryggja að slík lán séu aldrei tekin er að passa upp á að eiga alltaf varasjóð sem hægt er að ganga á ef eitthvað kemur upp á. Hversu stór slíkur sjóður skal vera er smekksatriði en ef við eigum sem dæmi alltaf til 100.000 krónur er ólíklegt að sú staða komi upp að taka þurfi lán fyrir óvæntum útgjöldum.

Þó þægindi þess að kaupa strax og borga síðar séu gjarnan auglýst er ekki þar með sagt að það sé góð hugmynd. Að temja sér slíkt er með því dýrasta sem í boði er og algengt er að kostnaðurinn hlaupi á tugum prósenta. Það gefur auga leið að með því að forðast slíka lántöku eins og heitan eldinn er börnunum okkar betur borgið.

Pistillinn birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál