Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Kaupmáttur stöðugur en störfum fækkar

Útlit er fyrir að Kórónukreppan verði fyrsta samdráttarskeiðið í nútíma hagsögu Íslands þar sem kaupmáttur launa gefur ekki eftir samfara auknu atvinnuleysi og falli landsframleiðslu. Það er þó blendin blessun þar sem atvinnuleysi í víðum skilningi verður líkast til bæði meira og langvinnara fyrir vikið. Hlutfall landsmanna sem hefur að starfi að hverfa á komandi fjórðungum mun líklega gefa skýrari mynd af þróun vinnumarkaðar en atvinnuleysistölur einar og sér.


Hagstofan birti nýverið tölur af vinnumarkaði til og með september síðastliðnum. Var þar annars vegar um að ræða mánaðarlega launavísitölu ásamt vísitölu kaupmáttar, en hins vegar niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðskönnun þar sem leitast er við að fá mynd af helstu magnstærðum vinnumarkaðarins.

Flóknari staða á vinnumarkaði en áður

Við fyrstu sýn væri hægt að álykta að þessar tölur dragi upp mynd af allsterkum vinnumarkaði, þrátt fyrir allt. Kaupmáttur launa jókst til að mynda um 3,1% í september frá sama mánuði árið 2019 þrátt fyrir að verðbólga hafi mælst 3,2% í mánuðinum. Þá var aðeins 4,1% svarenda vinnumarkaðskönnunarinnar í mánuðinum í þeim skilningi að vera án atvinnu og í leit að starfi.

Hér er þó ekki allt sem sýnist. Hagstofan bendir sjálf á þau vandkvæði sem fylgja því að notast við hefðbundna aðferðafræði í vinnumarkaðskönnun á „fordæmalausum tímum“, svo sú klisja sé tuggin enn og aftur. Bendir stofnunin til að mynda á að vísbendingar séu um brottfallsskekkju í svörum við könnuninni. M.ö.o. virðast þeir sem eru á atvinnuleysisskrá vera ólíklegri til þess að svara könnuninni en aðrir. Auk þess er bent á að hinar snörpu sviptingar sem orðið hafa í mannmörgum greinum á borð við ferðaþjónustu auk óvissu um ráðningarsamband við fyrri atvinnurekanda (t.d. vegna hlutabótaleiðar) hafi hugsanlega áhrif um þessar mundir.

Hagstofan bendir í umfjöllun sinni á að aðrir mælikvarðar á borð við slaka á vinnumarkaði kunni að henta betur í núverandi árferði til þess að fá glögga mynd af þróun vinnumarkaðar. Er þá bæði litið til þeirra sem eru atvinnulausir eða -litlir samkvæmt venjulegri aðferðafræði og líka þeirra sem vantar vinnu í víðum skilningi en falla ekki undir þá skilgreiningu að vera án vinnu, vera að leita og geta hafið störf innan skamms. Reiknast Hagstofunni til að á þennan kvarða sé slaki á vinnumarkaði meiri um þessar mundir en hann hefur verið frá árinu 2015.

Starfandi hefur fækkað umtalsvert

Annar kvarði á ástand vinnumarkaðar er hlutfall starfandi af mannfjölda. Er þá fjöldi þeirra sem var við vinnu á hverjum tíma borinn saman við heildar mannfjölda á vinnualdri (16-74 ára). Eins og sjá má á myndinni hefur þetta hlutfall lækkað skarpt frá miðju síðasta ári og mælist nú 75,6% undanfarna 6 mánuði. Sé horft til þróunar hlutfalls starfandi samhliða þróun atvinnuleysis minnir staðan óneitanlega á fyrstu ár áratugarins þar sem hagkerfið hafði búið við djúpa kreppu árin tvö á undan.

Munurinn á stöðunni nú og þá er hins vegar að við erum um þessar mundir stödd mun fyrr í kreppunni en raunin var árin 2011-2012. Það eru því miklar líkur á að bæði eigi atvinnuleysi eftir að aukast og hlutfall starfandi að lækka enn um sinn.

Erum við að fórna störfum fyrir kaupmátt?

Það er afar óvenjulegt í íslenskri hagsögu að laun haldi í við verðlag þegar verulega gefur á bátinn í hagkerfinu. Frá árinu 1980 hefur ávallt farið saman samdráttur í vergri landsframleiðslu sem nær yfir heilt ár eða meira og kaupmáttarrýrnun...þar til nú. Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í síðasta mánuði er gert ráð fyrir að kaupmáttur launa haldi áfram að vaxa allan spátímann þótt vöxturinn verði vissulega hægari en verið hefur. Er það vissulega gleðiefni fyrir þá sem halda vinnu og endurspeglar m.a. aukna trú á getu hagstjórnaraðila til viðbragðs og stórbætta eignastöðu þjóðarbúsins í flestum skilningi.

Sá er hins vegar hængur á að atvinnuleysi lítur út fyrir að ná sögulegum hæðum á komandi misserum. Það er út af fyrir sig eðlilegt þegar jafn harður skellur dynur á stærstu útflutningsgrein landsins þar sem allt að 14% starfa hefur tengst beint eða óbeint síðustu ár. Meira áhyggjuefni er að útlit er fyrir að atvinnuleysið gæti orðið talsvert langvinnt í þetta skiptið. Spá okkar gerir til að mynda ráð fyrir að atvinnuleysi verði 7,6% árið 2021 og tæplega 5% árið 2022 þrátt fyrir forsendu um að ferðaþjónusta nái sér nokkuð fljótt á strik þegar lengra líður á spátímann. Er þá ekki horft til hugsanlegrar minnkandi atvinnuþátttöku líkt og fjallað er um hér að ofan.

Við erum heldur ekki ein um þessa skoðun. Nýlegar hagspár hljóða upp á atvinnuleysi á bilinu 6,8% - 8,4% á næsta ári og 4,7% - 6,3% árið 2022. Byrðum kreppunnar verður því líklega í mun meiri mæli en oftast áður misskipt milli þeirra sem hafa starf meðan hún gengur yfir og hinna sem verða án vinnu um skemmri og sér í lagi um lengri tíma. Hlýtur það að vera aðilum vinnumarkaðar umhugsunarefni, en um langt skeið höfum við Íslendingar átt því láni að fagna að búa að jafnaði við eitt minnsta atvinnuleysi sem þekkist meðal þróaðra ríkja.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband