Hér er þó ekki allt sem sýnist. Hagstofan bendir sjálf á þau vandkvæði sem fylgja því að notast við hefðbundna aðferðafræði í vinnumarkaðskönnun á „fordæmalausum tímum“, svo sú klisja sé tuggin enn og aftur. Bendir stofnunin til að mynda á að vísbendingar séu um brottfallsskekkju í svörum við könnuninni. M.ö.o. virðast þeir sem eru á atvinnuleysisskrá vera ólíklegri til þess að svara könnuninni en aðrir. Auk þess er bent á að hinar snörpu sviptingar sem orðið hafa í mannmörgum greinum á borð við ferðaþjónustu auk óvissu um ráðningarsamband við fyrri atvinnurekanda (t.d. vegna hlutabótaleiðar) hafi hugsanlega áhrif um þessar mundir.
Hagstofan bendir í umfjöllun sinni á að aðrir mælikvarðar á borð við slaka á vinnumarkaði kunni að henta betur í núverandi árferði til þess að fá glögga mynd af þróun vinnumarkaðar. Er þá bæði litið til þeirra sem eru atvinnulausir eða -litlir samkvæmt venjulegri aðferðafræði og líka þeirra sem vantar vinnu í víðum skilningi en falla ekki undir þá skilgreiningu að vera án vinnu, vera að leita og geta hafið störf innan skamms. Reiknast Hagstofunni til að á þennan kvarða sé slaki á vinnumarkaði meiri um þessar mundir en hann hefur verið frá árinu 2015.
Starfandi hefur fækkað umtalsvert
Annar kvarði á ástand vinnumarkaðar er hlutfall starfandi af mannfjölda. Er þá fjöldi þeirra sem var við vinnu á hverjum tíma borinn saman við heildar mannfjölda á vinnualdri (16-74 ára). Eins og sjá má á myndinni hefur þetta hlutfall lækkað skarpt frá miðju síðasta ári og mælist nú 75,6% undanfarna 6 mánuði. Sé horft til þróunar hlutfalls starfandi samhliða þróun atvinnuleysis minnir staðan óneitanlega á fyrstu ár áratugarins þar sem hagkerfið hafði búið við djúpa kreppu árin tvö á undan.